Kaþólska kirkjan er enn í dag ein valdamesta stofnun heims, þótt völd hennar og áhrif hafi vissulega dvínað frá því sem var. Regluverk og innra skipulag kirkjunnar byggist á aldagömlum merg og með sanni má segja, að engin núverandi alþjóðastofnun standi kaþólsku kirkjunni á sporði hvað það varðar. Um þessar mundir eru samankomnir í Vatíkaninu valdamestu menn kirkjunnar að sjálfum páfa undanskildum; kardínálarnir. Þótt hinn opinberi tilgangur samkomunnar sé að ræða stöðu kaþólsku kirkjunnar, dylst engum hvað raunverulega býr að baki.
Jóhannes Páll páfi II hefur nú setið á páfastóli í rúmlega 22 ár og hefur heilsu hans hrakað verulega síðstu árin. Hann hefur því kallað saman alla kardínála kirkjunnar til að gefa þeim færi á að koma auga á eftirmann sinn, en það tíðkast ekki að einstakir kardínálar gefi kost á sér til „embættis“ páfa, heldur eru þeir valdir – hver gæti svo sem gefið kost á sér til að vera fulltrúi almættisins hér á jörð? Af þeim 134 kardínálum sem nú stitja fundinn í Vatíkaninu hefur Jóhannes Páll II skipað 124 en tíu voru kardínálar þegar hann varð páfi. Kardínálarnir koma frá 61 landi en flestir þeirra koma frá Ítalíu, eða 23. Fjöldi kardínála frá rómönsku Ameríku hefur vaxið nokkuð síðustu árin og mynda þeir nú eina stærstu blokkina með 27 kardínála.
Margir eru þeirrar skoðunar að næsti páfi verði frá rómönsku Ameríku, enda er vöxtur og viðgangur kaþólsku kirkjunnar einna mestur á því svæði. Ekki er talið að áherslubreytinga í trúarlegum efnum sé að vænta með nýjum páfa, enda eru flestir þeirra kardínála sem Jóhannes Páll II skipaði mjög íhaldssamir. Nýjum páfa gætu þó fylgt annars konar áherslubreytingar. Þegar Pólverjinn Jóhannes Páll settist í páfastól fyrir rúmum 22 árum hóf hann linnulausa baráttu gegn kúgun Sovétríkjanna sálugu yfir ríkjum Austur-Evrópu, einkum Póllandi. Er páfa jafnframt eignaður nokkur heiður af falli Sovetríkjanna.
Það er engum vafa undirorpið að páfi kaþólsku kirkjunnar er einn áhrifamesti maður heims hverju sinni. Hundruð milljóna manna hlýða orðum hans, eins og þau komi frá almættinu, og hann getur því haft mikil áhrif á þankagang stórs hluta mannkyns. Einhver þeirra 134 kardínála, sem nú sitja í Synod-salnum í Vatíkaninu, mun í náinni framtíð komast í þessa stöðu.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021