Allf frá miðöldum hefur það tíðkast að gefa veðurfyrirbrigðum nöfn. Fram á seinustu öld var algengast að skíra fellibylji eftir dýrlingum. Þannig lenti hin heilaga Anna til dæmis á Púerto Riko sumarið 1826 með tilheyrandi mannfalli og leiðindum og hinn heilagi Filippus bætti um betur rúmri hálfri öld síðar.
Það var síðan árið 1952 sem Alþjóða veðurfræðistofnunin (WMO) tók upp staðlað nafnakerfi til notkunar í samskiptum manna á milli. Mannanöfn falla, nefnilega, óneitanlega betur að töluðu máli en upprunahnit og -dagsetning, hin stöðluðu auðkenni þessara veðurfyrirbrigða. Fram til 1979 var fylgt þeirri hæðnislegu venju að notast einungis við kvenmannsnöfn en á það ár var karlmannsnöfnum bætt við.
En hver ræður því hvaða fellibylur muni heita hvað? Er hlutað til um nöfn í starfsmannapartýum WMO? Er það fyrsti veðurfræðingurinn sem kemur auga á gerpið sem fær að skíra það eftir ófæddri dóttur hálfsvila síns?
Nei, svo ljómisveipað er það ekki. WMO notast við fyrirfram ákveðna lista. Fyrir hvert ár er tekið frá 21 nafn – eitt fyrir hvern bókstaf í latneska stafrófinu, að undanskildum stöfunum Q, U (óheppinn, Unnar), X, Y og Z . T.d. var löngu á ákveðið að fellibyljir ársins 2003 myndu heita (listi fyrir Atlantshafið):
Ana, Bill, Claudette, Danny, Erika, Fabian, Grace, Henri, Isabel, Juan, Kate, Larry, Mindy, Nicholas, Odette, Peter, Rose, Sam, Teresa, Victor og Wanda.
Eins og sést eru nöfnin karlkyns og kvenkyns til skiptis. Áralistarnir í heild sinni eru síðan endurnýttir á 6 ára fresti þannig að við getum átt von á því að fá bylinn Bill aftur árið 2009. Á þessu er þó ein undantekning. Fellibyljir sem valda miklu mann- eða eignatjóni eru látnir setjast í helgan stein og nöfn þeirra eru ekki notuð aftur. Þannig munum við aldrei aftur fá Bob, Mitch eða Lily, sem var sett á eftirlaun á seinasta ári.
Þegar listinn skoðaður hlýtur maður, sem Íslendingur, að fyllast reiði og undrun yfir því hve fá alíslensk nöfn eru listanum. Hvernig stendur á því að væskilsleg nöfn á borð við Tammy, Tony og Teddy eru tekin fram yfir Thor, þrumuguðinn sjálfan? Eða hvernig datt einhverjum í hug að skíra fellibyl „Fabian“. Fabian er kannski ágætis nafn á tískulöggu en ekki á kröftugan, banvænan og tortímandi fellibyl, tákn alls hins karlmannlega!
Í stað þess að heyja rándýra og tilganslausa baráttu fyrir nokkurra vikna dvöl í Öryggisráði SÞ ætti Ríkisstjórn Íslands að krefjast þess við WMO að fellibylurinn sem kemur í staðinn fyrir Lily árið 2008 verði skírður fögru íslensku kvenmannsnafni.
Af nógu er að taka þegar íslensk kvenmannsnöfn sem byrja á L eru annars vegar. Nafnið Laufey mundi sæma hverjum stormi vel. „Fellibylurinn Laufey gekk yfir NA-fylki Bandaríkjanna í nótt.“ Og hvaða Floridabúi gæti lagt sig til hvílu á kvöldin, vitandi að fellibylurinn Ljótunn væri á leiðinni? Nafnið Laugheiður fær blóðið til að frjósa í æðum þótt eflaust mundu fæstir kanar leggja út í framburð þess. Sniðugast væri auðvitað að kalla bylinn Loftveigu, þótt einnig er óljóst hvort að sá orðabrandari mundi komast til skila yfir tungumálamúrinn.
Ef rétt er þekkt til íslenskra fjölmiðla mundi grannt vera fylgst með ferðum „hins íslenska fellibyljar“ um Atlantshafið og fréttir færðar af því hvernig honum hafi verið tekið hér og þar. Þjóðin mundi fylgjast spennt með framgöngu hans og íslensk stjórnvöld mundu senda samúðarkveðjur og biðjast afsökunar á skemmdum af völdum hans.
Einhver mundi kalla hann andfúlasta Íslending allra tíma og einhverjum öðrum mundi þykja það sniðugt.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021