Eitt einkenna Danmerkur, auk t.d. Litlu-Hafmeyjunnar og Tívolís, eru Lego-kubbarnir. Lego hefur um árabil heillað börn víða um heim, og eflaust foreldra þeirra líka, sem keypt hafa leikföngin handa börnum sínum. En undanfarin ár virðist áhugi barna og foreldra á þessum leikföngum hafa minnkað nokkuð og hefur rekstur framleiðanda Lego gengið illa. Er því von að spurt sé; Er Lego enn að gera sig?
Án þess að vera að auglýsa þessi leikföng sérstaklega þá hafa þau frá unga aldri heillað undirritaðan. Hönnunin er í grunninn einföld en býður upp á endalausa möguleika. Það þroskar ímyndunarafl barnanna að nota hinar litlu einingar (Lego-kubbana) til að búa til hús, brýr, turna, vegi, o.fl. – mannvirki af ýmsu tagi. Í skemmtigörðunum Legolandi, sem staðsettir eru á fjórum stöðum í heiminum, er hvað best hægt að sjá hvaða möguleika Legoið felur í sér. Þar má sjá heimsþekkt mannvirki, bæi og borgir, kubbaðar saman af mikilli natni – oft mikið augnakonfekt.
En þrátt fyrir snilldarlega hönnun, einfaldleika og góð áhrif á þroska barnanna, hefur sala Lego-leikfanganna minnkað, ekki aðeins hér í Danmörku, þar sem undirritaður dvelst, heldur víða um heim. Mest hefur salan minnkað í Bandaríkjunum og Asíu og hefur það mikil áhrif á fyrirtækið þar sem 40% Lego-leikfanga eru seld í Bandaríkjunum. Búist er við tapi á starfsemi fyrirtækisins í ár, þó ekki jafnmiklu og árið 2000 þegar tapið var um 12 milljarðar íslenskra króna. Forstjóri fyrirtækisins, Poul Plougmann, sagðist í samtali við dagblaðið Politiken fyrir skömmu, gera ráð fyrir því að það tæki 5 ár að færa reksturinn í viðunandi horf. Hann segist feginn því að Lego-fyrirtækið, sem er í eigu eins manns Kjeld Kirk Kristiansen, sé ekki skráð á verðbréfamarkaði þar sem fjárfestar og greinendur myndu þá ekki hlífa fyrirtækinu, sem von er, og heimta arð af starfsemi þess
Það sem einkum er talið standa fyrirtækinu fyrir þrifum er að Lego-vörurnar hafa ekki þróast í samræmi við tíðarandann og kröfur viðskiptavinanna. Samkeppnin um athygli barnanna, bæði að því er varðar leikföng og aðra afþreyingu, hefur harðnað mjög. Tölvuleikirnir hafa að mörgu leyti tekið við. Í stað þess að nota hendurnar til að kubba, nota börnin þær í auknum mæli á lyklaborð eða stýripinna. Lego-kallarnir (þ.e. forsvarsmenn Lego-fyrirtækisins) hyggjast bregðast við þessu og er markmiðið einkum að nálgast viðskipavinina meira, börnin og foreldrana og greina þarfir þeirra og kröfur. Lego hyggst m.a. opna eigin leikfangabúðir (um 500 talsins um heiminn) og ef til vill fleiri Lego-lönd.
Í barnæsku undirritaðs var Lego aðalmálið. Önnur leikföng voru einnig vinsæl, en skákuðu ekki Lego að vinsældum. Nú virðist öldin önnur og þrátt fyrir há markmið forsvarsmanna Lego er undirritaður ekki viss um að þeir nái að hefja Legoið að nýju til sömu vegsemdar og virðingar og áður. Hann telur það reyndar fremur ólíklegt – Lego virðist einfaldlega ekki vera að gera sig lengur.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006