Tilboðstantra

Knattspyrnumenn ganga kaupum og sölum um allar jarðir og ekkert þykir sjálfsagðara. Hins vegar er amast við fólki sem selur blíðu sína.

Nú er flestum knattspyrnumótum á meginlandi Evrópu lokið og Íslandsmótið nýhafið hér heima. Segja má að eitt af merkjunum um að sumarið sé að koma sé þegar ungt fólk hefur að elta bolta um tún á stuttboxum og bol. Á meginlandi Evrópu stendur leikmannamarkaðurinn í blóma. Stórliðin keppast um að kaupa til sín bestu leikmennina, sem hafa atvinnu af knattspyrnuleik. Þegar þeir ná að sýna hvað í þeim býr eru þeir oft keyptir til stærri liða, oftar en ekki gefur það gamla liðinu þeirra góðan hagnað.

Segja má að sala knattspyrnumanna milli liða sé nokkurs konar „mannsal“ og á mikið skylt við hið svokallaða mansal sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarið í tengslum við vændi á nektardansstöðum. Vændi er stundað á Íslandi, en um það gilda aðrar reglur en um knattspyrnumenn. Samkvæmt íslenskum lögum má stunda vændi ef það er ekki aðalatvinna viðkomandi og þriðji aðili hagnast ekki á því.

Það er ljóst að vændi er stundað í einhverjum mæli á súlustöðum þótt ekki sé eins ljóst hvort það er skipulagt og rekstraraðilar staðanna komi að því. Stundi nektardansari vændi, má færa rök fyrir því að það sé löglegt, enda framfæri hann sér af danstekjunum. Það verður hins vegar að teljast nokkuð ólíkegt að rekstraraðilar staðanna leyfi dönsurunum að stunda vændi án þess að heimta ríflega tíund þar af. Ég skal ekki fullyrða um það, en sé svo er ljóst að vændið er orðið ólöglegt.

Mín skoðun er sú að lögin séu nokkuð vel heppnuð eins og þau eru. Ef einhver vill selja blíðu sína þá ætti hann að geta það. Sé einhver hins vegar þvingaður með einum eða öðrum hætti til að stunda vændi er það mjög alvarlegt mál. Það að lögin banni að þriðji aðili hagnist á vændi tekur fyrir þetta þar sem alltaf hlýtur að vera um efnahagslegar ástæður að ræða. Nú þurfa því yfirvöld að taka til hendinni og hreinsa til í vændisbransanum því líklegt er að þar séu ýmsir með óhreint mjöl í pokahorninu. Auk þess verðum við líklega af þónokkrum skatttekjum þar sem vændi er að mestu stundað á svörtum markaði. Ég fagna því aukinni umræðu og vona að hún leiði til frekari aðgerða.

Hitt atriðið er líklega umdeilanlegra; hvort banna eigi fólki að hafa lífsviðurværi sitt af vændi og einungis leyfa það sem aukavinnu. Svona eins og þegar gamlar konur drýgja ellilífeyrinn með að prjóna og selja peysur. Um þetta atriði er ég á báðum áttum enda má segja að vændi sé á siðferðislega- og félagslega gráu svæði, í það minnsta hér á landi. En eitt er ég sannfærður um; að jafnréttisnefnd ætti að fara ofan í saumana á vændi á Íslandi, það læðist nefnilega að mér sá grunur að þar séu kynjahlutföllin nokkuð ójöfn.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)