Það eru margar konur sem kannast við þá tilfinningu að kaupa sér „stelpublað“. Með „stelpublaði“ á pistlahöfundur við glanstímarit eins og Vogue, Marie Claire, She, Bliss og að sjálfsögðu sjálfa drottningu glanstímaritanna Cosmopolitan. Sumar konur leyfa sér kaup á ofangreindum blöðum og öðrum líkum þeim mánaðarlega eða jafnvel oftar. Aðrar halda slíkum kaupum algerlega á sparinótunum enda ekki lítil útgjöld að fjárfesta í einu slíku blaði. Verðið á blöðunum fer að sjálfsögðu eftir þykkt en sjaldgæft er að hægt sé að kaupa glanstímarit á minna en 900,- og flest þeirra kosta í kringum 1.200,-. Verðið virðist þó ekki koma í veg fyrir sölu tímaritanna enda fátt betra fyrir stelpur eftir erfiðan dag en að setjast niður með tímarit sem skrifað er um stelpur og fyrir stelpur. Eða hvað?
Tímarit sem slík sem að ofan er rætt um eru oft á tíðum miklir áhrifavaldar í lífi kvenna, bæði ungra sem aldinna og hægt er að finna glanstímarit fyrir hvern aldurshóp (s.s. Just 14, Just 17, Seventeen o.fl.) sem telur konum trú um hvernig þeim beri að líta út, hvar þær eigi að eyða peningunum sínum, hvernig þær eigi að lykta, hver sé lykillinn að vinsældum, frama, hamingju og síðast en ekki síst hvernig best sé að stunda kynlíf.
Jafnvel þó pistlahöfundur tilheyri þeim hópi kvenna sem veigra sér ekki við því að fjárfesta í umræddum glanstímaritum til að gera sér dagamun hefur þó stundum freistað hennar að gera samanburð á efni og innihaldi annars vegar og verði hins vegar. Hvað er það sem verið er að greiða fyrir?
Í bresku útgáfu Cosmopolitan frá mars þessa árs kennir margra grasa. Blaðið kostaði 1.160,- út úr búð á Íslandi og fyrir þann pening var hægt að lesa allt um auðveldar leiðir til að breyta laginu á rassinum, um pör sem borga vændiskonum til að krydda kynlífið hjá sér og um þá fimm leiki sem maður þarf að leika til að hitta draumaprinsinn og halda honum. Blaðið var 253 blaðsíður og þar af voru 115 bls. helgaðar beinum auglýsingum. Hér eru ekki taldar með þær óbeinu auglýsingu sem keyptar eru inn í blaðið í formi tískuljósmynda, farða- og hárvöruráðlegginga o.s.fv.
Svipaða sögu er að segja um önnur tímarit sem pistlahöfundur skoðaði. Þar var að finna umfjöllun um hvernig á að lesa hug karlmanna, 43 leiðir til að fá karlmenn til að tæla sig, hvað karlmönnum finnst um kynlíf, hvernig á að fullnægja karlmanni með mismunandi leiðum í heilan mánuð, 10 reglur fyrir hið fullkomna framhjáhald, hvernig á að heilla mömmu hans upp úr skónum, hvernig á að losna við appelsínuhúð, hvernig á að eignast ríkan maka og hvað eru mest kynæsandi baðfötin fyrir þitt vaxtarlag. Auglýsingarnar voru hlutfallslega ekkert færri í þessum blöðum en hinu fyrsta og það eina sem raunverulega skildi á milli voru stjörnuspárnar – jafnvel þó þeim væri ætlað að gilda fyrir sama tímabil!
Það er úr vöndu að ráða þegar velja á úr hverjum maður borgar fyrir að leggja sér lífsreglurnar. Í dag er áreitið mikið og hinir ýmsu aðilar keppast um að vinna hylli manna á ýmsum sviðum. Ekki er alltaf gott að vita hverjum skal trúa og hverjum ekki. Hvað er mikilvægt og hvað ekki? Pistlahöfundur hefur þó komist að þeirri niðurstöðu að peningunum er betur varið í aðrar lystisemdir bókabúðana en glanstímarit fyrir konur (eða karlmenn ef því er að skipta) og eftir næsta erfiða vinnudag verður eitthvað annað með í farteskinu á leiðinni heim en Cosmopolitan. Það er þá vonandi að eigið hyggjuvit fái að ráða skoðunum kvenna á því hvað það er sem skiptir máli í lífinu, hvernig tíma þeirra er best varið, hvern ber að elska og hvers konar kynlíf veitir þeim mesta ánægju. Þegar það er komið á hreint má e.t.v. flissa yfir Cosmopolitan endrum og sinnum – á tannlæknastofum!!
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008