Sprottið hefur upp áhugaverð umræða að undanförnu um byggingu jarðganga til Vestmannaeyja og birtist mjög góður pistill þess efnis á Deiglunni fyrir skömmu. Umræða um jarðgöng til Eyja er ekki ný af nálinni en áhugavert er að nú ber hún vott um ný viðhorf eða breyttan tíðaranda því fylgjendur gangagerðarinnar vilja nú sýna fram á að göngin séu fjárhagslega hagkvæm.
Jarðgangagerð á Íslandi hefur löngum verið þrætuepli landsmanna og oft dregið taum af deilum á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Óopinber stefna síðustu ríkisstjórna hefur verið að byggja ein til tvenn jarðgöng á kostnað skattgreiðenda á hverju kjörtímabili sem dreift hefur verið (nokkuð ójafnt) á milli landshluta. Með tilkomu Hvalfjarðarganga var hins vegar stigið nýtt skref í jarðgangagerð því um einkaframkvæmd var að ræða og í fyrsta sinn á Íslandi var gerð krafa um að bygging samgöngumannvirkis yrði fjárhagslega hagkvæm. Margir mótmæltu þeirri framkvæmd á sínum tíma en óánægjuraddir þögnuðu fljótt er ljóst varð hve mikilli velgengi göngin áttu að fagna.
Í kjölfar Hvalfjarðarganga má segja að viðhorfsbreyting hafi orðið á meðal marga landsmanna hvað jarðgöng varðar og kröfur um fjárhagslega hagkvæmni slíkra framkvæmda urðu sífellt háværari. Enn eru þó flestir stjórnmálamenn fylgjandi óarðbærum samgönguframkvæmdum á kostnað skattgreiðenda en það skýrist án efa af atkvæðavægi landsbyggðar í stjórn landsins. Það vakti líka athygli pistlahöfundar á dögunum að heyra samgönguráðherra taka vel í hugmyndir um einkaframkvæmd Sundabrautar en þvertaka jafnframt fyrir að setja arðsemiskröfu á Héðinsfjarðargöng.
Á næstu 50-100 árum eiga Íslendingar eflaust eftir að bora undir hvern fjörð, í gegnum hvert fjall og brúa allar ár á Íslandi, er það vel. En umræða um fjárhagslega hagkvæmni einstakra framkvæmda á eftir að þróast og skoðanir landsmanna á skyldu ríkisins í þessum efnum eftir að breytast. Það er fagnaðarefni að stuðningsmenn Eyjaganga skuli tefla fram arðsemisútreikningum í baráttu sinni og gera þ.a.l. skil skýrari á milli á milli samneyslu og einkaneyslu. Tákn um nýja tíma.
PS:
Það er þó eitt sem vekur athygli pistlahöfundar við arðsemisútreikninga við Eyjagöng sem hann má til með að nefna. Því hefur verið haldið fram að fjármunir geti sparast við það að dýr þjónusta á vegum hins opinbera færist upp á land sem og að Eyjamenn hafi greiðari aðgang að þjónustu þar. Það er rétt en hvaða gagn er að því fyrir Eyjamenn? Við tilkomu jarðganga til Súgandafjarðar gerðist einmitt það að þjónusta færðist til Ísafjarðar. Nú versla íbúar Suðureyrar í Bónus á Ísafirði, fara þar í klippingu o.s.frv. og störf hafa væntanlega tapast í byggðarlaginu í kjölfarið. En varla er það markmið með gangagerðinni að fækka störfum í heimabyggð?
Pistilinn hér að ofan mætti mætti einnig nefna: Héðinsfjarðargöng IV, til samræmis við samnefndan greinaflokk hér á Deiglunni.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009