Svíar ganga að kjörborðinu í dag til að kjósa um EMU-aðild. Kosningarnar fara fram í skugga morðsins á Önnu Lindh, utanríkisráðherra og mikils stuðningsmanns evrunnar. Var réttlætanlegt að halda atkvægreiðslunni til streitu þrátt fyrir hinn skelfilega atburð?
Fyrr í vikunni leit út fyrir öruggan sigur andstæðinga Evrunnar en skoðanakannanir seinustu daga benda til að dregið hafi saman með fylkingunum og sumar þeirra gáfu jafnvel til kynna naumt forskot fylgismanna evrunnar. Fari svo að evran verði samþykkt mun það vera sannkallað kraftaverk miðað við stöðuna fyrir viku síðan.
Af þessu ástæðum hafa ýmsir evrópuskeptískari stjórnmálaáhugamenn gagnrýnt þá ákvörðun að fresta ekki kosningunni. Væri ekki rétt að veita þjóðinni svigrúm til að komast yfir sorgina og reiðina og koma í veg fyrir að hún tæki ákvörðun í hita augnablikins?
Sá sem þetta skrifar er á öðru máli. Væri það réttlátt að fórna gríðarlegum fjármunum ríkisins vegna glæps sem einn vitfirringur hefur framið? Mundi það þjóna betur lýðræðinu, sér í lagi þegar útlitið er fyrir meiri kjörsókn í kjölfar atburðanna?
Við megum ekki gleyma því að fyrir nokkrum dögum síðan hafði nei-fylkingin rúmlega 10% forskot. Væri það sanngjarnt að svipta þá þeim góðu sigurmöguleikum sem slíku forskoti fylgja? Hver yrðu viðbrögð andstæðinganna ef sænska stjórnin hefði blásið af kosningar í ljósi yfirvofandi taps og já-ið hefði síðan haft betur þegar kosið yrði t.d. eftir tvo mánuði? Hefðu andstæðingar EMU-aðildar ekki getað haldið fram að þeir hafi verið rændir sigrinum?
Ég hef satt að segja ekki mikla trú á að já-ið hafi sigur.Flestir höfðu þegar tekið sína ákvörðun og þrátt fyrir að reiði fólks geti birtst í skoðanakönnunum mun menn ekki leika sér að atkvæði sínu til að koma á framfæri skoðun sinni á einhverju öðru máli. Fari hins vegar svo að stór hluti fólks skipti um skoðun í kjölfar fáranlegs morðs á tveggja barna móður má spyrja sig: Á hvaða hátt var skoðun þeirra betur ígrunduð fyrir viku síðan en einmitt nú? Var skoðun þeirra í skoðanakönnun fyrir viku síðan það „réttari“ að réttlátt sé að blása af kosningarnar þótt fylgið skipti um stað?
Fólk tekur ákvarðanir sínar á ólíkum forsendum. Sumir eru andvígir Evrunni af efnahagslegum aðstæðum, sumir af þjóðernislegum, einhverjum finnst evran ljót og enn öðrum er almennt illa við breytingar. Eflaust má kalla sumar þessara ástæðna eðlilegar en aðrar ekki, en lýðræðið byggir á því að fólk sé í aðalatriðum skynsamt og við verðum að treysta því fyrir atkvæði sínu.
En það er kosið á fleiri stöðum í dag. Eistar kjósa í dag um hvort þeir vilja að landið gangi í Evrópusambandið. Flestir telja að aðild verði samþykkt þótt á vef Heimssýnar sé vitnað í talsmann hinna virðulegu samtaka Research Center Free Europe sem vonar enn hið gagnstæða. Þeir sem vilja fræðast frekar um samtökin geta gert það á glæsilegum enskumælandi vef samtakanna.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021