Það er eðlilegt að framboð sem hefur enga hugsjón aðra heldur en þá að komast til valda fái lánaðar hugsjónir og hugmyndir frá öðrum. R-listinn í Reykjavík var stofnaður til höfuðs Sjálfstæðisflokknum með það eitt að markmiði að koma honum frá. Þeir sem að honum stóðu voru tilbúnir til að gefa eftir grundvallar sjónarmið og fórna hugsjónum sínum fyrir völdin í borginni. Þrátt fyrir að þetta hafi legið fyrir frá því að R-listinn var stofnaður fyrir tæpum ártug, og þrátt fyrir að maður héldi að þetta samkrull lopapeysu kommúnista, þéttbýlis framsóknarmanna og pirraðra krata gæti ekki komið mönnum á óvart, þá gera þeir það nú samt.
R-listinn hefur alveg frá stofnun verið í hugmyndafræðilegu tómarúmi, hans helsti sýnilegi tilgangur hefur verið að einstakir borgarfulltrúar gætu makað krókinn, en nú hefur orðið breyting á. R-listinn er orðinn að helsta frjálshyggjuflokki í Reykjavík. Hann hefur gagnrýnislaust tekið upp hugmyndir hins þekkta og virta kyndilbera frjálshyggju, nóbelsverðlaunahafans í hagfræði Dr. Miltons Friedmans um ávísanakerfi í skólum og heimfært það upp á félagslega húsnæðiskerfið í borginni.
Það er vel skiljanlegt að R-listinn grípi til einhverra aðgerða því fyrirtækið Félagsbústaðir sem átti að bjarga þessum málaflokki í borginni hefur gersamlega brugðist, eins og stefna R-listans í málaflokknum öllum. Biðlistar eftir félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík hafa aldrei verið lengri og íbúðum hefur ekki fjölgað í takt við breytta tíma. Frá því að Félagsbústaðir voru stofnaðir árið 1997 hafa biðlistarnir stöðugt verið að lengjast og þær fáu íbúðir sem settar hafa verið inn í kerfið ná engan veginn að anna eftirspurn. Hugmyndafræði sú sem R-listamenn komu með inn í borgina hefur ekki virkað. Í valdatíð Sjálfstæðisflokksins voru þessu mál hins vegar í ágætu jafnvægi.
Flokkarnir sem standa að R-listanum kenna sig allir við félagshyggju að meira eða minna leyti, þegar lausnir félagshyggjunnar duga ekki til þess að leysa félagsleg vandamál, þá leita vinstri mennirnir annað. Þeir hefðu nú reyndar getað sparað sér ómakið, því það mátti vera hverjum hugsandi manni ljóst að það kerfi sem R-listinn kom á í borginni myndi ekki virka.
En hverjum hefði dottið í hug að R-listinn, stolt íslenskra vinstri manna, þyrfti að leita í smiðju hörðustu frjálshyggjumanna til að leysa félagsleg vandamál í Reykjavíkurborg. Pólitíkin er skemmtileg og maður veit aldrei hverju von er á, Sovétríkin hrundu og vestrið sigraði austrið, kaptítalisminn sigraði kommúnisman og R-listinn er orðinn strærsti frjálshyggjuflokkurinn í Reykjavík. Ætli Hannes Hólmsteinn viti af þessu?
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020