Afstaða manna til fóstureyðinga er mikið hitamál í sumum löndum og í Bandaríkjunum er hyldýpisgjá á milli andstæðra fylkinga þegar kemur að þessu viðkvæma máli. Það er til að mynda talið eitt stærsta málið, sem nýkjörinn forseti, George W. Bush, mun hafa með höndum, að skipa íhaldssaman dómara í Hæstarétt Bandaríkjanna til að þrengja að heimildum til fóstureyðinga. Hér á landi er fóstureyðing ekki pólitískt mál og fjarri því að vera hitamál. Eins konar consensus virðist ríkja um fóstureyðingar, þ.e. að menn eru almennt umburðarlyndir í garð fóstureyðinga, og jafnvel mætti ganga svo langt að segja, að svo virðist sem þorri fólks telji fóstureyðingar sjálfsagðan hlut.
Líklega eru hörðustu andstæðingar fóstureyðinga þeir sem teljast til heitttrúaðra en á öndverðum meiði eru hinir ofur frjálslyndu, sem sjá ekkert athugavert við fóstureyðingu og telja það jafnvel til grundvallarmannréttinda kvenna að fá að eyða fóstri sínu. Sú umræða sem á sér stað í Bandaríkjunum mótast mjög af skoðanaskiptum þessara hópa. Eins og vant er, þá tjáir ekki að deila við þá sem hafa æðri sannfæringu í krafti trúar sinnar. En hinir síðarnefndu vitna gjarnan í náttúrurétt máli sínu til stuðnings og það má rökræða.
Því hefur t.a.m. verið haldið fram að einungis einstaklingar geti notið náttúruréttar og þar sem fóstur sé ekki einstaklingur eigi það ekki sjálfstæðan rétt til lífs. Þá vaknar spurningin hvenær verður til einstaklingur? Hinir sömu segja, að einstaklingur verði fyrst til þegar hann getur lifað sjálfstæðu lífi, óháð móður sinni, og eiga þá væntanlega við þegar skilið hefur verið milli barns og móður eftir fæðingu. Þá sé viðkomandi orðinn einstaklingur sem nýtur réttar til lífs samkvæmt náttúrurétti.
En hvað með fyrirbura sem enga lífsvon eiga nema með rándýrri umhyggju á fullkomnustu sjúkrahúsum? Eru þeir einstaklingar eða eru þeir tæknilega ennþá fóstur og því engin rök samkvæmt náttúrurétti til að halda þeim á lífi? Og hvað um þá sem kannski aldrei geta lifað sjálfstæðu lífi, óháð pabba og mömmu? Geta þeir talist einstaklingar og þar með átt sjálfstæðan rétt til lífs? Þannig mætti áfram halda en niðurstaðan hlýtur að verða sú, að þau rök, að fóstur njóti ekki verndar til lífs samkvæmt náttúrurétti, halda ekki vatni – nema auðvitað í krafti æðri sannfæringar…
Hins vegar er ekki þar með sagt að undir engum kringumstæðum megi ganga á rétt fósturs til lífs. Um fóstureyðingar hér á landi gilda lög nr. 25 frá 1975. Ólíkt því sem margir kunna að halda, þá eru fóstureyðingar óheimilar hér á landi, nema til þeirra standi ríkar ástæður. Samkvæmt lögunum á kona ekki sjálfstæðan rétt til að eyða fóstri, heldur kann sá réttur að skapast vegna sérstakra aðstæðna sem nánar eru tilgreindar í lögunum.
Í 9. gr. laganna er fjallað um þau tilvik, þar sem fóstureyðing kanna að vera heimil. Greinast tilvikin í annars vegar félagslegar ástæður og hins vegar í læknisfræðilegar ástæður. Þannig er fóstureyðing heimil þegar ætla má að þungun og tilkoma barns verði konunni of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra aðstæðna. Nú má auðvitað halda því fram að þungun og tilkoma barns sé alltaf á einhvern hátt „félagslega íþyngjandi“ fyrir móðurina og hennar nánustu. Lögin veita hins vegar nokkuð góða leiðbeiningu um við hvað skuli miðað í þessum efnum. Í fyrsta lagi getur fóstureyðing verið heimil þegar kona hefur alið mörg börn og skammt er liðið frá síðasta barnsburði. Í öðru lagi ef konan býr við bágar heimilisaðstæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu. Og í þriðja lagi ef kona getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt. Þessi upptalning er ekki tæmandi en aðrar ástæður þurfa ð vera „fyllilega sambærilegar“ til að heimild til fóstureyðingar sé til staðar.
Þá eru 2. tl. 9. gr. taldar upp læknisfræðilegar ástæður sem varða andlega og líkamlega heilsu móðurinnar og hættu á að barn fæðist vanskapað eða alvarlega sjúkt vegna erfðagalla eða göllunar í fósturlífi. Loks er í 3. tl. veitt heimild til fóstureyðingar ef þungun er að rekja til nauðgunar eða annars refsiverðs atferlis.
Árlega eru framkæmdar hér á landi á annað þúsund fóstureyðingar. Þetta er nokkuð há tala í samanburði við fæðingartölur. Eftir því sem Deiglan kemst næst, þá er fáum konum synjað um heimild til fóstureyðingar. Það vekur nokkra furðu að þær aðstæður sem tilgreindar eru í lögunum, og verða að teljast nokkuð sérstakar, skuli eiga við um vel á annað þúsund þungaðar konur á hverju ári. Ef fóstureyðing er framkvæmd án þess að skilyrði laga nr. 25 frá 1975 séu uppfyllt, þá hlýtur slíkt að teljast refsiverður verknaður. Það er umhugsunarvert.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021