Óhugur og sorg

annalindh.jpgMorðið á Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar er einn óhugnanlegasti atburður í sögu Norðurlanda og reiðarslag fyrir hið opna og frjálslega samfélag sem við Norðurlandabúar eigum sameiginlegt.

Anna Lindh (1957 – 2003) var einn frambærilegasti stjórnmálamaður Svía og af mörgum talin arftaki Görans Persons sem forsætisráðherra.

Morðið á Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem lést af sárum sínum í morgun af völdum tilræðis ódæðismanns í gær, er mikið reiðarslag. Með sviplegu fráfalli hinnar 46 ára gömlu Lindh hafa Svíar misst einn af sínum sterkustu og frambærilegustu leiðtogum. Mestur eru auðvitað missir fjölskyldu Lindh, eiginmanns hennar og tveggja kornungra sona þeirra, og þar er sorgin mest.

En morðið, sem framið var á háannatíma í miðborg Stokkhólms í gær, er einnig mikið reiðarslag fyrir sænsk samfélag og um leið hið norræna sem slíkt. Hið opna og frjálsa samfélag, þar sem nándin er svo mikil, að Jón og Gunna geta hvenær sem er rekist á forsætisráðherrann í Nóatúni eða forsetann í Ræktinni, hefur nú orðið fyrir miklu áfalli og ýmsar spurningar verða áleitnar.

Nú eru næstum tuttugu ár síðan Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar féll fyrir morðingjahendi að kvöldlagi í miðborg Svíþjóðar. Palme var skotinn af stuttu færi og hefur morðingi hans aldrei fundist. Ýmsar kenningar hafa verið uppi um að víg Palmes hafi átt sér pólitískar rætur en aldrei hafa verið færðar sönnur á það.

Auðvitað verður aldrei hægt að vernda líf nokkurs manns algjörlega ef á annað borð til eru þeir sem vilja viðkomandi feigan. Stjórnmálamenn á Norðurlöndum eru á aftur á móti afar berskjaldaðir, ekki einungis fyrir kaldrifjuðum morðingjum, heldur einnig fyrir vitstola brjálæðingum.

Það er til að mynda talsverður munur á þessum tveimur ofangreindu glæpaverkum. Víg Palmes á sér stað seint að kvöldlagi, ódæðismaðurinn beitir skammbyssu og morðvopnið finnst aldrei, fáir ef nokkrir sjá ódæðismanninn og hann hverfur út í myrkrið. Morðið í gær er af öðrum toga; framið um hábjartan dag í fjölmennri verslunarmiðstöð í miðborg Stokkhólms, fjölmargir sjónarvottar, maðurinn hafði að sögn sjónarvotta veifað hnífnum nokkru áður en árásin átti sér stað, hann var fremur áberandi klæddur, skildi morðvopnið eftir á staðnum og föt hans fundust skammt frá. Aðalatriðið hér er að svo virðist sem morðið á Önnu Lindh hafi hvorki átti sér langan né ígrundað aðdraganda.

Þótt stjórnmálamenn á Norðurlöndum séu vissulega opinberar persónur, hefur tilhneiging verið sú hingað til að þeir skeri sig lítið úr fjöldanum, taki þátt í samfélaginu og sinni daglegum erindum sínum eins og annað fólk. Þessi mikla nánd hefur auðvitað augljósa kosti, kjörnir fulltrúar eru í betri tengslum við almenning og þurfa ekki að haga lífi sínu með mjög svo öðruvísi hætti en annað fólk.

Það væri óskandi að þetta þyrfti ekki að breytast. Menn verða hins vegar að spyrja sig áleitinna spurninga í kjölfar hins hryllilega ódæðis í Stokkhólmi í gær.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)