Endurlífgun Evrópusamtakanna hefur hrist töluvert upp í umræðu um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samtökin eru stofnuð af áhugafólki um samstarf Evrópuríkja og upphaflega var markmið þeirra einungis að stuðla að umræðu um Evrópumál. Sú grundvallarbreyting hefur orðið á tilgangi samtakanna, að nú er formlegt markmið þeirra að Íslendingar sæki um aðild að ESB. Samtökin eru því í fylkingarbrjósti íslenskra Evrópusambandssinna.
Burtséð frá afstöðu manna til spurningarinnar um aðild Íslands að ESB, verður að viðurkennast að áróðursstríð Evrópusamtakanna hefur gengið vel síðustu vikur. Stríðsáætlunin er í senn einföld og snjöll. Hún gengur út á að sá fræjum óumflýjanleikans í huga fólks. Megináhersla er lögð á það, að ekki þýði til lengdar að standa gegn tímans þunga nið – aðild Íslands að ESB verði að veruleika fyrr en síðar. Mótleikur andstæðinga aðildar er sá, að leggja áherslu á EES-samninginn og að hann standi fyllilega fyrir sínu. Ekki verður með góðu móti séð að þeim mótrökum hafi verið hnekkt af fylgjendum aðildarumsóknar.
Þá er fiskveiðistefna ESB enn sem myllusteinn um háls sambandssinna hér á landi. Á meðan ekki tekst að sannfæra þjóðina um að Íslendingar muni halda forræði yfir fiskimiðum sínum eftir að hafa gengið í ESB, er ólíklegt að almenn sátt skapist um að sækjast eftir aðild. Skiptar skoðanir eru um fiskveiðistefnuna og er ýmsum sjónarmiðum haldið á lofti í umræðunni. Morgunblaðið hefur að vanda farið fyrir íslenskum fjölmiðlum og fjallað nokkuð ítarlega um þau sjónarmið sem uppi eru. Umræða um ESB hefur reyndar orðið fyrirferðameiri eftir breytingar á ritstjórn blaðsins, enda er Ólafur Þ. Stephensen, nýráðinn aðstoðarritstjóri, nokkuð jákvæður í garð ESB. Styrmir Gunnarsson er hins vegar sagður vera efins um ágæti aðildar og ræður þar mestu spurningin um forræði yfir fiskimiðunum og fullveldisstaða Íslands.
En þrátt fyrir að sums staðar sé tekist á um efnisatriði málsins, fer hin raunverulega barátta fram á öðrum vettvangi og með öðrum aðferðum. Deilunni um Evrópusambandsaðild Íslands má líkja við skotgrafahernað, þar sem annar aðilinn reynir að þreyta hinn til uppgjafar án þess að komi til bardaga eða uppgjörs á opnu svæði. Spurningin er því í raun þessi: mun hugmyndin um óumflýjanleika aðildar verða yfirsterkari trúnni á að núverandi fyrirkomulag standist til lengdar?
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021