Þessa dagana hrúgast bæklingar upp í forstofunni – ekki einungis frá Elko og Rúmfatalagernum heldur frá bönkum landsins sem etja kappi hver við annan í gylliboðum. „Nældu þér í frábæra fartölvu þér að kostnaðarlausu“, „þú þarft hvorki að sjá reikninga né muna eftir að greiða þá“ og fleiri fleygar setningar hafa prýtt auglýsingar frá bönkunum síðustu daga. Er verið að plata einhvern?
Ungt námsfólk er markhópurinn. Þar eru kröfurnar mestar um að eiga falleg föt, góðan síma og síðast en ekki síst, glænýja fartölvu. Bankarnir bjóða upp á lán fyrir nánast öllu saman og láta líta út fyrir að afborgun lána sé ekkert til að hafa áhyggjur af. Þeir svífast einskis þegar afla á nýrra viðskiptavina, stofngjöld og árgjöld eru yfirleitt felld niður fyrsta árið, gjafir boðnar við inngöngu, fríir bíómiðar við skráningu o.fl. Þeir eru alltaf að ná í yngra og yngra fólk og hafa gengið svo langt að bjóða svokölluð útskriftarferðalán fyrir menntskælinga!
Ég er kannski ekkert undrandi á þessum látum í bönkunum, þeir hafa verið að átta sig á því gegnum árin að unga fólkið verður fullorðna fólkið í framtíðinni og því um að gera að ná taki á því sem fyrst. Bankarnir eru oft ansi lunknir við að koma ungmennunum í skuldir, því fyrr því betra, ná þeim strax á 18 ára afmælinu þegar fjármálin eru alfarið komin í þeirra hendur.
Reynslulaus ungmenni taka þátt í þessu með bönkunum með því að eyða gengdarlaust án þess að hugsa nokkuð um skuldadaga. Þegar borgunartími kemur er auðvelt að hlaupast undan með því að taka yfirdrátt eða fá greiðsludreifingu og kaupa sér þannig gálgafrest. Hvað gerist svo oftar en ekki að lokum, skuldirnar lenda á fyrrverandi forráðamönnum – foreldrum.
Námsfólk hérlendis hefur tök á að vinna a.m.k. þrjá mánuði á ári. Þannig getur það safnað ágætum pening fyrir veturinn og dregið lántöku. Samt virðist vera að því meiri peninga sem fólk fær í hendurnar því meiru eyðir það og þ.a.l. virðist sumarinnkoman oft uppurin snemma á haustmánuðum. Bankarnir ættu að grípa þarna inn í með aðstoð og uppástungum um hvernig nýta mætti peninginn betur og eiga hann lengur.
Kannski er þetta vottur um vanþakklæti hjá mér að vera kvarta undan tilboðum bankanna. Það var nú tíðin að fólk fékk ekki lán nema skríða á hnjánum og grjátbiðja bankastjórana. Vissulega er þjónusta bankanna kærkomin fyrir námsfólk sem ekki hefur mikinn pening milli handanna og þarf nauðsynlega á þeim að halda til þess að geta klárað nám sitt. Áhyggjur mínar felast fyrst og fremst í því að bankastofnanir auglýsa nánast ekkert fjármálanámskeið sín eða sparnaðarleiðir sem geta komið sér til góða síðar meir.
Bankastofnanir ættu að leggja jafnmikla áherslu á sparnað og skynsemi í fjármálum hjá ungu fólki og þær gera með lánaauglýsingum sínum. Skuldasöfnun er engum góð hvorki einstaklingnum né hinu opinbera. Kennum unga fólkinu að vera skynsamt í fjármálum og lifa ekki um efni fram.
- Óheimilt eftir kl. 22 - 16. ágúst 2004
- Hvar erum við stödd? - 20. júlí 2004
- Viltu pening? - 9. september 2003