Peter Singer er meðal virtustu, en jafnframt umdeildustu, núlifandi heimpekinga. Hann er þekktastur fyrir bækur sínar „Animal Liberation“, sem sumir kalla biblíu dýraverndunarsinna, og „Practical Ethics“, víðlesnustu siðfræðibók samtímans. Það er því einstaklega ánægjulegt að Heimspekistofnun Háskólans skuli hafa fengið Singer til að halda fyrirlestur hér á landi. Enda var fullt út úr dyrum á fyrirlestrinum, sem fór fram síðasta laugardag í hátíðarsal Háskólans.
Kenningar Singers byggja á hugmyndum um „utilitarianism“, eða nytjahyggju. Slíkar kenningar gera ráð fyrir því að það sem eykur heildarnytjar heimsins sé rétt og það sem dregur úr þeim sé rangt. Þó eru ýmis afbrigði til af nytjahyggju, bæði hvað varðar skilgreininguna á nytjum og eins eru ekki allir sammála um það hverjir skipta máli við mat á nytjum heimsins.
Kjarninn í framlagi Singers er útvíkkun á mengi þeirra aðila sem taka þarf tillit til við ákvörðun nytja. Hann heldur því fram að allar verur sem geta hugsað og fundið til sársauka (conscious beings) skipti máli í því samhengi. Sérstaka áherslu leggur hann á einstaklinga sem gera sér grein fyrir stöðu sinni í alheiminum og hægt er að ímynda sér að hafi „vilja til að lifa“.
Það sem gerir Singer umdeildan er að hann gerir ekki greinarmun á einstaklingum af tegundinni Homo Sapiens og öðrum einstaklingum. Þetta þýðir að í sumum tilfellum getur api átt meiri rétt til lífs í huga Singers en þroskaheftur einstaklingur. Margir hafa misskilið boðskap Singers og halda að þetta þýði að Singer telji ekki að þroskaheftir einstaklingar eigi rétt til lífs. Það er ekki rétt, þvert á móti ber Singer miklu meiri virðingu fyrir rétti apa en flestir aðrir. Singer er til dæmis á því að vestrænt fólk sem hefur nóg til hnífs og skeiðar hafi engan rétt til þess að drepa dýr sér til matar. Hann lifir eftir boðorðum sínum, borðar ekki kjöt, gengur ekki í leðurskóm og forðast eftir fremsta megni að nýta dýraafurðir.
Hann kom þó ekki til að fjalla um þessar kenningar. Hann dró engan dul á að aðalmarkmiðið með komu hans hingað væri að fjalla um tvær nýlegar ákvarðanir Íslendinga, sem honum fannst vanhugsaðar, ef ekki beinlínis rangar. Þetta er annarsvegar bygging Kárahnjúkavirkjunar, og svo nýhafnar hvalveiðar Íslendinga.
Singer byrjaði á að fjalla um vatnsaflsvirkjanir út frá „mannmiðjuðum“ (human-centric) rökum, en út frá útvíkkuðu mengi sem tekur einnig til ófæddra afkomenda okkar. Hann benti á að ósnortin náttúra sé sífellt takmarkaðri auðlind og eftirsóttari. Því væri mun eðlilegra að nýta hana í þágu vistvæns ferðamannaiðnaðar sem ekki skemmir landsvæðið heldur en að nýta hana í framleiðslu áls. Sérstaka áherslu lagði hann á að núlifandi kynslóð hefði ekki rétt til að takmarka val komandi kynslóða. Hann hélt því þó ekki fram að virkjun væri óréttlætanleg í öllum tilfellum, en í einu ríkasta landi veraldar, þar sem er nánast ekkert atvinnuleysi, væri slík framkvæmd hrein firra.
Hann skoðaði því næst hvalveiðar með tilliti til sömu sjónarmiða. Hvalaskoðun blómstrar og taldi Singer að þar væri um að ræða mun réttlátari og vistvænni nýtingu stofnsins. Auk þess nefndi hann að í gegnum tíðina hefðu hvalveiðar nánast útrýmt sumum stofnum. Hann viðurkenndi þó fúslega að þau rök ættu ekki við um hrefnuveiðar Íslendinga.
En Singer lét ekki staðar numið, heldur tók á hvalveiðum út frá víðtækari rökum og sagði að menn yrðu að taka tillit til hvalanna sjálfra. Hann hélt því fram að menn vissu of lítið um hvalinn og samfélagsmynstur þeirra, ýmislegt benti til þess að hvalir syrgi dauða ættingja, og að drápið sjálft væri í mörgum tilfellum of kvalarfullt, þrátt fyrir tækniframfarir í smíði sprengiskutla. Hann endaði svo fyrirlesturinn á að líta aftur á Kárahnjúkavirkjun, en út frá sjónarmiði þeirra dýra sem missa búsetusvæði við virkjunina.
Þótt Singer hafi í fyrirlestrinum haldið sig frá þeim málefnum sem hann er umdeildastur fyrir, komst hann ekki hjá því að svara fyrir þau þegar kom að fyrirspurnunum. Fljótlega eftir að fyrirspurnartíminn hófst var hann spurður hvort hann sæi fyrir sér það tilfelli, þar sem manneskja væri svo greindarskert að hún ætti ekki rétt til lífs. Hann svaraði með dæminu um börn sem fæðast með grunneiningar miðtaugakerfisins, sem stýra ósjálfráðum viðbrögðum, en vantar allan miðheilann og framheilann. Þau hafa því enga möguleika til að hugsa eða skynja sársauka. Hann hélt því fram að ekki væri rangt að taka líf þeirra. Í slíkum tilfellum er vaninn að láta náttúruna hafa sinn gang og deyja börnin oftast innan nokkurra daga. Singer benti á að á nútímasjúkrahúsi væri það mjög stór siðfræðileg ákvörðun að „láta náttúruna hafa sinn gang“, þar sem fyrir hendi eru tæki til að halda lífi í þessum börnum mjög lengi ef viljinn er fyrir hendi.
Gestir virtust nokkuð sáttir við þessi svör, og flestir höfðu meiri áhuga á umræðuefni dagsins en líknardrápum. Ýmsar spurningar voru bornar upp og varðist hann fimlega flestum ádeilum á efnið. Helst mátti gagnrýna svör hans við spurningum um það af hverju hann ákvað að koma til Íslands og mótmæla þessum tilteknu aðgerðum en ekki einhverju öðru. Þegar hann var spurður hvort ekki væri betra að borða hvalkjöt en nautgripakjöt úr nautgripaiðnaði þar sem dýrin lifa í sumum tilfellum við hræðileg skilyrði, svaraði hann því einfaldlega að hann vildi helst ekki bera þetta saman.
Þegar hann fékk spurningu um það af hverju það væri ekki betra að reisa hlutfallslega umhverfisvænt álver á Íslandi í stað þess að reisa óumhverfisvænt álver í þriðja heiminum varð líka fátt um svör. Helst vildi hann að menn drykkju minna af gosi úr áldósum, svo álframleiðsla myndi minnka.
Það olli ákveðnum vonbrigðum að Singer skyldi ekki hafa betri rök fyrir því að hann ákvað að koma til Íslands og mótmæla framboði á tveimur afurðum sem þó eru að mörgu leyti betri en aðrar staðkvæmdarvörur, í stað þess að reyna að mótmæla eftirspurninni á áli og kjöti. Það læddist að manni sá grunur að ástæðan væru sú að málið er heitt í dag, auk þess sem auðveldara er fyrir hann að sjá ávinninginn af þessari baráttu en ef honum tækist einfaldlega að draga úr neyslu á afurðunum.
Hvað sem menn kjósa að kalla Singer, snilling, siðblindan brjálæðing eða populista, þá var mjög gefandi að fá hann til landsins. Það er vonandi að áframhald verði á komu slíkra fræðimanna á vegum þeirra háskóla sem starfræktir eru hér á landi.
Hér á Deiglunni hefur áður verið fjallað um siðfræði Peter Singer, í pistlunum Um rétt til lífs og Eiga dýr einhvern rétt.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020