Þýska landsliðið fyrir úrslitaleikinn á móti Brasilíu á HM 2002
|
Það eru kannski ýkjur að segja að við eigum raunhæfa möguleika á því að komast áfram, í besta falli eigum við raunhæfa möguleika á því að eiga möguleika á því að komast áfram. Ísland er ekki að fara að vinna riðillinn, það er nokkuð ljóst. Hins vegar með því að lenda í öðru sæti komumst við í umspil við aðra þjóð, sem lenti í öðru sæti í sínum riðli, um það hvor komist í lokakeppnina.
Mikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum um leikinn og væntingar Íslendinga eru miklar. Við viljum stig, ekkert minna, og helst sigur! Kannski er það óraunhæft að krefjast þess gegn einni af allra sterkustu knattspyrnuþjóðum heimsins síðustu 50 árin eða svo. Hins vegar má segja að Þjóðverjar séu í tilvistarkreppu á knattspyrnuvellinum þessi árin. Mikil endurnýjun hefur átt sér stað í liðinu og gömlum jöxlum skipt út fyrir nýtt blóð.
Þjóðverjar hafa alltaf farið langt á liðsheildinni og seiglunni en nú skortir þá nógu afgerandi einstaklinga. Þeir hafa að vísu bæversku snillingana Michael Ballack og Oliver Kahn en þeir eru líklega þeir einu sem verða í byrjunarliði þeirra í dag sem geta talist til heimsklassa leikmanna. Þjóðverjar komust þó í úrslitaleik HM á síðasta ári og það er nú ekki lítið afrek. En þó má ekki gleyma því að lið sem telja má sterkari en það þýska, eins og Ítalía og Spánn, duttu úr keppni vegna dómaramistaka sem gerði það að verkum að Þjóðverjar fengu léttari andstæðinga en ella. Auk þessa vantar Þjóðverja í dag vegna meiðsla nokkra sterka leikmenn eins og Dietmar Hamann, Paul Freier og Christoph Metzelder. Ísland hefur ávallt staðið sig vel gegn sterkum þjóðum á heimavelli. Má þar nefna 1-1 jafntefli við heimsmeistara Frakka haustið 1998 og 3-1 sigur á Tékkum fyrir tveimur árum. Að teknu tilliti til þessa er því kannski ekki svo óraunhæft að krefjast þess að Íslendingar nái a.m.k. stigi í dag.
Það er alveg ljóst að íslenskir knattspyrnuáhugamenn mæta á Laugardalsvöllinn í dag til þess að styðja liðið til sigurs. Það er hins vegar skömm að því að ekki komist fleiri á völlinn en raun ber vitni. Uppselt er á lekinn, 7.000 miðar seldir þar af 1.000 til Þjóðverja, en eflaust hefði verið hægt að selja talsvert fleiri. Til samanburðar að þá mættu um 18.000 manns á leik Vals og Benfica 1968 og um eða yfir 12.000 manns á Ísland-Svíþjóð 1994. Einnig er það dapurt hversu hljóðir og tilbreytingarsnauðir íslenskir áhorfendur eru. Er í því sambandi hægt að taka heilshugar undir með Þjóðverjanum sem kvartaði yfir þessu sama í Morgunblaðinu í vikunni. Það er kominn tími til að við sem ætlum á völlinn látum heyra almennilega í okkur og ekki bara: Ísland – klapp klapp klapp – Ísland….
Þessir íslensku áhorfendur eru litríkir. Nú vantar bara að láta í sér heyra.
|
Jafntefli eru ekki vond úrslit og líklega myndu langflestir sætta sig við þá niðurstöðu. Það er þó vonandi að íslensku strákarnir mæti eins og grenjandi ljón inn á völlinn og berjist til sigurs. Þýska stálið er veikt fyrir og því er um að gera að fá í verkefnið alla þá sem aldrei á hallast og æ láta sverfa til stáls. Aldrei hefur verið eins mikið í húfi og líklega er þetta besta tækifærið sem þessir knattspyrnumenn okkar fá til að komast í úrslit á stórmóti. Það væri í það minnsta ákaflega gaman að fylgjast með afdrifum okkar eyjaskeggja í Portúgal á næsta ári – sól, sæla og fótbolti bíður okkar allra á Algarve næsta sumar!
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008