Margir af sigursælustu stjórnmálaleiðtogum síðustu ára hafa komið af vinstri væng stjórnmálanna. Nægir þar að nefna Bill Clinton og Tony Blair. Það er því undarlegt að margir þessara stjórnmálamanna, og sérstaklega þessir tveir, hafa haft orð á sér fyrir að fylgja ekki skýrri og ákveðinni hugmyndafræði. Leiðtogarnir eru oft á tíðum sakaðir um að haga einfaldlega seglum eftir vindi og byggja vinsældir sínar á því að gera það sem er vinsælt í skoðanakönnunum hverju sinni. Meint hentistefna fyrrnefndra tvímenninga er oft á tíðum sögð andstæða hinnar skýru og einföldu hugmyndafræði sem helstu leiðtogar 9. áratugarins, þau Reagan og Thatcher, aðhylltust.
Þar sem ég aðhyllist í stórum dráttum mjög svipaða stefnu og Clinton og Blair (C&B) þá hefur þetta tal um hentistefnu alltaf farið í taugarnar á mér. Fyrir mér er hugmyndafræði þeirra nefnilega alveg jafn skýr og hugmyndfræði Reagans og Thatchers (R&T). Málið er hins vegar að hún er ekki jafn einföld. Það er kannski þess vegna sem svona margir átta sig ekki á henni, eða a.m.k. vilja ekki viðurkenna að þeir átti sig á henni. Hún byggir ekki á einni einfaldri hugmynd eins og hugmyndafræði R&T gerði. Einfaldleikinn gerði það að verkum að R&T gátu gripið til öflugra frasa eins og: „Ríkið er ekki lausnin á vandanum, ríkið er rót vandans,” sem á að mínu mati meira skylt við lýðskrum en flest annað. Á endanum varð sem betur fer lýðnum ljóst að þessi einfeldnislega stefna var alls ekki svo góð til lengdar (þótt hún hafi vissulega átt rétt á sér í upphafi 9. áratugarins).
Ólíkt einfaldri frjálshyggju R&T byggir stefna C&B ekki einungis á hugmyndinni um frelsi einstaklingsins heldur einnig hugmyndinni um félagslegt réttlæti. Þar sem þessar hugmyndir skarast oft á tíðum komast stjórnmálamenn eins og C&B ekki hjá því að vega og meta þessi tvö markmið í hverju máli sem kemur upp. Hreinræktuðum frjálshyggjumönnum telja að slíkt beri vott um hentistefnu. Ég er ekki sammála því þótt ég viðurkenni fúslega að stundum komi upp flókin mál sem unnt er að færa góð rök bæði með og á móti.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009