Henry Chinaski var aðalsöguhetjan í þremur frægustu skáldsögum rithöfundarins Charles Bukowski, bókunum Post Office, Factotum og Women. Reyndar gerði Bukowski tvær aðrar sögur um Chinaski en þær voru ekkert í líkingu við hinar þrjár ofangreindu skáldsögur höfundarins.
Það var margt líkt með sköpunarverkinu og höfundinum sjálfum, þeim Chinaski og Bukowski. Báðir voru þeir áfengissjúkir rithöfundar og ljóst að stór hluti bókanna um Chinaski er tekinn beint úr lífi Bukowski. Að vísu greinir fjölmörgum ævisögum, um líf Bukowski, á um það hversu áreiðanlegar heimildir þessar skáldsögur eru um líf rithöfundarins en allir eru sammála um það að þeir Chinaski og Bukowski eru mjög líkir.
Eitt það merkilegasta við sögupersónuna Henry Chinaski eru þær aðferðir sem hann hefur við skriftir sínar. Chinaski drekkur nefnilega iðulega frá sér ráð og rænu á nóttunni og sest síðan niður við skriftir. Þetta verður til þess að þegar Chinaski vaknar daginn eftir, illa haldinn eftir áfengisneysluna, þá hefur hann ekki hugmynd um hvað hann skrifaði þá um nóttina. Sem þýðir að oft þegar rithöfundurinn Chinaski les eigin sköpun yfir þá er það eins og hann sé að sjá hana í fyrsta skipti.
Þrátt fyrir að hljóma tiltölulega eðlilega og saklaust í hráum stíl Bukowski þá liggur alvara að baki. Bukowski var áfengissjúklingur allt sitt líf og setti sjúkdómurinn mark sitt á allt líf höfundarins á dapurlegan hátt. Það er ljóst að hann skrifaði meira og minna öll verk sín undir áhrifum vímuefna og jafnframt að ofangreind aðferð sögupersónunar Chinaski við skriftir hefur einhvern tíman tíðkast á ferli höfundarins.
Það efast fáir um það að Charles Bukowski var hæfileikaríkur listamaður en hann lést 9. mars 1994. Eftir hann liggur gífurlega mikið af smásögum, skáldsögum, ljóðum, málverkum og teiknimyndum. Verk hans eru misjöfn af gæðum, eins og gengur og gerist, en gífurlegir hæfileikar rithöfundarins eru oftast augljósir. Það eru grimm örlög að vera svo illa haldinn af áfengissýki að geta ekki beitt öllum hæfileikum sínum sem skyldi og örugglega enn verra að geta ekki munað eftir því þegar hann var í ástandi til að beita þessari náðargáfu.
Því miður þá haldast ekki alltaf í hendur gæfa og gjörvuleiki. Það hefur óvenju hæfileikaríkt fólk eins og t.d. Charles Bukowski fengið að kynnast.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020