Í meira en þúsund ár hafa fiskimiðin við strendur Íslands verið lífsbjörg íbúa landsins og með hugarfars- og tæknibreytingum um og eftir aldamótin 1900 varð auður hafsins grundvöllur lífskjarabyltingar Íslendinga. Eins og eðlilegt má telja, hefur veiðitækni og ekki síst fullkomnleika veiðarfæra fleygt fram á þessum tíma og er nú svo komið, að veiðigeta íslenska fiskiskipaflotans er langtum meiri en fiskistofnanir þola. En það er ekki ætlun mín að ræða fiskveiðistjórn eða -kerfi að þessu sinni.
Það veiðarfæri sem er algengast hér við land – og þá um leið afkastamest – er botnvarpan. Botnvarpan skilaði á síðasta ári afla að verðmæti 22,5 milljörðum króna á land, en hringnót (sem notuð er við veiðar á loðnu og síld) kom næst með 7,7 milljarða. Með öflugri skipum og skuttogaratækninni varð fiskimönnum mögulegt að toga veiðarfærið á eftir sér, í stað þess að „leggja það“ eins og talað er um þegar notast er við línu og net. Ekki verður um það deilt að botnvarpan er mun öflugra veiðarfæri en bæði lína og net og svo miklu öflugra, að í raun má bera þessi veiðarfæri saman við það, að nota haglabyssu eða napalmsprengjur við rjúpnaveiðar.
Öflugustu fiskiskip flotans geta dregið á eftir sér gríðarstórar botnvörpur á mörg hundruð faðma dýpi og sum hver ráða meira að segja við að draga tvö slík ferlíki. Botnvarpan skríður af miklum þunga eftir sjávarbotninum og gleypir þar allt kvikt og er þess vegna afar skilvirkt veiðarfæri. Sá sem notar napalmsprengjur við rjúpnaveiðar getur líka verið nokkuð viss um að salla niður þær rjúpur sem eru á svæðinu. En á sama hátt og napalmið skilur eftir sig sviðna jörð, skilur botnvarpan eftir sig mikla eyðileggingu á hafsbotni. Reyndir sjómenn sem Deiglan hefur rætt við, eru reyndar á þeirri skoðun, að botnvarpan eigi stóran þátt í lélegum viðgangi þorskstofnsins. Togslóðir, sem eðli máls samkvæmt eru helsta afdrep þorsksins, eru margar hverjar auðnin ein eftir áratuga rask botnvörpunnar. Sviðinn skógur eftir napalmsprengingu er ekki ákjósanlegasti íveru- eða uppeldisstaður rjúpunnar – sama gildir um hafsbotninn og þorskinn.
Hér áður fyrr þurftu sjómenn að vera séðir og klókir veiðimenn til að afla vel og þeir þurftu í senn að hafa til að bera virðingu fyrir náttúrunni og löngun til að sigrast á aðstæðunum. Nokkurn veginn hvaða fáviti sem er getur dregið mörg þúsund rúmmetra botnvörpu á eftir sér á mörg þúsund hestafla fiskiskipi í 4-5 klukkutíma og veitt sæmilega. Og þannig getur það jafnvel gengið í nokkur ár. En alvöruveiðimaður hlýtur að umgangast kjörlendi bráðar sinnar af slíkri virðingu og nærgætni, að framtíðar veiðivon hans sé ekki teflt í voða.
Meðal fyrstu takmarkanna sem settar voru á fiskveiðum við Íslandsstrendur lutu að ákveðnum veiðarfærum. Í stað þess að treysta einvörðungu á stofnmælingar og tölur um landaðan afla, mætti hugsa sér að við fiskveiðistjórnun yrði í ríkari mæli reynt að taka tillit til áhrifa einstakra veiðarfæra á tiltekna stofna og umhverfi þeirra.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021