Ég verð 25 ára gamall innan skamms en el þó ennþá þann draum í brjósti mér að einhvern tímann muni ég verða atvinnumaður í knattspyrnu. Þegar ég læt mig dreyma um slíkt þá ímynda ég mér gjarnan að ég leiki í einhverju stórliði og að í einhverjum mikilvægum leik skori ég sigurmarkið á síðustu mínútunni með ógleymanlegum hætti. Ég efast þó um að ég hafi nokkurn tímann sett saman eins pottþéttan draumapakka og Rivaldo upplifði með Barcelona á sunnudaginn. Rivaldo skoraði þrennu og var síðasta markið þess eðlis að ég hef aðeins séð þvíumlíkt áður í tölvuleikjum. Hann semsagt tryggði liðu sínu sigur með óverjandi hjólhestaspyrnu frá vítateig – alveg eins og ég hefði gert þetta ef ég hefði verið í hans stöðu.
Eitthvað hefur valdið því að knattspyrnudeildirnar í Evrópu eru þær sterkustu í heimi og við njótum þess að þar leika bestu knattspyrnumenn heims. Sterkustu félagsliðin eru sennilega betri en nokkurt landslið, enda veljast leikmenn þangað eftir hæfileikum sínum en ekki handahófskenndum tilviljunum eins og fæðingarstað. Því miður heyrast þó ennþá raddir sem vilja takmarka möguleika liða til þess að fá til sín bestu leikmenn heims og víðast eru í gildi strangar reglur um fjölda erlendra leikmanna. Nú hefur þessi regla orðið til þess að hugsanlega mun Juan Sebastian Veron, leikmaður Lazio á Ítalíu, og einn allra besti knattspyrnumaður heims, fara í tveggja ára leikbann vegna fölsunar á vegabréfi. Veron neitar staðfastlega að hafa sjálfur staðið fyrir fölsuninni en markmið hennar var að komast hjá reglum um fjölda útlendinga í ítölsku deildinni á þeim forsendum að forfeður Veron hefðu verið ítalskir. Fleiri knattspyrnumenn frá Suður-Ameríku eiga yfir höfði sér svipaða dóma.
Að mínu viti eru íþróttir einmitt þess eðlis að þar geti komi kostir frjálsra viðskipta hvað greinilegast í ljós. Í knattspyrnu tjáir fólk sig á alþjóðlegri tungu og knattspyrnan spyr hvorki um stétt né stöðu – heldur einungis hverju einstaklingurinn getur áorkað. Því miður er þó ennþá miklum vandkvæðum háð fyrir leikmenn utan Evrópusambandsins að öðlast leikheimild og atvinnuleyfi í Evrópu. Þessar reglur eru algjör tímaskekkja og furðulegt að knattspyrnusambönd í Evrópu hafi ekki fyrir löngu lagst á eitt um að afnema þær, enda eru hagsmunir deildanna fyrst og fremst að gæði knattspyrnunnar séu sem allra mest. Viðskiptahindranir á borð við þessar takmarkanir á atvinnufrelsi eru engum til góðs, nema ef vera skyldi lélegum knattspyrnumönnum sem aðeins geta skorað mörk eins og Rivaldo í tölvuleikjum og sínum villtustu dagdraumum.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021