Fréttamaður: „Og þjáðist hrefnan nokkuð þegar skotið lenti á henni?“
Skipstjóri: „Nei, nei hún dó alveg um leið! Þetta tók enga stund.“
Fréttamaður: „En flúðu hinar hrefnurnar þá af svæðinu?“
Skipstjóri: „Nei, alls ekki! Það kom nú ein hérna bara meðfram skipinu rétt eftir þetta.“
Við Íslendingar höfum fengið vænan skerf af þjóðernislegum fréttaflutningi í kringum nýjasta stríðið okkar og líkt og í öðrum stríðum er óvinurinn sjaldnast vingjarnlegur lýðurinn heldur einstaka vondir öfgamenn. Á sama hátt og Bandaríkjaher er ekki að berjast við almenna Íraka heldur við „eftirlifandi liðsmenn Baas-flokksins“ þá eru óvinir Íslands ekki almenningur beggja vegna Atlantshafsins heldur umhverfisöfgamenn sem vilja landinu illt og stórgræða þar að auki á starfsemi sinni.
Þetta er því miður mikil einföldun. Þrátt fyrir að fæstir Evrópubúar mundu leggja land undir fót til að sökkva hvalveiðiskipum þá er almenningsálitið þar jafnandstætt hvalveiðum og t.d. hundaáti. Ástæðan fyrir því hve öflug mörg dýraverndunnarsamtök eru er að mjög margt fólk er sammála því sem þau hafa fram færa. Þess vegna er það tilbúið að styrkja þau og leggja þeim lið.
Uppruni dýraverndunnarstefnu á sér auðvitað sjálfsagðar og eðlilegar skýringar. Við viljum ekki að börn okkar gangi um götur brjótandi trjágreinar og hendandi grjóti í ketti. Við viljum ekki að þau bíti höfuð af hænum og flái hvolpa lifandi.
Ætli það sé ekki eitthvað inni í okkur sem lætur okkur hafa tilfinningar í garð annarra lífvera, sérstaklega þegar um er að ræða afkvæmi annarra spendýra. Við lítum svo á að ef einhver getur ekki komið fram af virðingu við önnur dýr þá geti hann heldur ekki sýnt samborgurum sýnum þá kurteisi sem þeir eigi skilið. Þar að auki eru dýr og plöntur oft eign einhvers annars, eign sem viðkomandi ann og liggur miklar tilfinningar í. Það þykir því sjálfsagt að slíkri eign sé sýnd virðing og hún ekki skemmd eða drepin.
Til að ná athygli barnanna eru því búnar til ýmsar sögur. Þeim er sagt að trén finni til þegar greinar þeirra eru brotnar og laufblöðin rifin af. Dýr eru gædd persónueinkennum, þau eru sögð glöð, döpur, einmana eða gáfuð. Allt þetta er hluti af siðferðislegu uppeldi barnanna.
Að þessu leyti er umhverfisvernd svipuð kristni eða öðrum trúarbrögðum. Byggt er á fallegum sögum sem eiga að höfða til siðferðiskenndar fólks. Þeir sem ná inntaki sagnanna og lifa eftir honum verða oft góðir einstaklingar. Þeir sem einblína um of á sögurnar sjálfar og einstök smáatriði hallast oft í átt til öfgatrúar.
Þrátt fyrir að rök hvalfriðunarsinna eru oft á tíðum barnaleg verður ekki sagt að inntak þeirra sé „mannfjandsamlegt“ eða á einhvern hátt andstætt góðu siðferði. Því væri heppilegt að leyfa þeim að koma skoðunum sínum á framfæri án þess að að þeim sé hæðst. Það er gott mál að vera þessu fólki ósammála, en einfeldnislegar umræður hafa sjaldnast skilað miklu í lýðræðislegum þjóðfélögum. Sér í lagi ef þær eru háðar á þjóðernislegum nótum.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021