Það er mikill léttir að ekkert varð af verkfalli fréttamanna á ríkismiðlunum. Nú geta allir verið vissir um að fá að vita, frá traustum aðila, hvað er að gerast. Við þurfum ekki að óttast að fréttamenn einkarekinna fjölmiðla reyni að nota tækifærið,,á meðan kötturinn er úti” til að ljúga okkur full. Ríkið mun gæta þess næstu tvo daga sem aðra að við fáum að heyra sannleikann.
Síðustu vikur hefur ríkisútvarpið auglýst að ef útsendingar þess á FM bylgju falla niður, þá geti landsmenn stillt viðtæki sín á langbylgju til að fylgjast með því sem fram fer. Þetta er hluti af hinu mikilvæga öryggishlutverki ríkisfjölmiðilanna. Annar stór hluti er eðlilega fréttastofur þeirra, en þær eru eðli málsins samkvæmt tvær. Önnur fyrir myndarlega fréttamenn en hin fyrir hljómþýða fréttamenn.
Samkvæmt könnunum eru starfsmenn ríkisútvarpsins einhverjir þeir óánægðustu sem fyrirfinnast á landinu. Enda hlýtur að vera erfitt að vera undir þeirri pressu að vera þeir einu sem er treystandi til að segja sannleikann umbúðalaust. Mín skoðun er sú að réttast sé að veita þeim það frelsi svo þeir geti flutt meira skapandi fréttir á öðrum miðlum.
Það er stór misskilningur að ríkið þurfi að halda úti fréttastofu, hvað þá tveimur. Einkareknu fjölmiðlarnir hafa sannað að þeim er jafnvel og á stundum betur treystandi til að flytja fréttir bæði fljótt og örugglega. Tvær útvarpsrásir og ein sjónvarpsrás eru líka stórlega ofmetinn öryggisþáttur. Ríkið getur vel komist af með eina langbylgjurás til að fullnægja öryggishlutverki sínu, auk þess gæti það í þágu þjóðaröryggis komið inn í útsendingar allra útvarpsmiðla ef svo ber undir. Hið margumtalaða öryggishlutverk ríkisfjölmiðlanna er stórlega ofmetið.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021