Florence Griffith Joyner kemur í mark á Ólympíuleikunum í Seoul 1988
|
Nú fer fram í París í Frakklandi heimsmeistaramót í frjálsum íþróttum. Þetta er í 9. sinn sem heimsmeistaramótið fer fram en fyrsta mótið var haldið í Helsinki árið 1983. Til Parísar koma íþróttamenn frá öllum heimshornum, fylgifiskar þeirra, fréttamenn og áhorfendur. Heima í stofu sitja hundruð milljóna manna og fylgjast með mótinu. Áhorfendur vilja sjá íþróttamennina ná góðum árangri og svo vilja þeir sjá met, helst heimsmet.
Það er líklegt að áhorfendur muni sjá góðan árangur á HM, e.t.v. besta árangur ársins í sumum greinum og kannski heimsmeistaramótsmet. Það er hins vegar nokkur vafi á því að áhorfendur fái að sjá heimsmet slegin. Ekki af því að keppendurnir séu slakir. Ekki af því aðstæðurnar séu slæmar. Þetta hvort tveggja er í lagi, firnalagi. Keppendur koma á mótið í toppformi enda þrotlausar æfingar að baki og markmiðið er að ná hámarksárangri á mótinu. Þetta er uppskeruhátíð. Aðstæðurnar eru líka frábærar, Frakklandsvangur, Stade de France.
Það eru heimsmetin sjálf sem eru hindrunin. Mörg þeirra er næstum ómögulegt að slá. Ástæðan: Sterar og örvandi efni. Um helmingur gildandi heimsmeta í kvennaflokki voru sett á árunum 1980-1990. Flest þeirra voru sett af íþróttamönnum frá fyrrverandi austantjaldsríkjum, Austur-Þýskalandi, Sovétríkjunum, Tékkóslóvakíu og Búlgaríu, t.d. í 400 metra hlaupi, 800 metra hlaupi, 4×100 metra hlaupi, 4×400 metra hlaupi, 100 metra grindarhlaupi, langstökki, hástökki, kúluvarpi og kringlukasti. Metin í 100 og 200 metra hlaupi kvenna voru sett af bandarísku hlaupakonunni Florence Griffith Joyner árið 1988 og metið í sjöþraut af samlöndu hennar Jackie Joyner-Kersee sama ár. Í karlaflokki eru færri met sem enn lifa frá þessum árum, en þó má finna slík met, t.d. í kringlukasti og sleggjukasti. Þótt ekki verði sannað nú árið 2003 að þessi heimsmet hafi verið sett með aðstoð örvandi efna eru yfirgnæfandi líkur til þess.
Árangur bestu íþróttamanna samtímans er þannig að hann fer nokkuð frá þessum metum. Í sumum tilvikum langt frá þeim. Það er varla í mannlegu steralausu valdi að slá þau. Sem dæmi má nefna að sigurtíminn í 100 metra hlaupi kvenna á HM í fyrradag var 10,85 sekúndur. Heimsmetið er 10,49 sekúndur. Þarna munar allmiklu þegar um svo stutta vegalengd er að ræða.
Á undanförnum misserum hafa komið fram hugmyndir um að ógilda heimsmet sem sett voru fyrir tiltekið tímamark. Sú hugmynd sem hvað lengst gengur kemur frá norska frjálsíþróttasambandinu. Þeir vilja ekki aðeins miða við að ógilda heimsmet sem sett voru á 9. áratugnum heldur einnig þau sem sett voru á 10. áratugnum, þ.e. allt til ársins 2000. Sambandið heldur því fram að nokkuð líklegt sé að þessi met hafi verið sett með aðstoð örvandi efna og sá vafi dragi úr áhuga almennings á frjálsum íþróttum. Ólíklegt er að tillagan nái fram að ganga enda ansi róttæk en hún sýnir að ákveðnu leyti hvaða augum menn líta þessi gömlu met.
Heimsmet skemmta áhorfendum. Þeir vilja sjá íþróttamennina hlaupa hraðar, stökkva hærra, kasta lengra. Hugsanlegt er að áhorfendum verði að ósk sinni og þeir fái að sjá heimsmet sett á HM í París, eitt eða fleiri. T.d. er mögulegt að sett verði heimsmet í greinum eins og 400 metra grindarhlaupi kvenna, en í þeirri grein var sett heimsmet fyrir skömmu, og nýlegum greinum á borð við stangarstökk kvenna, sleggjukast kvenna og 3000 metra hindrunarhlaup kvenna. Svo virðist einnig sem þær bestu séu að nálgast heimsmetið í hástökki kvenna frá árinu 1987. Hægt og bítandi nálgast íþróttamennirnir steralausir hin gömlu met sem enn standa.
Greinarhöfundur þorir hins vegar að leggja nokkuð undir upp á það að sum metin frá árunum 1980-90 muni enn standa árið 2010 og kannski 2020, hafi þau ekki þá þegar verið ógilt í samræmi við tillögur eins og frá norska frjálsíþróttasambandinu. Þannig leyfir hann sér að fullyrða að árið 2010 muni Florence Griffith Joyner enn eiga heimsmetið í 100 metra hlaupi kvenna, 10,49 sekúndur. Sjáum til.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006