Fyrir skömmu birtist hér á Deiglunni pistill sem fjallaði um lög nr. 22/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir (Hér eftir kölluð „Fóstureyðingarlög“). Þar voru ákvæði laganna um fóstureyðingar túlkuð þröngt og komist að þeirrri niðurstöðu að íslensk framkvæmd á fóstureyðingum gæti verið í andstöðu við sett lög. Þessu sjónarmiði er gjarnan haldið á lofti af andstæðingum fóstureyðinga og ekki að ástæðulausu þar sem lögin bjóða auðveldlega upp á slíka túlkun. Það er óheppilegt að lögin séu það óskýr að þau bjóði heim deilum um túlkun þeirra. Fylgismenn og andstæðingar fóstureyðinga hafa um nóg að deila þó svo að löggjafinn bæti ekki við enn einu þrætueplinu. Það er því brýnt að skoða hvernig raunverulegt réttarumhverfi fóstureyðinga er hérlendis.
Fóstureyðingarlög kveða á um að fóstureyðing sé heimil vegna félagslegra ástæðna, læknisfræðilegra ástæðna og eftir nauðgun. Lögin tiltaka einnig í hvaða tilfellum þessar heimildir eiga við. Í raun reynir nær eingöngu á heimild vegna félagslegra ástæðna eins og kom m.a. fram í svari þáverandi heilbrigðisráðherra Ingibjargar Pálmadóttur við spurningu Ísólfs Gylfa Pálmasonar um fóstureyðingar á Alþingi árið 1998. Sem dæmi má nefna að í svarinu kom fram að árið 1995 voru 739 fóstureyðingar heimilaðar af félagslegum ástæðum en einungis 22 af félagslegum og læknisfræðilegum ástæðum. Sökum þessa verður hér eingöngu fjallað um heimildir til fóstureyðinga byggðar á félagslegum ástæðum.
Samkvæmt 9. gr. laganna er fóstureyðing heimil þegar ætla má að þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Við slíkar aðstæður skal taka tillit til eftirfarandi:
a. Hafi konan alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði.
b. Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.
c. Þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.
d. Annarra ástæðna, séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar ástæður.
Þessi upptalning í 9. gr. er tiltölulega afdráttarlaus og eingöngu spurning um það hversu mikið svigrúm lögin veita með d-lið og hvort upptalningin í lögunum sé tæmandi. Þetta eru úrlaunsarefni sem menn verða að leysa við mat á því hvort fóstureyðingar séu almennt heimilar að íslenskum rétti og hversu víðtækur sá réttur er.
Við túlkun og skýringu á settum lögum verður að líta til þeirra dóma sem hafa gengið um viðkomandi lög. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá eru dómstólar úrslitaaðilar skv. íslenskum rétti við túlkun laga og þeir úrskurða um hvernig þeim skuli vera beitt.
Eini dómurinn sem hefur fallið um umrædd ákvæði í fóstureyðingarlögum nr. 25/1975 er hæstaréttardómur nr. 134/1997, Ákæruvaldið gegn X. Þar var læknir ákærður fyrir að hafa framkvæmt fóstureyðingu þrátt fyrir synjun við fóstureyðingunni lægi fyrir frá sérstakri nefnd sem á að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Kona hafði sótt um fóstureyðingu vegna félagslegra ástæðna og vísaði í umræddan d-lið 9. gr. sem lagastoð fyrir beiðninni. Ljóst er að þær ástæður sem konan bar fram undir d-lið voru ekki skv. strangri túlkun fyllilega sambærilegar ástæðum í a-c lið greinarinnar. Umsóknin var samþykkt af félagsráðgjafa en hafnað af lækni. Læknirinn hafnaði umsókninni eingöngu af þeirri ástæðu að komið var fram yfir 12 vikna meðgöngu (Til skýringa þá er fóstureyðing bönnuð skv. fóstureyðingarlögum eftir 16 vikna meðgöngu en það á helst að framkvæma hana fyrir 12 viku). Konan skaut þá máli sínu til sérstakrar úrskurðarnefndar sem skv. 28. gr. fóstureyðingarlaga á að úrskurða þegar ágreiningur rís um hvort framkvæma skuli fóstureyðingu. Nefndin staðfesti synjun læknisins en breytti forsendunum fyrir synjuninni og sagði að skilyrði 9. gr. ættu ekki við og því væri fóstureyðingin óheimil. Konan lét nefndinni í té frekari gögn m.a. vottorð geðlæknis en beiðni hennar var synjað aftur af nefndinni. Þrátt fyrir bann nefndarinnar þá leitaði konan til læknis og framkvæmdi hann fóstureyðingu þrátt fyrir bann nefndarinnar. Læknirinn var ákærður fyrir ólögmæta fóstureyðingu í kjölfarið.
Í málinu var m.a. tekist á um 9. gr. fóstureyðingarlaga og urðu dómstólar að taka afstöðu til þess hversu rúmar heimildir til fóstureyðinga væru í íslenskum rétti. Héraðsdómur Vesturlands sem fjallaði um málið sagði að við mat á d-lið (Hæstaréttard. 134/1997 bls. 3606) að:
„Þrátt fyrir að ákveðin viðmið sé samkvæmt framansögðu að finna í 1. tölulið 9. gr. hinna tilvitnuðu laga um það, hvaða félagslegar ástæður fái réttlætt fóstureyðingu og falli þar með innan gildissviðs ákvæðisins, er verulegum vandkvæðum bundið að taka einhlíta afstöðu til þess, hvenær „fyllilega sambærilegar“ ástæður samkvæmt d-lið þess koma til greina. Mun hér jafnan reyna á huglægt mat þeirra aðila, sem um umsókn fjalla, þar sem margvíslegar ástæður geta komið til álita og algildur mælikvarði verður vart lagður á innbyrðis vægi þeirra í því ljósi sem hér reynir á þær. Er mikilvægt að horft sé til þessa, þegar að hugsanleg refsiábyrgð ákærðu er metin, og þá sérstaklega í ljósi þeirrar meginreglu, að vafi um það, hvort refsiákvæði taki til háttsemi, skuli metin sakborningi í hag.“
Héraðsdómur tekur þarna af allan vafa um það að upptalningin í 9. gr. sé ekki tæmandi og enginn algildur mælikvarði sé fyrir hendi um heimildir til fóstureyðinga. Það geta því alls kyns ástæður fallið undir 9. gr. og verið grundvöllur fyrir fóstureyðingu þrátt fyrir að ástæðurnar séu ekki strangt til tekið sambærilegar við upptalninguna yfir félagslegar ástæður fóstureyðinga. Þá vaknar spurning um það hver sé bær til að meta hvort ástæður séu fyrir hendi sem réttlæta fóstureyðingu á grundvelli félagslegra ástæðna. Héraðsdómurinn tekur einnig á þessu atriði og vísar í lögskýringargögn með lögunum. Dómurinn vitnar í breytingartillögu við umrædda grein sem kom fram í meðferð þingsins á frumvarpinu árið 1975. Þessi breytingartillaga var samþykkt og er því skýring löggjafans á lagagreininni um heimild til fóstureyðinga. Þar segir (Hæstaréttard. 134/1997 bls. 3606) að:
„Að tillögu meirihluta heilbrigðis- og tryggingarmálanefndar Alþingis var þessu ákvæði laganna breytt til þess horfs sem í lögum nr. 25/1975 segir. Í áliti nefndarinnar sem fylgdi breytingartillögunni segir meðal annars: „……er ljóst af orðalagi 1. töluliðar 9. gr. að allt frumkvæði að fóstureyðingunni er hjá konunni sjálfri og um endanlegan úrskurð læknis ber fyrst og fremst að miða við mat konunnar á eigin aðstæðum og gildandi lagareglum“.“
Til að taka af allan vafa þá var Guðjón Guðmundsson, læknir, kallaður fyrir dóminn en hann var formaður hinnar sérstöku úrskurðarnefndar samfleytt frá 1980 til 1992 og hann spurður út í framkvæmd laganna. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að af framburði Guðjóns verði skýrt ráðið að sjónarmiðið um að miða við mat konunnar hafi ráðið miklu um afstöðu nefndarinnar til umsókna um fóstureyðingar af félagslegum ástæðum þann tíma, sem hann gegndi þar formennsku.
Dómurinn segir þarna að mat á því hvort félagslegar ástæður séu fyrir hendi liggi að mestu leiti hjá konunni sjálfri enda sýknaði Héraðsdómur Vesturlands lækninn m.a. með þeim orðum að ekki verði fullyrt að fóstureyðingin hafi farið í bága við 9. gr. Hæstiréttur Íslands staðfesti héraðsdóminn.
Aðrir dómar um fóstureyðingar hafa ekki fallið í Hæstarétti síðan þessi dómur féll og löggjafinn sá ekki ástæðu til að breyta fóstureyðingarlögum í kjölfarið. Þessi túlkun er því gildandi réttur í landinu.
Það er því ljóst að við framkvæmd laganna skal túlka 9. gr. rúmt og sú upptalning sem þar kemur fram er ekki tæmandi. Því verður ekki neitað að lögin sem slík geta boðið upp á þrönga lögskýringu um að nánast engar fóstureyðingar séu heimilar og hljómar það vel hjá andstæðingum fóstureyðinga. Þegar litið er til áralangrar framkvæmdar laganna, lögskýringargagna sem segja að mat konunnar á eigin aðstæðum skipti mestu og Hæstaréttardómsins þá ætti ekki að vera nokkur vafi um það hvernig lögin eru túlkuð. Það er því ljóst af framansögðu að núverandi framkvæmd fóstureyðinga vegna félagslegra ástæðna brýtur ekki á nokkurn hátt gegn lögum nr. 25/1975.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020