Í umræðum sem fram hafa farið undanfarið um kostnað menntastofnana á ýmsum skólastigum hefur hver aðili haldið fram sínum viðmiðum og lítils samræmis gætt. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi í samanburði einkaskóla og opinberra skóla. Sem dæmi má nefna að í umræðum um grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu báru sumir aðilar saman opinber framlög til skólanna, á meðan aðrir töluðu um heildarframlög (að meðtöldum skólagjöldum).
Í umræðum um skóla á háskólastigi er málið enn flóknara, vegna þess að þar er ekki eingöngu um framlög til kennslu að ræða, heldur einnig til rannsókna. Þegar málsvarsmenn eins skóla halda því fram að þeir fái lægri framlög en aðrir skólar (það er sjaldan á hinn veginn), er þess vegna mjög erfitt að átta sig á því hvað er hæft í þeim málflutningi. Er verið að tala um heildarframlög, framlög ríkisins, heildarframlög til kennslu, eða eingöngu kennsluframlag ríkisins?
Háskóli Íslands heldur til dæmis rannsóknarframlögum utan við jöfnuna hvenær sem tækifæri gefst. Sá skóli er líka í mikilli baráttu fyrir því að skólum á Íslandi verði skipt í tvo flokka, rannsóknarháskóla og kennsluháskóla, þar sem rannsóknarháskólar séu þeir einu sem fá fé til rannsókna. Háskóli Íslands vill að sjálfsögðu helst vera einn í flokki rannsóknarháskóla.
Einkaskólarnir, sem taka við skólagjöldum, vilja hins vegar ræða um heildarframlög ríkisins til skólanna, en á móti vilja þeir halda skólagjöldum fyrir utan jöfnuna. Slíkur samanburður er þeim hagstæðari, en veldur því að sumir tala um að skólarnir séu ekki í „samkeppni á jafnréttisgrundvelli“. Það er vegna þess að skólar sem fá sömu eða svipuð framlög og ríkisskólar, en innheimta að auki skólagjöld, hafa eðlilega meira á milli handanna en þeir sem ekki innheimta slík gjöld.
Við því hafa sumir aðilar, sér í lagi af vinstri kanti stjórnmálanna, viljað bregðast með þeirri stórundarlegu hugmynd að leyfa skólagjöld, en láta framlög ríkisins falla niður, króna á móti krónu, ef skólar innheimta slík gjöld. Í núverandi umhverfi er augljóst að slíkar reglur myndu kippa grundvellinum undan innheimtu skólagjalda. Því hvers vegna skyldu nemendur borga skólagjöld ef það bætir ekki fjárhag skólans og þar með aðstöðu nemendanna?
En hitt sjónarmiðið, að „jafnrétti til náms“ þýði að allir skólar skuli fá sömu upphæð með hverjum nemanda, sama hvaða skólagjöld þeir innheimta, er heldur ekki augljóst. Þeir eru til (og eru þá oftast vel inni á hægri vængnum) sem finnst fáránlegt að skerða fjárveitingar þótt skólagjöld séu innheimt. Aðrir halda þó fram þeim rökum að þeir sem eru svo vel stæðir að þeir geti greitt skólagjöld, eigi vel að geta sætt sig við það að ríkið dragi þá eitthvað úr stuðningi við þá. Fjármunirnir sem sparast gætu þá í staðinn farið í grunnkerfið, sem veitir þá menntun sem skilgreind er sem ásættanlegt lágmark.
Skerðing á ríkisframlögum til þeirra skóla sem innheimta skólagjöld verður sennilega stöðugt þrætuepli. 100% skerðing kemur augljóslega ekki til greina, en 0% skerðing er samt ekki eini valkosturinn. Ef fólk gerði sér grein fyrir því að hægt er að fara milliveg í þessum málum er líklegt að andstæðar fylkingar myndu skilja hvor aðra aðeins betur.
Lykilatriðið er þó að hverjar sem reglurnar eru, þá séu þær skýrar. Nauðsynlegt er að skólar hafi tryggingu fyrir því að ef þeir bæta hjá sér fjárhagsstöðuna, hvort sem er með því að hagræða hjá sér eða taka upp innheimtu á tilteknum gjöldum, muni ríkið ekki bara nýta tækifærið klípa af þeim viðbótina á næstu fjárlögum. Því eru reiknilíkön sem miða við kostnað á nemanda eina rétta leiðin við úthlutun fjármagns til skóla, í stað þeirrar gömlu aðferðar að hækka úthlutun til þeirra sem fara fram úr áætlun og lækka úthlutun til þeirra sem skila afgangi.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020