Umræðan um fóstureyðingar er víða alvarleg og hatrömm, enda er þar deilt um tvö grundvallarréttindi manna, réttinn til lífs og líkama. Rétturinn til lífs og líkama helst jafnan í hendur en þegar að árekstur verður á milli þessara tveggja réttinda eins og er í umræðunni um fóstureyðingar þá er skiljanlegt að hiti færist í leikinn. Umræðan um fóstureyðingar vekur þannig upp grundvallar siðferðisspurningar sem erfitt er að leysa.
Annað sjónarmiðið gengur út á það að banna fóstureyðingar þar sem verið sé að svipta einstakling lífi með fóstureyðingu. Reiði fylgismanna þessa sjónarmiðs er skiljanleg þar sem þeir telja sig vera að berjast fyrir mannslífum. Skiljanlega eru allar fóstureyðingar þyrnir í augum þessa hóps þar sem hann gengur út frá því fóstur sé einstaklingur sem hafi rétt til lífs. Hópurinn kemur oft með þá röksemd að líf hefjist við getnað og skuli varið upp frá því. Þessi hópur hefur haldið því fram að þar sem fóstur sé einstaklingur sé það brot á mannréttindum að svipta það lífi en alþjóðlegir mannréttindadómstólar hafa úrskurðað að rétturinn til lífs eigi ekki algjörlega við um fóstur sbr. úrskurð Mannréttindanefndar Evrópu í umsókn nr. 8416/78 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að algjör réttur fósturs til lífs færi gegn markmiðum og tilgangi Mannréttindasáttmála Evrópu. Þess ber einnig að geta að hvorki Mannrétttindasáttmáli Evrópu né Mannréttindasáttmáli Ameríku segja að líf hefjist við getnað.
Hitt sjónarmiðið gengur út á það að konan eigi að hafa rétt til að fara í fóstureyðingu á hvaða tímapunkti meðgöngu sem er, þess vegna nokkrum tímum fyrir fæðingu. Fylgismenn þessa sjónarmiðs telja sig vera að berjast fyrir frelsi einstaklingsins og frelsi konunnar yfir eigin líkama. Þeir telja það mannréttindi konunnar að hafa umráðarétt yfir líkama sínum og telja hana því hafa rétt til að fara í fóstureyðingu hvenær sem er. Þeir svara yfirleitt áleitnum spurningum andstæðinganna um það hvenær fóstur hættir að vera fóstur og verður að einstakling á þá leið að fóstur verði einstaklingur þegar það fæðist. Hvað varðar mannréttindabrot á ófrískum konum þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðað (Bruggerman og Scheuten, Comm. Rept of 1977) að ríki megi setja vissar hömlur á rétt kvenna til fóstureyðinga án þess að brjóta friðhelgi ófrískra kvenna sem er varin í 8. gr. sáttmálans.
Það er nokkuð ljóst að þessi sjónarmið munu aldrei sættast. Íslenska ríkið ásamt flestum vestrænum ríkjum hefur tekið þá skynsamlegu afstöðu að fara bil beggja þ.e. að leyfa fóstureyðingar á fyrstu stigum meðgöngu en banna þær á síðari stigum. Réttur konunnar yfir eigin líkama er virtur fyrir tímamarkið en eftir tímamarkið tekur við réttur fóstursins. Það liggur fyrir að fylgismenn sjónarmiðanna tveggja eru ekki sáttir þar sem báðar fylkingar vilja fullnaðarsigur en það er hvorki skynsamlegt að banna fóstureyðingar almennt né leyfa þær þar til einstaklingurinn fæðist.
Tímapunkturinn sem ríki hafa valið hefur vakið miklar deilur út um allan heim. Alltaf er hægt að koma með rök fyrir því að tímapunkturinn eigi að færast framar eða aftar. Það sem skiptir mestu máli er það að ríkið taki af skarið og ákveði tímapunktinn sem muni gilda í samráði við færustu sérfræðinga á þessu sviði. Þetta verður að teljast eðlilegt. Það er hins vegar óeðlilegt ef lög mismuna konum með viðmiðum og reglum um það hvaða konur megi fara í fóstureyðingu og hverjar megi það ekki. Rétturinn til að fara í fóstureyðingu á að vera almennur fyrir tímapunktinn og algjört jafnræði ríkja á milli kvenna. Á Íslandi er í raun svo að næstum hver einasta kona getur farið í fóstureyðingu á fyrstu 12 vikum meðgöngu en skv. fóstureyðingarlögum á helst að framkvæma fóstureyðingu fyrir 12. viku meðgöngu. Á milli 12. og 16. viku meðgöngu er í framkvæmd erfiðara að fá fóstureyðingu eins og kom fram í áðurnefndum Hæstaréttardómi nr. 134/1997. Á árunum 1993 til 1997 hafnaði sérstaka úrskurðarnefndin 9 umsóknum um fóstureyðingu en heildarfjöldi fóstureyðinga á sama tímabili er 4187. Eftir 16 viku meðgöngu eru fóstureyðingar bannaðar nema eitthvað mjög sérstakt komi til.
Meginröksemdin fyrir því að kona eigi að hafa rétt til að fara í fóstureyðingu á fyrstu 16 vikum meðgöngu er að konan sé í raun eini úrskurðaraðilinn um það hvort hún geti eignast barn eður ei. Það að setja sérstakar úrskurðarnefndir til að meta félagslega og andlega stöðu ófrískra kvenna er óþarfa íhlutun í líf borgaranna og gæti flokkast undir forsjárhyggju af verstu gerð. Einstaklingurinn getur einn metið hvað er honum fyrir bestu og á meðan fóstureyðingar eru leyfðar fyrir ákveðinn tímapunkt þá hefur ríkið ekkert með það að gera að skipta sér af hegðun kvenna fyrir þann tíma. Eins og kom fram hér á Deiglunni í gær þá er rétturinn til fóstureyðinga hér á landi almennur og það sem skiptir mestu máli við matið er mat konunnar á eigin aðstæðum. Þrátt fyrir að framkvæmdin hér á landi virði mat konunnar á eigin aðstæðum þá væri til bóta að ríkið drægi sig alveg út úr framkvæmdinni fyrir 16 vikur.
Í dómi Hæstaréttar nr. 134/1997 sem var reifaður ítarlega hér á Deiglunni í gær var einnig tekist á um hina sérstöku úrskurðarnefnd sem skv. 28. gr. fóstureyðingarlaga á að skera úr ágreiningi um heimild til fóstureyðinga og hefur úrslitavald í þeim efnum. Í málinu var tekist á um meint ólögmæti fóstureyðingar á 14. viku meðgöngu. Hæstiréttur sýknaði lækninn m.a. með þeim orðum að:
„ákvæði þau, sem fjalla um sérstaka nefnd, er hafa skal eftirlit með framkvæmd laganna eru óljós að því er varðar réttaráhrif ákvarðanna hennar um fóstureyðingar á milli 12 og 16 viku meðgöngu. Verður ekki lögð refsiábyrgð á ákærðu á grundvelli þeirra.“
Íslenskir dómstólar hafa því túlkað íslensku fóstureyðingalögin þannig að heimildir sérstöku úrskurðarnefndarinnar, þ.e. ríkisins, til að hafa afskipti af framkvæmd fóstureyðinga séu óljósar og þar af leiðandi takmarkaðar. Eins og kom fram í gær þá var lögunum ekki breytt eftir dóminn þannig að þetta er gildandi réttur í landinu. Þetta verður að teljast töluvert gleðiefni fyrir þá sem trúa á jafnrétti og frelsi einstaklinga. Því miður þá eru ekki til tölur yfir störf nefndarinnar eftir að dómurinn féll.
Ljóst er að fylgismenn meginsjónarmiðanna út um allan heim eru síður en svo sáttir við þessa þriðju leið sem mörg ríki hins vestræna heims hafa kosið. Þeir sem trúa á rétt fósturs til lífs segja að það sé enn þá verið að drepa einstaklinga þó svo að fóstrið sé skammt á veg komið. Engu að síður þá kemur þetta í veg fyrir að fóstur sem eru farin að taka á sig sterka mynd einstaklings og gætu lifað sjálfstæðu lífi utan móðurkviðs séu eydd.
Þeir sem trúa blint á frelsi einstaklingsins eru einnig óánægðir þar sem þarna er ríkið að takmarka umráðarétt einstaklingsins yfir eigin líkama og sumir telja þetta einnig atlögu að kvennfrelsinu. Það verður þó að telja tímann sem ríkið gefur einstaklingi til að fara í fóstureyðingu meiri en nægjan. Það er jafnvel hægt að segja að eftir 16 vikna meðgöngu sé einstaklingur með aðgerðaleysi sínu búinn að samþykkja að bera undir belti og eignast barn.
Tiltölulega lítið hefur verið tekist á um fóstureyðingar í íslensku samfélagi síðustu ár sem er skrítið miðað við það að víða erlendis logar allt í átökum um þetta málefni. Það var kannski helst þegar alþingismaðurinn Hulda Jensdóttir kom fram með frumvarp árið 1990 sem gekk út á það að Alþingi viðurkenndi að líf sem hafi kviknað í móðurkviðið sé friðheilagt. Frumvarpið var fellt eftir fyrstu umræðu. Ekkert bendir til að íslenska ríkið breyti á næstunni afstöðu sinni til fóstureyðinga. Hvorugt sjónarmiðið mun því fara með sigur af hólmi. Afstaða íslenska ríkisins og margra ríkja hins vestræna heims verður að teljast skynsamleg þ.e. að fara milliveginn þannig að komið er til móts við bæði sjónarmiðin en hvorugt hafi í raun yfirhöndina.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020