Sjónvarpsþátturinn Kastljós er um margt til fyrirmyndar og ljóst er að þessi tilraun fréttastofu Sjónvarpsins hefur í alla staði lukkast vel. Stjórnendur þáttarins hitta oft naglann á höfuðið í afslöppuðu andrúmslofti þáttarins. Nákvæmlega það gerði Kristján Kristjánsson, einn aðalstjórnenda Kastljóss, í þætti fyrir nokkrum vikum. Varpaði Kristján þá fram spurningu sem var í senn sorgleg og raunsönn lýsing á íslenskri fjölmiðlun.
Í umræddum þætti mættust oddvitar D- og R-lista og voru fjármál Reykjavíkurborgar til umræðu. Spurning Kristjáns hljóðaði á þá leið, hvernig fólk ætti eiginlega að átta sig á sannleikanum í málinu, þar sem málflutningur oddvitanna tveggja stangaðist algjörlega á. Annar oddvitinn segði að A væri satt og B ósatt en hinn segði að A væri ósatt og B satt (efnislega).
Í þessari spurningu endurspeglast í raun meginvandi íslenskrar fjölmiðlunar, einkum þeirrar sem ástunduð er á ljósvakamiðlunum, en þó eru virtari miðlar á borð við Morgunblaðið ekki að öllu leyti undanskildir. Margir blaðamenn virðast líta svo á, að „rétt“ og „faglega“ sé að fréttaflutningi staðið, ef andstæð sjónarmið í hverju máli fá að koma fram. Oftar en ekki eru sjónarmið þessi staðreyndalega ósamrýmanleg og lesandinn/hlustandinn situr eftir litlu nær. Sem dæmi má taka að viðmælandi A segir framkomu B í ákveðnu máli einsdæmi en B svarar því til að þannig sé málum háttað í Kanada. Blaðamaðurinn kemur þessum sjónarmiðum til skila, en hirðir ekki um að kanna hvor hafi rétt fyrir sér.
Slíkir blaðamenn eru auðvitað ekkert annað en mannleg upptökutæki á alltof háum launum. Það þarf varla menntun í hagnýtri fjölmiðlun til að hljóðrita andstæð sjónarmið í hverju máli og koma þeim skila? Þar mundi væntanlega nægja sæmileg íslenskukunnátta. En hvað veldur því, að fjölmiðlafólk fellur í þessa gryfju? Svarið við því er líklega ekki einhlítt en ein skýringin gæti verið þessi: Með auknum kröfum um „faglega“ og „hlutlæga“ blaðamennsku, er afstaða í fréttaflutningi bannorð. Það er miklu öruggara fyrir viðkomandi blaðamann að vinna fréttina þannig, að tíunda deiluefnið og gefa öllum deiluaðilum kost á að tjá sig. Þannig eru hverfandi líkur á að blaðamaðurinn fái skömm í hattinn fyrir að vera hlutdrægur eða að menn fari að grafast fyrir um pólitískan bakgrunn hans o.þ.u.l.
En blaðamaður án skoðana og afstöðu er lítils virði, hugsanlega ekki meira virði en Sanyo-diktafónn í Japis. Það felst í alvöru blaðamennsku að komast að kjarna málsins og leggja það á borð fyrir lesendur. Á leið sinni að kjarna málsins þarf blaðamaðurinn að taka ótal ákvarðanir sem lúta að grundvallarafstöðu hans og skoðunum, og að lokum verður hann og sá fjölmiðill sem hann starfar fyrir, dæmdur af áreiðanleika fréttarinnar. Dæmi um slíka blaðamennsku eru fréttaskýringar Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu. Fáir íslenskir blaðamenn hafa náð að tileinka sér vinnubrögð alvöru blaðamennsku með álíka hætti og Agnes, því miður.
Það hlýtur að vera frumskylda blaðamanns að komast til botns í umfjöllunarefni sínu. Að birta andstæðar skoðanir er auðvitað gott blessað en það er miklu frekar leið að markmiðinu – ekki markmiðið í sjálfu sér.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021