Frá upphafi samfélagsmyndunar hefur skattlagning verið órjúfanlegur hluti samfélagsins sjálfs. Í fyrstu má ætla að skattlagning hafi verið í formi vinnuskyldu til uppbyggingar sameiginlegra hagsmuna. Síðar voru skattar settir á eignir, neyslu og viðskipti bæði sem tollar og söluskattar. Megin tilgangur skatta hefur verið að afla tekna svo hægt sé að hrinda í framkvæmd tilteknum verkefnum og stuðla að hagvexti en einnig að veita þjónustu og hafa áhrif á hegðun skattgreiðenda. Þannig lögðu Rómverjar sem dæmi á sérstakan skatt á einstæða menn með það fyrir augum að stuðla að fólksfjölgun. Alls kyns skattar hafa verið settir á í gegnum tíðina og ólíklegustu hlutir hafa verið skattlagðir til að mynda lögðu Rómverjar einnig skatt á þvag.
Skattar hafa frá upphafi haft mótandi áhrif á þróun sögunnar og samfélagsins. Skattlagning og stríð eru því miður tengd fyrirbæri enda er stríðsrekstur meðal stærstu verkefna sem ráðist hefur verið í. Stríðsrekstur kallar á aukin útgjöld sem veldur því að nýjir skattar eru settir á. Stríð hafa því oft verið orsök þess að skattar hafa verið settir á sem svo hafa festst í sessi. En skattlagning hefur líka verið orsök þess að stríð hafi verið háð. Ein af ástæðum þess að Bandaríkin urðu til var ósætti manna þar við skattlagningu Breta svo dæmi sé tekið.
Þróun skattlagningar hefur verið á þann veg að skattleggja beri sem flesta þætti lífs okkar. Þessi þróun hefur verið áberandi eftir seinni heimsstyrjöldina. Það er orðið áhyggjuefni bæði hversu mikil skattlagningin er orðin og hversu misskipt skattbyrðin í raun er. Hluti þjóðarinnar borgar nánast enga skatta beint af tekjum sínum meðan aðrir þurfa að borga verulegan hluta þeirra í skatt. Öll neysla hér á landi er svo skattlögð með virðisaukaskatti sem hefur í för með sér að þeir sem mesta skatta greiða af tekjum sínum enda með að greiða yfir helming þeirra til ríkisins. Undan virðisaukaskattinum sleppur enginn og greiða hinir tekjulægri því samt sem áður verulegan hluta tekna sinna til ríkisins vegna þess hversu hár virðisaukaskatturinn er.
Stór ókostur við núverandi fyrirkomulag skattkerfisins er að skattgreiðendur fá litlu um það ráðið hvernig skattgreiðslum þeirra er varið. Skattgreiðendum gefst ekki kostur á því að koma beint að ákvörðunum varðandi ráðstöfun skattgreiðslna sinna heldur er aðkoma þeirra einungis með óbeinum hætti á nokkra ára fresti þegar kosið er. Vel má hugsa sér breytingar á kerfinu sem stuðla að meiri þátttöku skattgreiðenda í því hvernig peningum þeirra er varið.
Þetta þrennt hversu stór hluti teknanna er greiddur í skatt, hversu mismikið menn þurfa að leggja af mörkum til ríkisins og það að fá nánast engu um það ráðið hvernig skattgreiðslunum er varið skapar pirring og ósætti í þjóðfélaginu. Deilur um byggingu jarðgangna, rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins bera þess vitni.
Til að laga þetta eru eflaust margar leiðir færar. Ein leið væri að lækka verulega eða afnema tekjuskatt sem myndi hafa í för með verulegan samdrátt tekna ríkisins og kalla á umtalsverðan niðurskurð á umsvifum þess. Ólíklegt verður að teljast að samstaða myndi nást um þá leið.
Önnur leið væri að leyfa fólki að ráðstafa tekjuskattinum sínum eða hluta af honum til þeirra málaflokka eða verkefna sem það kysi. Þegar skattframtali væri skilað gætu skattgreiðendur eyrnamerkt ákveðnar upphæðir til þeirra málaflokka sem þeir teldu að skattgreiðslu sinni væri best varið. Þannig gæti hver og einn haft áhrif á hversu miklu hann verði af tekjuskatti sínum til öryggismála, heilbrigðismála, samgöngumála og annarar málaflokka. Á þennan hátt væri hægt að velja að láta ekkert renna til Ríkisútvarpsins, Kirkjunnar eða jafnvel menntamála, valið væri frjálst. Þessi aukna ábyrgð gæti vel verið valkvæm þannig að ef ekki væri áhugi á að ráðstafa skattgreiðslunni myndi ríkið gera það líkt og það gerir nú enda myndi ríkið eftir sem áður innheimta virðisaukaskatt auk annarra skatta og verja þeim tekjum til þeirra verkefna sem það teldi hepplegast.
Þessi leið myndi ekki sjálfkrafa leiða til samdráttar tekna ríkisins heldur einungis takmarka ákvörðunarvald þess yfir því hvernig þeim fjármunum sem það hefur hingað til aflað með tekjuskatti væri varið. Hins vegar ef kæmi í ljós að skattgreiðendur hefðu ekki áhuga á að verja fé til reksturs Ríkisútvarpsins, til jarðgangnagerðar eða Sinfóníuhljómsveitarinnar væri ef til vill ástæða að fyrir ríkið að endurskoða hvort þörf sé á þeirri þjónustu ef enginn vildi greiða fyrir hana.
Skattkerfið sem við búum við hér á landi er kerfi sem tekur stöðugum breytingum. Breytingar undanfarinna ára hafa svo sannarlega verið jákvæðar enda hafa skattar verið lækkaðir bæði á einstaklinga og fyrirtæki svo um munar. Hins vegar er því ekki að neita að ríkið ráðstafar enn alltof stórum hluta tekna skattgreiðenda. Sé þátttaka skattgreiðenda aukin þegar kemur að ráðstöfun skattgreiðslnanna mun það hafa í för með sér að ábyrgð skattgreiðenda á ráðstöfun tekna sinna eykst og þeir yrðu virkari þátttakendur í rekstri samfélagsins. Hvort tveggja mjög jákvætt og líklegt til þess að bæta samfélagið.
- Álæði - 22. maí 2005
- Kosningar - 27. október 2004
- Á tröppum spítalanna - 29. september 2004