Spennandi kostir Eystrasaltsríkjanna

RigaUndanfarin ár hafa íslensk fyrirtæki verið að leita að tækifærum út fyrir landsteinana. Ódýrt vinnuafl, stöðugleiki í stjórnmálum og jákvæð efnahagsþróun gera Eystrasaltsríkin að spennandi kosti.

RigaUndanfarin ár hafa íslensk fyrirtæki verið að leita að tækifærum út fyrir landsteinana. Ódýrt vinnuafl, stöðugleiki í stjórnmálum og jákvæð efnahagsþróun gera Eystrasaltsríkin að spennandi kosti.

Útrás íslenskra fyrirtækja hefur ekki verið upp á marga fiska ef miðað er við það sem gerist á Norðurlöndunum. Margir benda á stór fyrirtæki svo sem Össur og Bakkavör, en átta sig ekki á að hér er um að ræða undantekningarnar. Undanfarið hafa þó íslensk fyrirtæki verið að leita að tækifærum út fyrir landsteinana og hafa nokkur þeirra komið auga á spennandi kosti Eystrasaltsríkjanna.

Kostir landanna þriggja eru margir fyrir íslensk fyrirtæki. Nokkuð samfelld jákvæð efnahagsþróun hefur átt sér stað frá því að ríkin fengu sjálfsstæði, ef frá er talið tímabilið 1999-2000. Eftir sjálfstæði ríkjana setti Rússland óopinberar viðskiptaþvinganir á löndin sem neyddu þau að leita á ný mið. Sú þróun hefur haft mjög jákvæð áhrif og ýtt mjög undir uppgang undanfarinna ára.

Vinnuafl er um það bil tíu sinnum ódýrara en á Íslandi sem gerir vörur framleiddar þar mun samkeppnishæfari á alþjóðlegum markaði heldur en ef þær væru framleiddar hér heima. Það gerir þetta svæði einstaklega freistandi fyrir fyrirtæki með vinnuaflsfreka framleiðslu, skapar meira svigrúm og ekki þarf að spara störf.

Menning landanna er ekki ósvipuð og á Norðurlöndunum. Þau fyrirtæki sem hafa flutt starfsemi sína þangað hafa ekki lent í neinum alvarlegum vandamálum er varða menningu, en eins og flestir vita skipar hún stóran þátt í því hvernig til tekst. Ef stór gjá er á milli menningarheima, er hætt við að illa gangi ef fyrirtækið leggur sig ekki fram um að setja sig inn í hætti landsins. Stjórnvöld landanna þriggja hafa sérstaklega óskað eftir íslenskum fyrirtækjum sem óneitanlega er til merkis um það hve vel þeim hefur gengið að fóta sig þar.

Þá hefur stöðugleiki í stjórnmálum landanna haft sitt að segja um jákvæða efnahagsþróun og verulega dregið úr áhættuþáttum við að hefja atvinnurekstur. Regluveldi er ekki flókið og stendur ekki í vegi fyrir erlendum fjárfestum. Þvert á móti er áhugasömum fyrirtækjum vel tekið og hafa opinberar stofnanir og Evrópusambandið styrkt fyrirtæki til þess að hefja rekstur í Lettlandi. Rússneska mafían náði ekki fótfestu þar í landi og hefur því ekki náð að spilla fyrir viðskiptaumhverfinu.

66°N hefur opnað verksmiðju í Lettlandi og er eitt besta dæmið um íslenskt fyrirtæki sem hefur nýtt kosti landsins. Framleiðslan krefst mikils vinnuafls sem ekki er hægt að spara. Í kjölfarið er fyrirtækið orðið samkeppnishæft að nýju og gæði framleiðslunnar hefur aukist. Möguleikar á útflutningi hafa myndast en áður var fyrirtækið bundið við að selja framleiðslu sína eingöngu á Íslandi. Ekki einungis eru launin tífalt lægri en á Íslandi, heldur eru afköst verkafólksins töluvert meiri. Mjög agaður vinnukúltur ríkir þar og meðalaldur starfsmanna er töluvert lægri en gengur og gerist á saumastofum hér.

Önnur íslensk fyrirtæki eru til dæmis BYKO sem rekur timbursölu og flytur inn til Íslands, Nói Síríus og Brim. Ilsanta, dótturfélag Líf hf., starfar á Eystrasaltslöndunum og hefur fyrirtækið sérhæft sig í að selja hjúkrunarvörur og tækjabúnað fyrir sjúkrahús. Einnig hefur Ilsanta gert samning við stærsta framleiðanda dreypilyfja heims, Fresenius Kabi um einkarétt á markaðssetningu og dreifingu á vörum þess á svæðinu.

Íslensk fyrirtæki eru ekki þau einu sem hafa nýtt sér hagstæðar aðstæður landanna. Töluverður fjöldi danskra fyrirtækja er í Lettlandi og Litáen og finnskum í Eistlandi.

Það þarf mikið til þess að hrinda gömlum fyrirtækjum og verksmiðjum Eystrasaltslandanna inn í nútímann. Í mörgum tilfellum eru tæki úr sér gengin og byggingar að hruni komnar. Það er því þeim í hag að fá erlenda fjárfesta í uppbygginguna. Innri strúktúrar svo sem heilbrigðis- og menntakerfið þurfa einnig á uppbyggingu að halda og þar liggja miklir möguleikar. Stjórnvöld landanna hafa útdeilt umboðum með tilheyrandi styrkjum og fyrirgreiðslum til erlendra fyrirtækja til þess að vinna að uppbyggingunni. Hér er því um gagnkvæma hagsmuni að ræða.

Þess er ekki langt að bíða þar til höfuðborgir landanna þriggja verða á meðal þeirra fremstu í Evrópu. Öll þrjú löndin munu innan skamms ganga inn í Evrópusambandið og mjög hröðum vexti er spáð. Talið er að eftir fimm ár munu Eystrasaltslöndin vera búin að ná öðrum þjóðum Evrópusambandsins og aðstæður breytast mikið. Tækifærið er því núna og fer hver að verða síðastur að grípa gæsina.

jarthrudur@deiglan.com'
Latest posts by Jarþrúður Ásmundsdóttir (see all)