Í núgildandi kjarasamningi milli ASI og Samtaka atvinnulífsins er afskaplega einkennilegt ákvæði. Þar segir að ef verðbólga fer ekki hjaðnandi yfir samningstímann má segja samningunum upp. Ákvæðið var víst sett inn í samningana til þess að verkalýðshreyfingin gæti sofið rótt vitandi það að ef samningarnir leiddu ekki til þeirrar kaupmáttaraukningar sem stefnt var að þá gætu þau sagt samningunum upp og krafist meiri launahækkana. Það verður að segjast að fátt hef ég heyrt heimskulegra, a.m.k. kosti frá sjónarhóli hagfræðinnar, en þetta ákvæði.
Ég er nokkuð viss um að flestir sjá hvað er svona heimskulegt við þetta en ég ætla nú samt að fara í gegnum það til gamans. Venjulegur launþegi skapar ákveðið mikið af verðmætum á hverri vinnustund sem hann vinnur. Upphæðin sem hann fær í laun ræðst af þessum verðmætum. Yfir tíma hækkar þessi upphæð og nefnist það á fræðimáli framleiðniaukning. Aukin framleiðni leiðir til þess að laun hækka. En þar sem við búum ekki í fullkomnum heimi gerist það ekki af sjálfu sér. Hagsmunasamtök launþega þurfa oftast nær að „berjast” fyrir launahækkunum þegar framleiðni eykst.
Í kjaradeilum er verið að bítast um það nákvæmlega hversu mikið framleiðni hefur aukist. Atvinnurekendur halda því fram að hún hafi aukist lítið á meðan verkalýðsfélögin halda því fram að hún hafi aukist mikið. Ef niðurstaðan verður launahækkun sem er minni en framleiðniaukningin leiðir það til þess að hagnaður fyrirtækja eykst. Ef hins vegar niðurstaðan verður launahækkun sem er meiri en framleiðniaukningin leiðir það til þess að verðlag tekur að hækka.
Mikilvægasta undirliggjandi skýring hinnar stórauknu verðbólgu sem herjað hefur á okkur Íslendinga undanfarna mánuði hefur einmitt verið sú að laun hafa á undanförnum árum hækkað langt umfram framleiðni. Það hefur leitt til þenslu og ójafnvægis sem lýsir sér meðal annars í gríðarlegum viðskiptahalla og fallandi gengi krónunnar.
Hvernig vilja verkalýðsfélögin bregðast við þessu? Jú, segja upp fyrri samningum og byðja um enn meiri hækkanir. Já, það er örugglega vænlegt til árangurs.
Eins og Davíð Oddsson hefur bent á væri miklu nær að kjarasamningarnir væru endurskoðaðir og laun lækkuð. Það myndi draga úr þenslu og þar með draga úr verðbólgu. En það kemur ekki til greina ef marka má Halldór Björnsson, varaforseta ASÍ, sem segir að engar forsendur séu fyrir þjóðarsátt um þessar mundir þar sem launafólk hafi tekið á sig svo miklar byrðar síðasta áratuginn. Hafiði heyrt annan betri.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009