Ekki er á vísan að róa í knattspyrnunni, eins og Íslandsmeistarar KR-inga hafa komist að í sumar. Draumurinn um nýtt gullaldarskeið, þriðja sigurárið í röð, hefur snúist upp í martröð. Íslandsmeistararnir eiga nú að baki næstum helming leikja sinna á Íslandsmótinu 2001 og uppskeran er heil átta stig. Vinni KR alla þá tíu leiki sem liðið á eftir verður heildaruppskeran 38 stig og ólíklegt verður að teljast að það muni duga til sigurs á mótinu, þótt vissulega sé það ekki útilokað. Þetta „gullaldarskeið“ KR mun því ekki standast nokkurn samanburð við gullaldarskeið Skagamanna á síðasta áratug þegar þeir gulu unnu Íslandsmeistaratitilinn fimm ár í röð, oftast með miklum yfirburðum.
Það er því skiljanlegt að mönnum sárni í Vesturbænum og þeirri gremju hefur nú verið fundinn farvegur í nýafstöðnum þjálfaskiptum. Um það verður ekki deilt að Pétur Pétursson náði ekki þeim árangri sem til var ætlast og ekki var útlit fyrir að honum tækist það. Því er eðlilegt að hann láti af stjórn liðsins. Sama dag og Pétur „sagði starfi sínu lausu“ átti Bjarni Felixson, íþróttfréttamaður Ríkisútvarpsins, fróðlegt símaviðtal við þjálfara KR á Rás 2 klukkan hálftólf. Bjarni, sem aldrei hefur farið dult með KR-eðli sitt, hundskammaði þar Pétur fyrir slælega frammistöðu liðsins og „viðtalið“ var í raun eins og hróp frá KR-ingi ofan úr stúku á þjálfarann. Bjarni klikkti svo út með því að segja Pétri, sem staddur var heima hjá sér, því heyra mátti börn hans að leik í bakgrunninum, að fundað yrði í Vesturbænum þann sama dag – m.ö.o. að þegar væri ákveðið að Pétur yrði látinn taka pokann sinn.
Þessi framganga Bjarna er honum sjálfum og þeirri stofnun sem hann vinnur hjá til skammar. Að maður noti þá aðstöðu sem honum er ljáð af skattfé almennings, til að fá útrás fyrir gremju sína sem KR-ingur, er auðvitað út í hött – að ekki sé talað um smekkleysi þess að segja manni næstum hreint út að hann sé að missa starf sitt í beinni útsendingu frammi fyrir alþjóð.
Við þessi þjálfaraskipti hjá KR hefur því verið haldið mjög á lofti, að Pétur Pétursson hafi tekið þá ákvörðun sjálfur að láta af störfum og að hann standi eftir sterkari. Það minnir óneitanlega á tilboð sem guðfaðirinn don Corleone gerði mönnum á sínum tíma, tilboð sem ekki var hægt að hafna: „Either your signature will be on this paper, or your brain.“
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021