Það reynist mörgum þrautin léttari að tæta í sig tilverurétt Sinfóníuhljómsveitar Íslands með hefðbundnum frjálshyggjurökum. Allar hefðbundnu frumsetningarnar um óhagkvæmni ríkisreksturs falla fullkomlega að líkaninu og ekki skemmir fyrir að Hljómsveitin er dýr í rekstri og stór hluti fólks annaðhvort skilur ekki tónlistina sem hún flytur eða finnst hún leiðinleg.
Það er því vinsæl og tíð iðja á hægri vængnum að minna ítrekað á hve mikla fjármuni rekstur sveitarinnar kostar og komast síðan að þeirri niðurstöðu að þeir peningar séu betur geymdir í vasa skattgreiðenda heldur en í vösum starfsmanna Sinfóníunnar.
Ekki er neitt út á þá röksemdarfærslu að setja. Enda hárrétt að miðar á tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar ná aðeins yfir brot af kostnaðinum við rekstur hennar. Þar að auki fæst ekki vel séð að starfsemin sé þjóðfélaginu svo lífsnauðsynleg að hið opinbera þurfi að grípa í taumana með stórkostlegum fjárútlátum. Það er því eðlilegt að menn með hærri réttlætiskennd á notkun skattpeninga geri kröfur um að stuðningi ríkisins við Hljómsveitina verði hætt.
Menn verða hins vegar stundum að líta aðeins í kringum sig. Sjálfur er ég til dæmis að læra stærðfræði í ríkisreknum háskóla. Mig mundi eflaust í framtíðinni langa til að vinna við stærðfræði, hugsanlega einmitt líka í ríkisreknum háskóla. Það er mér hvatning að vita af þessum atvinnumöguleika. Á sama hátt veit ég að marga unga tónlistarmenn dreymir um að geta dag einn spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er þeirra hvatning, þeirra framtíðarmöguleiki. Auðvitað gerir þetta heimtufrekju mína, eða þeirra ekki minni, en fólk ætti stundum að líta sér nær áður en það gagnrýnir stuðning við annarra manna ástríður.
Hins vegar verður ekki litið framhjá því að viðvarandi hallarekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar er algjörlega óþolandi. Sinfónían þarf að gera það sem fyrirtæki í fjárhagsvandræðum mundi gera. Hún þarf að hækka miðaverð og stórauka tekjur sínar. Hún þarf að lækka laun tónlistarmanna og taka mið af því að margir þeirra afla sér tekna með öðrum hætti. Hún þarf að leita í auknum mæli eftir stuðningi einkaaðila. Hún þarf hætta að halda ókeypis tónleika fyrir grunnskólabörn, bara út af því að það er svo gaman.
Ef tilfinning mín fyrir þjóðfélaginu er rétt er tónlist mun algengari gleðiuppspretta meðal fólks en stærðfræði. Ég tel mig því ekki vera í aðstöðu til að krefjast þess að stuðningi við Sinfóníuhljómsveit Íslands verði hætt tafarlaust. Miðað við allt sem ríkið er að gera er það kannski ekki fáranlegt að ríkið styðji Sinfóníuhljómsveit. Ég geri hins vegar þá kröfu um að sveitin skaffi stærstan hluta tekna sína sjálf en sé ekki rekin með halla ár eftir ár og láti skattgreiðendur um að borga mismuninn.
Einnig er tímabært að forsvarsmenn og velunnarar sveitarinnar sýni skattborgurum smá þakklæti og viðurkenni að það sé ekkert sjálfsagt að ríkið reki Sinfóníuhljómsveit. Það getur kannski verið gaman, en það er ekki sjálfsagt.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021