Menn býsnast gjarnan yfir því, að nútímabörn njóti ekki nægilegra samvista við foreldra sína, þau vafri um bæinn í hirðuleysi (lyklabörnin) og verði vandræðaunglingar upp til hópa. Þessi sjónarmið heyrast gjarnan þegar rætt er um „ástandið í miðborginni“, eins og það heitir víst. Í kjölfarið upphefst jafnan söngurinn um heildstæða fjölskyldustefnu og mikilvægi þess að ríkisvaldið komi þessum málum í farveg, þar sem sérfræðingar geti mótað stefnu til lausnar á vandanum.
Flestir eru í dag sammála um að inngrip ríkisvaldsins í efnahagslífið séu af hinu slæma og hafi þau áhrif að draga þrótt og getu úr þeim sem bera efnahag þjóða uppi, þ.e. einstaklingum og fyrirtækjum. Skyldi það sama eiga við um félagsleg málefni, þó ekki væri nema bara að litlu leyti? Það skal viðurkennt, að inngrip opinberra aðila í félagsleg málefni getur verið réttlætanleg, einkum til verndar börnum og ungmennum sem líða þjáningar. Þeim inngripum er þá markaður rammi í barna- og barnaverndarlögum. En hið opinbera hefur einnig margvísleg önnur afskipti af málefnum fjölskyldunnar, sem ekki hafa jafn skýrt og einfalt markmið. Eins og svo mörg (stjórnmála)mannanna verk, þá er hugsunin að baki stefnunni göfug, en í reynd útiloka afskiptin sjálf að hið göfuga markmið með þeim náist.
Þótt upplýsing og sérfræðikunnátta á fjölskyldumálum sé að sönnu jákvæð, kann sérfræðikunnátta opinberra aðila að hafa slæm áhrif á getu foreldra til að annast sjálfir uppeldi barna sinna. Ég held því fram, að í hverjum manni búi eðlislægar hvatir til að sinna hlutverki foreldris, þannig hafi náttúran háttað málum til að tryggja vöxt og viðgang mannkyns. Hugsanlega hefur samanþjöppuð sérfræðikunnátta á höndum opinberra aðila þau áhrif, að foreldrar finni til vankunnáttu og getuleysis í uppeldinu. Fólk hættir að stóla á eðlisávísun sína og eftirlætur sérfræðingum hins opinbera uppeldið, svo ekkert fari nú úrskeiðis – best að láta fagmennina um þetta…
Ég er ekki að mælast til þess, að börn séu einungis alin upp af foreldrum sínum. Þvert á móti, ekki má vanmeta uppeldislegt gildi þess fyrir börn að ganga í skóla og taka þátt í íþróttum og félagslífi hvers konar. En hin endanlega ábyrgð á uppeldi barna liggur hjá foreldrum. Þeir geta ekki afsalað sér þeirri ábyrgð til sérfæðinga hins opinbera, þótt þeir efist um eigin hæfni í samanburðinum. Á sama hátt ætti hið opinbera að láta af þeirri áráttu sinni, að yfirtaka í ríkari mæli þær skyldur sem foreldrar eiga að bera – nema brýna nauðsyn beri til.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021