Svindlað á svindlurum

Í viðskiptum á fimmtudegi verður að þessu sinni fjallað um viðskiptatilboð ættuð frá Afríku sem algengt er að fólk fái um þessar mundir. Flest þeirra ganga út á að bjóða stórar upphæðir fyrir frekar litla fyrirhöfn. En ekki er allt gull sem glóir. Almennt í viðskiptum gildir sú regla að það sem virðist vera of gott til að vera satt, er ekki satt.

Margir kannast við tölvupóstsendingar frá mönnum, í mörgum tilfellum búsettum í Nígeríu, þar sem boðið er upp á gull og græna skóga gegn smá aðstoð við að koma peningum undan illa innrættum mönnum eða yfirvöldum.

Póstsendingarnar beinast aðallega að fólki sem notar almenna, og í flestum tilfellum ókeypis, póstþjónustu eða þeim sem gefa upp netfang á heimasíðum á veraldarvefnum. Algengt er að fólk fái nokkur slík tilboð í viku og gefa fæstir þeim mikinn gaum enda í flestum tilfellum augljóst hvað fyrir sendandanum vakir.

Bréfin eru oftast svipuð að uppbyggingu. Persóna komst einhverra hluta vegna yfir mikil auðæfi en er í vandræðum með að leysa þau út. Biður um hjálp frá viðtakanda bréfsins og segir nauðsynlegt að fá erlendan bankareikning til að færa fjármunina. Oft er tekið fram tilfærslan sé ólögleg, en þó ekki alltaf, en fyrir viðvikið á viðtakandi bréfsins að fá vænan hluta upphæðarinnar fyrir sinn snúð. Jafnframt er algengt að einnig sé beðið um síma og heimilisfang viðtakanda og skýrt tekið fram að um trúnaðarmál sé að ræða. Ef viðtakandi svarar er hann beðinn um að senda greiðslu til að stofna reikning fyrir peningana eða að mæta til Nígeríu og ganga frá viðskiptunum þar.

Vart þarf að taka fram að á bak við póstsendingarnar standa harðsvíraðir glæpamenn sem reyna hvað þeir geta til að svindla peninga út úr auðtrúa vesturlandabúum. Þeir sem falla í gildru þeirra enda með því að tapa stórum fjárhæðum.

ALgengt er að fólk fái nokkur slík bréf á mánuði, allt eftir því hversu aðgengilegt viðkomandi netfang er. Margir pirra sig á þessum „ruslpósti“ en aðrir hafa gaman af hugmyndaauðgi svindlaranna.

Ekki er til þess vitað að Íslendingar hafi fallið í þá gryfju að trúa því sem í póstinum stendur en ljóst er að ritfimir svindlararnir hljóta að hafa eitthvað úr býtum því annars myndu þeir fljótlega gefast upp á þessum póstsendingum. Reyndar er talið að þeir hafi náð töluverðum árangri víða um heim við iðju sína sem skýrir mikla aukningu á slíkum tölvupósti upp á síðkastið. Til dæmis náði spænska lögreglan að handtaka svindlara frá Nígeríu á síðasta ári sem höfðu náð að svindla rúmum 1,6 milljarði íslenskra króna út úr um 300 einstaklingum, flestum frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi og Spáni.

En hvernig fara þeir að því að svíkja slíkar upphæðar frá fólki? Oftar en ekki gengur svindlið út á að svindla þriðja aðila, sem oftast er ríkisstjórn Nígeríu eða stór fyrirtæki þar í landi. Til að geta tekið þátt í svindlinu verður fórnarlambið, þ.e. fávísi vesturlandabúinn, að borga ákveðna summu t.d. til að stofna bankareikning. Ef greiðslan er innt af hendi er líklegt að svindlararnir hafi samband aftur og láti vita að eitthvað hafi farið forgörðum. Til að leiðrétta mistökin og „frelsa“ peningana sem þú átt í vændum sé nauðsynlegt að senda aðra greiðslu. þetta getur haldið áfram þar til peningar fórnarlambsins eru uppurnir eða lambið áttar sig á svindlinu. Ef fórnarlambið ferðast hins vegar til Nígeríu gerist nokkurn veginn það sama nema að nú hafa svindlararnir tækifæri til að ræna viðkomandi. Stundum múta þeir jafnvel landamæravörðum til að hleypa grunlausum útlendingum inn í landið án þess að fá rétt vegabréf en það er alvarlegur glæpur í Nígeríu. Síðan nota þeir tækifærið og hóta að koma upp um viðkomandi vegna „glæpsins“ og beita fjárkúgunum.

Stjórnvöld víða um heim hafa um nokkurt skeið reynt að hafa hendur í hári þessara manna en með misjöfnum árangri. Helstu ástæður þess að það hefur gengið erfiðlega eru varkárni svindlaranna og erfiðleikar við að fá fórnarlömb til að gefa sig fram. Með því eru þau að viðurkenna að hafa tekið þátt í ólöglegri iðju. Jafnframt er líklegt að fólk skammast sín fyrir að falla fyrir slíkum brögðum og gefi sig síður fram eða að það sér ekki tilgang í því þar sem ólíklegt er að endurheimta svikna peninga. Einnig eru uppi kenningar um að stjórnvöld í Nígeríu séu í sumum tilfellum viðriðin svindlið og útvegi t.d. bréfsefni og ferðir um opinberar byggingar. Ef satt er flækir það vissulega rannsókn slíkra mála.

Almennt séð er ekki ráðlegt að eiga í miklum samskiptum við þessa menn og hvað þá að veita þeim nokkrar upplýsingar. Til dæmis hafa þeir sem svara þessum pósti lent í frekari vandræðum með ruslpóst því að með svarinu er gefin staðfesting á því að netfangið sé í notkun.

Hins vegar getur verið forvitnilegt að vita hvernig svindlararnir bregðast við þegar þeim er svarað og læt ég því fylgja þrjár skemmitlegar frásagnir af slíku uppátæki:

Frásögn af www.bankersonline.com

Frásögn af www.silicon.com

www.svannahsays.com

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.