Í fyrradag greindi David Blankett, innanríkisráðherra Breta, frá því að slakað yrði verulega á löggjöf varðandi kannabisefni í Bretlandi. Þessu verður náð fram með því að endurflokka kannabisefni úr B flokki í C flokk sem inniheldur vægari efni á borð við stera og þunglyndislyf. Blankett segir að tilgangurinn sé að gefa lögreglunni svigrúm til að taka frekar á glæpum tengdum harðari efnum á borð við kókaín og heróín. Blankett tilkynnti í breska þinginu á miðvikudag að hann hyggðist ná þessum breytingum í gegn fyrir júlí árið 2003.
Hér er sannarlega um mikla áherslubreytingu að ræða í baráttu Breta gegn vímuefnum því breytingin felur í rauninni í sér að nú verður tekið vægar á þeim sem nota kannabis. Áfram verður ólöglegt að hafa kannabisefni undir höndun eða eiga viðskipti með efnið.
Sífellt fleiri þingmenn í breska þinginu hafa undanfarið opinberlega viðurkennt þá skoðun sína að þeir efist um að bann við fíkniefnum sé rétta leiðin til að taka á vandamálunum sem þeim fylgja. Keith Hellawell, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í fíkniefnamálum, sagði aftur á móti af sér í mótmælaskyni við ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar um að slaka á löggjöfinni varðandi kannabisefni. Hellawell segir að breytingin muni senda villandi skilaboð til ungs fólks og foreldra þeirra.
Almenningur í Bretlandi hefur tekið þessum fregnum misvel eins og gefur að skilja enda er þetta hitamál fyrir mörgum einstaklingum, hvorum hópnum sem þeir tilheyra. Flestir hafa eitthvað út á ákvörðun Blanketts að setja. Þeir sem eru á móti lögleyðingu vilja ekkert gefa eftir í baráttunni en þeir sem eru fylgjandi lögleyðingu vilja meina að um eintóma sýndarmennsku sé að ræða hjá bresku ríkisstjórninni sem muni þegar upp er staðið ekki bæta ástandið því breytingin muni auðvelda dílerunum að hagnast á sölu kannabisefna. Það sem ríkisstjórnin ætti einfaldlega að gera er að lögleiða notkun kannabisefna algjörlega og leyfa fólki að rækta plöntuna heima hjá sér því að það sé eina leiðin til að losna við sölumenn kannabisefna fyrir fullt og allt.
Ef vilji er til að halda baráttunni gegn eiturlyfjum á borð við kannabisefni áfram, þá er nokkuð ljóst að þær aðferðir sem hingað til hafa verið notaðar hafa ekki skilað árangri. Það á eftir að koma í ljós hvernig tilraun Breta mun ganga en það er greinilega von til þess að nú verði litið á málin frá nýju sjónarhorni. Bann á eiturlyfjum mun aldrei nokkurn tímann koma í veg fyrir að fólk noti þau. Það er tími til kominn að huga alvarlega að því að lögleiða a.m.k. vægari efnin.
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020