Fyrir sextán dögum fyrirskipaði innanríkisráðherra Bretlands, David Blunkett, að Robert Thompson og Jon Venables, skyldu látnir lausir eftir að hafa verið í gæslu breskra yfirvalda í átta ár. Þeir Thompson og Venables eru átján ára en tíu ára gamlir frömdu þeir einhvern voðalegasta glæp sem breskt samfélag og hinn vestræni heimur hefur upplifað hin síðari ár. Örlög James Bulgers eru öllum kunn og óþarft að rekja þá sögu hér. Blunkett innanríkisráðherra rökstuddi ákvörðun sína, sem tekin var að tillögu náðunarnefndar, með þeim orðum, að almannahagsmunir réttlættu ekki lengur innilokun þeirra Thompsons og Venebles, þar sem náðunarnefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu, að samfélaginu stafaði ekki lengur ógn af þeim.
Þetta mál leiðir hugann að refsingum, réttlætingu þeirra og markmiðum. Það er vissulega eitt meginmarkmið refsinga að halda hættulegum einstaklingum frá samfélaginu og því má segja, að þegar menn hafa á annað borð komist að þeirri niðurstöðu, að Robert Thompson og Jon Venables séu ekki lengur hættulegir samfélaginu, standi öryggissjónarmið ekki í vegi fyrir því að þeim sé sleppt. En fleiri sjónarmið en öryggi almenningss réttlæta refsingar. Eitt sjónarmið, sem í dag er hálfgert tabú, er hin s.k. gjaldstefna. Hún gengur út á það, að hinn brotlegi gjaldi fyrir glæp sinn, án þess að tillit sé tekið til gagnsemissjónarmiða og árangurs af refsingu. Það heitir á mannamáli hefnd.
En hefndin á ekki upp á pallborðið hjá nútímanum, ekki frekar en skítugar tennur. Þess í stað er afbrotamaðurinn oftar en ekki settur í öndvegi og kappkostað að endurhæfa hann og betra. Þetta mun hafa tekist bærilega með unglingana tvo frá Liverpool, enda hafa þeir notið stöðugrar umönnunar færustu uppeldissérfræðinga Bretlands í heil átta ár, auk þess sem sérstaklega hefur verið hlúð að menntun þeirra. Og eftir átta ár, þá er það samdóma álit þeirra sem að málinu koma fyrir hönd breskra yfirvalda, að Robert Thompson og Jon Venables, séu hæfir til að takast á við lífið – nýtt líf. Eftir hinn ólýsanlega glæp, er niðurstaðan sú, að breska ríkið ver milljónum punda í uppeldi afbrotamannanna og menntun, gefur þeim nýtt nafn, nýjan bakgrunn – nýtt líf – svo þeir geti gengið lífsins veg í friði.
Fyrir átta árum áttu hinir tíu ára gömlu Robert Thompson og Jon Venables ekki sérstaklega bjarta framtíð, ekki frekar en flest önnur bresk ungmenni úr lægri stéttum. Eins og tugþúsundir annarra breskra barna, bjuggu þeir við erfiðar félagslegar aðstæður. Af hvötum, sem ekki verða útskýrðar öðruvísi fyrir sæmilega jarðbundu fólki en sem hrein illska, svívirtu þeir, pyntuðu og myrtu rúmlega tveggja ára gamlan dreng. Átta árum síðar ganga þeir út í lífið, nýir menn með flekklausa fortíð – í boði breska ríkisins.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021