Þann 15. júní gekk Ísland aftur í Alþjóða hvaðveiðiráðið eftir nær tíu ára hlé. Við inngönguna var gerður fyrirvari við samþykkt ráðsins um stöðvun hvalveiða í atvinnuskyni, sem þýðir í raun að Ísland er óbundið af samþykktinni og ríkisstjórning gæti ákveðið að hefja aftur hvalveiðar, svipað og Norðmenn hafa gert.
Á sínum tíma gekk Ísland úr ráðinu þar sem það vann tiltölulega augljóslega gegn yfirlýstu markmiði sínu: „to provide for the proper conservation of whale stocks and thus make possible the orderly development of the whaling industry“. Ein aðalforsenda þess að Ísland gekk aftur í ráðið er að útlit er fyrir að stuðningur við sjálfbærar hvalveiðar sé að aukast innan þess.
Hvalastofnar við Ísland eru ekki í útrýmingarhættu en í mikilli samkeppni við okkur um fiskistofna við landið og við fiskistofnana sjálfa um æti. Þannig gætu hvalveiðar stækkað fiskistofnana við landið og verið stærri ábati en sala á hvalaafurðunum sjálfum. Nefnd á vegum sjávarútvegsráðuneytisins hefur einnig lagt til að hvalveiðar verði hafnar strax til að styrkja landvinnslu á fiski. Af þessu og þeim orðum sem sjávarútvegsráðherra hefur látið falla um málið að stefnt er ákveðið að því að hefja hvalveiðar við fyrsta tækifæri.
Þessi afstaða stjórnvalda er mikið áhyggjuefni. Ég er algjörlega sammála fyrrnefndum sjónarmiðum en er þó mótfallinn því að við hefjum hvalveiðar að svo stöddu. Ekki vegna þess að ég sé hræddur um að ferðamönnum finnist það tvískinungur að bjóða upp á hvalaskoðun milli þess sem við skjótum hvalina, heldur vegna vægis Íslands gegn öflugum náttúruverndarsamtökum og þrýstihópum sem ekki skilja stöðu Íslands eða eru mótfallin hvalveiðum af prinsipástæðum.
Að ótöldum ferðamannaiðnaðinum hafa íslenskir útflytjendur hafa í stórauknum mæli ákveðið að tengja vörur sínar við Ísland. Þannig samnýtast kraftar þeirra í markaðssetningu og þeir njóta góðs af hinni miklu og að stærstum hluta mjög jákvæðu umræðu sem hefur átt sér stað um Ísland. Þannig er hagsmunum útflytjenda, bæði fisks og annarra vara, sem tengja vöru sína með einu eða öðru móti við Ísland hætt.
Það er ekki mikil von til þess að íslensk yfirvöld og útflytjendur nái að yfirgnæfa hina háværu rödd Greenpeace og hliðstæðra samtaka. Þeir fjármunir sem náttúruverndarsamtök og þrýstihópar hafa úr að spila eru mun meiri en Íslendingar gætu notað í áróðursstríði og skaðinn sem þau gætu valdið hinu góða nafni Íslands meiri en ágóðinn af hvalveiðum. Því verða menn að vera þolinmóðir og fara hægt í sakirnar, það verða allir að skilja, jafnvel þótt þeir sjái fram á að hvalveiðar geti aukið þorskkvóta, minnkað byggðaröskun eða séu grundvallarréttur okkar sem sjálfstæðrar þjóðar.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021