Mættur til leiks á ný í ensku knattspyrnunni

Þann 23. júní síðastliðinn greindi Deiglan fyrst íslenska fjölmiðla frá því að Guðjón Þórðarson leiddi hóp fjárfesta í yfirtöku á enska knattspyrnufélaginu Barnsley. Í dag stjórnar Guðjón liði Barnsley á heimavelli gegn Colchester United í 1. umferð ensku 2. deildarinnar. Hann er því mættur til leiks á ný í ensku knattspyrnunni.

Guðjón Þórðarson er mættur aftur til leiks í ensku knattspyrnunni. Hér fagnar hann sigri Stoke í umspili og þar með sæti í 1. deild fyrir rúmu ári.

Yfirtaka fjárfesta undir forystu enska kaupsýslumannsins Sean Lewis á enska knattspyrnufélaginu Barnsley FC er langt komin og í dag leikur liðið sinn fyrsta alvöru leik undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar. Margt hefur verið rætt og ritað um þessa yfirtöku og í DV í gær var látið að Lewis hefði tíu daga frest til að ganga frá málinu.

Deiglan hefur fylgst náið með yfirtökunni á Barnsley frá fyrstu stigum málsins. Raunar var það svo að Deiglan var fyrst fjölmiðla til að greina frá hugsanlegri yfirtöku hóps fjárfesta sem vildu kaupa félagið og gera Guðjón Þórðarson að knattspyrnustjóra.

Þáttur Guðjóns í málinu hefur verið nokkuð á huldu fram til þessa. Íslenskir fjölmiðlar lögðu mikinn trúnað í frásögn Baldurs nokkurs Sigurðssonar sem sagði Guðjón ekki vera hluta af þeim hóp sem vildi taka yfir Barnsley en hann kæmi til greina eins og hver annar í stöðu knattspyrnustjóra. Þess má geta að Baldur kemur hvergi nærri kaupunum á Barnsley, þótt íslenskir fjölmiðlar hafi verið uppfullir af fréttum um að Baldur væri að kaupa klúbbinn.

Hafa fjóra mánuði til að endurfjármagna langtímalánin

Mikið hefur mætt á Sean Lewis og félögum síðustu vikur en þeir hafa ekki látið deigan síga.

Á ýmsu hefur gengið hjá Sean Lewis og félögum við að tryggja yfirtöku sína á félaginu. Strangar reglur Enska knattspyrnusambandsins (FA) og Ensku knattspyrnudeildarinnar (FL) hafa gert ferlið flóknara og tímafrekara en ráð var fyrir gert. Óhætt er að segja að þetta hafi komið illa niður á undirbúningstímabili liðsins í sumar. Sean Lewis og félagar, þ.á m. Kenny Moyes, hafa hins vegar unnið ötullega að málinu og náð að byggja upp traust meðal þeirra aðila sem að því koma.

Mikið hefur verið rætt og ritað um stöðu liðsins og í DV í gær birtist mikil úttekt á málinu. Sú úttekt er að ýmsu leyti góð og á DV hrós skilið fyrir sýna þessu máli jafn mikinn áhuga og raunin er. Hins vegar eru töluverðar rangfærslur í úttektinni sem gefa blaðamanni DV tilefni til að dranga rangar ályktanir.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Deiglunnar snýst málið um að nýir eigendur þurfa að greiða eða endurfjármagna lán sem hvílir á félaginu með veði í eignum þess. Til þess hafa þeir frest til 4. desember, en ekki til 18. ágúst eins og látið var í veðri vaka í DV í gær. Um er að ræða stórt lán sem Sterling-bankinn lánaði þáverandi eigendum Barnsley og er afar óhagstætt.

Vegna vanskila á greiðslum af láninu sem og greiðslu annarra gjalda hefur félagið verið í greiðslustöðvun um nokkurt skeið. Aðrar skuldir félagsins, þ.á m. skattaskuldir, hafa verið greiddar upp og því er Sterling-lánið það sem út af stendur. Á næstu fjórum mánuðum þurfum nýir eigendur Barnsley að leysa málið.

Nokkrir kostir í stöðunni

Oakwell, heimavöllur Barnsley, er mjög glæsilegur, staðsettur í miðborginni og eru mikil verðmæti fólgin í landinu umhverfis.

Í fyrsta lagi er hugsanlegt að fleiri fjárfestar vilji koma að málinu. Þeir halda þó að sér höndum vegna greiðslustöðvunarinnar en Barnsley á mikið land á góðu svæði og talsverðir möguleikar felast í þessu fyrir fjárfesta burtséð frá gengi liðsins á knattspyrnuvellinum.

Í öðru lagi geta nýir eigendur leitað til nýrra aðila um endurfjármögnun Sterling-lánsins. Þetta er líklegasta niðurstaðan. Núverandi lán er mjög óhagstætt og meginástæðan fyrir því að fjárgæsluaðilinn (administrator) vill ekki aflétta greiðslustöðvuninni er sú, að rekstur félagsins ber varla afborganir af þessu láni.

Í þriðja lagi er mögulegt að nýir eigendur muni semja við Sterling um nýja skilmála á láninu. Sterling hefur hagsmuni af því að halda láninu í stað þess að missa vaxtatekjurnar eitthvert annað.

Ýmsir kostir eru þannig í stöðunni og nýir eigendur hafa nú tíma til að finna bestu leiðina. Deiglan hefur heimildir fyrir því að stór enskur fjárfestingasjóður hafi þegar lýst yfir áhuga sínum að koma að málinu. Þá hafa ýmis minni fyrirtæki og fjársterkir einstaklingar sýnt áhuga að koma að málinu með Lewis og félögum gegn stjórnarsæti í félaginu.

Í DV í gær var einnig látið að því liggja að annar aðili, Peter Ridsdale, væri klár með nýtt tilboð í félagið og á bakvið það væru meiri fjármunir en Sean Lewis og félagar hafa getað komið upp með. Þetta er líka rangt hjá DV. Á fimmtudaginn fyrir viku kom reyndar upp sú staða að menn áttu von á nýju yfirtökutilboði frá Peter Ridsdale, sem áður var stjórnarformaður Leeds United. Þegar á reyndi hafði Ridsdale ekki þá fjármuni sem hann hafði látið í veðri vaka. Hann er því ekki lengur inni í myndinni.

Málið stendur því þannig núna að Barnsley getur hafið keppni í ensku 2. deildinni og þurfa eigendur þess að nota næstu mánuði til að tryggja fjárhagslega stöðu þess til lengri tíma.

Guðjóns býður erfitt verkefni

Guðjón er sigursælasti þjálfari Íslands. Hér fagnar hann sigri Stoke í úrslitaleik bikarkeppni neðri deilda á Wembley vorið 2000.

Guðjón Þórðarson á erfitt verk fyrir höndum með lið Barnsley. Undirbúningstímabilið hefur ekki nýst sem skyldi þar sem Barnsley hefur ekki mátt leika æfingaleiki vegna greiðslustöðvunarinnar. Þá hafa leikmenn gengið Guðjóni úr greipum vegna þess að Barnsley hefur verið óheimilt að ganga frá leikmannasamningum, allt þar til í gær. Það setur Guðjóni enn frekari skorður að leikmannahópur Barnsley má ekki vera stærri en 20 leikmenn á hverjum tíma.

En Guðjón er þó bjartsýnn og í viðtali við opinbera heimasíðu Barnsley, www.barnsleyfc.co.uk, segir hann:

„It has been very difficult and it has been a rollercoster but in the end it has been sorted. The players are fit for selection and the main thing is that they are ready to play tomorrow. There are a lot of things I would have done differently this pre-season but it was not possible. There is no point moaning now and we have to work with what we have.“

Í gær gekk Guðjón frá samningum við fjóra leikmenn og eins venjan er hjá Guðjóni byrjar hann á því að styrkja vörn liðsins. Um er ræða hinn reynda markvörð, Sasa Ilic, miðverðina Craig Ireland og Pete Handyside, sem var fyrirliði Stoke í fyrravetur, og bakvörðinn Tony Gallimore sem áður lék með Grimsby.

En hvað sem öðru líður þá verður það söguleg stund í dag þegar Guðjón Þórðarson, sem fyrir fjórum árum fékk hóp íslenska fjárfesta með sér í tímamótayfirtöku á ensku knattspyrnufélagi, er aftur kominn í slaginn eftir að hafa átt stóran þátt í yfirtöku á öðru ensku knattspyrnufélagi.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)