Verslunarmannahelgarfár

DrullaEftir umstang verslunarmannahelgarinnar sitjum við eftir með sveitt ennið og öndum léttar – jafnvel þau okkar sem ekkert fóru fengum vænan skerf af útihátíðum í gegnum skrautlega og merkilega einhæfa umfjöllun fjölmiðla sem gerðu mjög afmörkuðum hluta hátíðarinnar skil.

DrullaLoksins er hún liðin þessi helgi. Hennar er beðið með eftirvæntingu og um fátt annað er rætt í marga daga á undan og á eftir. Menn og konur spyrja hvert annað hvert eigi að fara, hverjir koma með og hvort að það sé ekki hægt að fá hina sem ekki ætla, til að koma? Reyndir þjóðhátíðarfarar rifja upp sögur af hátíðum liðinna ára og láta sig hlakka til þeirrar sem nálgast óðum.

Á sumrin er mikil gúrka. Ekki bara í gróðurhúsum grænmetisbænda, heldur líka í fréttaflutningi og umfjöllun fjölmiðlanna. En þegar nær dregur að verslunarmannahelginni gleðjast þeir ógurlega. Ef þátturinn Ísland í bítið er tekinn sem dæmi, þá var umfjöllun hans alla síðustu viku helguð þessari miklu hátíð útiveru og gleði. Eða hátíð nauðgara, ökuníðinga og veðurfræðinga ef marka á efnistök hressu spyrlana í morgunþættinum.

Á hverjum morgni í síðustu viku vaknaði þjóðin við ítarleg viðtöl við fólk sem var tilbúið til að vara við böli komandi helgar. Mánudagurinn byrjaði á ótímabærum spám um veðrið, sem auðvitað gátu breyst. Ekki var hægt að fullyrða um hvort að veðrið yrði nokkurs staðar vont eða gott svo teljandi væri, enda gífurlegir hagsmunir í húfi fyrir hátíðahaldara út um allt land.

Þegar veðurspánni lauk (sem var síðan endurtekin hvern dag fram að helgi með smá tilbrigðum í hvert sinn) tók við umfjöllun um nauðganir. Rætt var við hjúkrunarfræðinga og aðra úr röðum heilsugæslunnar sem töluðu varnaðarorð til stúlkna. Það borgar sig víst að halda hópinn og verða ekki full.

Að endingu var fjallað ítarlega um umferðina. Gert var mikið úr mögulegum umferðarþunga á þjóðvegum og klisjan „mesta ferðahelgi ársins“ var óspart notuð málinu til stuðnings. Brýnt var fyrir fólki að halda ró sinni, sleppa hraðakstri, spenna beltin og skella auka speglum á bílinn til að sjá út fyrir fellihýsið. Forðast slysin.

Þegar líða tók á vikuna hleypti Árni Johnsen fersku blóði í umræðuna. Spurningin um hvort að hann myndi fá bæjarleyfi frá Kvíabryggju brann á allra vörum. Vestmannaeyingar voru klökkir og sögðu að Árni yrði að leiða brekkusönginn. Allt annað yrði ómögulegt.

Búið var að byggja upp gífurlega spennu fyrir þessa helgi. Veðrið yrði ef til vill rosalega slæmt, mögulega myndi fjöldi manns slasast á þjóðvegunum og ofbeldisglæpir yrðu kannski framdir á útihátíðum gegn íslensku snótinni í tugatali. Nú færi allt í hundana! Skildi Árni koma í þyrlunni til Vestmannaeyja og bjarga brekkusöngnum?

Staðreyndin er sú að ekkert af þessu gerðist. Sú eftirvænting sem fjölmiðlar voru búnir að byggja upp varð að engu. Það besta sem náðist á filmu voru tómar bjórflöskur í ruslatunnu á hátíðarsvæði bindindismanna í Galtalæk. Það náði ekki að varpa skugga á verslunarmannahelgina. Veðrið lék við hvern sinn fingur víðast hvar á landinu, umferðin gekk greiðlega fyrir sig án mikilla tafa og útihátíðir fóru sómasamlega fram.

Það er að sjálfsögðu hið besta mál að fjalla um mögulegar hættur og brýna góð varnaðarorð. En hefði ekki verið nær að beina umræðunni á jákvæðari veg? Neikvæð umfjöllun í síðustu viku náði sem betur fer ekki að spilla ferðagleði landans enda var það örugglega ekki tilgangurinn með henni þó að það hefði mátt skilja það sem svo á tímabilum. Flestir virtust njóta helgarinnar sáttir við (veður)guð og menn.

Árni komst að vísu ekki á Þjóðhátíð. En hann var þó svo snjall og tillitsamur að fleygja beini til fjölmiðla – bréfinu góða sem hægt var að birta einn og einn kafla úr dagana eftir helgi.