Undirritaður ákvað að skreppa í kvikmyndahús s.l. sunnudagskvöld og varð myndin Baise-moi fyrir valinu. Fullt var út úr húsi og greinilega margir sem vildu sjá dýrðina en kvikmyndin er markaðssett út á mikil og gróf ofbeldis- og kynlífsatriði. Engu var logið í markaðsetningunni því ofbeldið reyndist mjög mikið og kynlífsatriðin þau svæsnustu sem undirritaður hefur séð í kvikmyndahúsum borgarinnar. Kynlífsatriðin voru ekki á nokkurn hátt frábrugðin atriðum í yfirlýstum klámmyndum, ekkert var skilið eftir handa ímyndunaraflinu. Myndin er stranglega bönnuð innan 16 og kvikmyndahúsið hefur dyravörð við innganginn til að tryggja að börn undir aldri fái ekki inngöngu.
Með lögum nr. 47/1995 um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum var komið á fót Kvikmyndaskoðun sem tók við af Kvikmyndaeftirliti ríkisins. Hlutverk kvikmyndaskoðunar er að skoða allar kvikmyndir sem ætlaðar eru til sýningar eða dreifingar hér á landi og meta hvort þær teljist vera ofbeldiskvikmyndir í skilningi laganna eða við hæfi barna. Lögin snúast að miklu leiti um ofbeldi og hvort kvikmyndir hafi skaðleg áhrif á siðferði og sálarlíf barna. Hvergi er minnst á klám í lögunum en ljóst er að klám og nekt hefur verið ákvarðandi þáttur í úrskurðum kvikmyndaskoðunar sbr. t.d. úrskurð um myndina Romance.
Kvikmyndaskoðun úrskurðaði að myndin Baise-moi væri hæf til sýninga hér á landi en hún getur úrskurðað að dreifing og sýning kvikmynda skuli vera bönnuð á landinu. Í 3. gr. laganna er undanþága frá banni við ofbeldiskvikmyndum ef sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis myndarinnar eða listræns gildis hennar. Kvikmyndaskoðun metur því einnig fyrir landsmenn hvað sé list og töldu skoðunarmenn kvikmyndarinnar Baise-moi að ofbeldisatriðin í myndinni væru listræn.
Úrskurðir Kvikmyndaskoðunar eru stjórnvaldsúrskurðir og hafa fordæmisgildi sem slíkir. Atriði í Baise-moi myndu flokkast sem klám skv. íslenskri réttarframkvæmd sbr. t.d dóm Hæstaréttar nr. 1103/1990 í máli Stöðvar tvö. Þar var farið í gegnum hvert einasta atriði í hlutaðeigandi myndum og dæmt hvað væri klám og hvað list. Ekki er að sjá nokkurn stigsmun á þeim atriðum sem sáust í Baise-moi og þeim sem lýst er í umræddum dómi Hæstaréttar. Kvikmyndaskoðun ríkisins er því búin að skapa fordæmi fyrir því að hún standi ekki í vegi fyrir því að sýnt sé kynlíf í kvikmyndahúsum landsins sem flokkast undir klám. Þetta kemur bersýnilega fram í úrskurði kvikmyndaskoðunar um myndina (Ath. villur koma frá höfundi úrskurðarins):
Kvikmyndaskoðun leyfir því sýningu myndarinnar en bætir því við í framhjáhlaupi að sýningarmenn geti átt von á lögreglurannsókn og ákæru vegna brots á 210. gr. almennra hegningarlaga um birtingu og dreifingu á klámi. Brot á greininni varðar sektum eða fangelsi að allt að 6 mánuðum. Þegar litið er til þessa og þess að ekki er hægt í fljótu bragði að ímynda sér verri ofbeldisatriði þá er hægt að líta svo á að Kvikmyndaskoðun sé í raun búin að leggja sig niður. Að minnsta kosti hefur hún nú skilgreint sig þannig að hlutverk hennar sé eingöngu að ákvarða aldursmörk þar sem ekki er að sjá eftir Baise-moi úrskurðinn að stofnuninni sé stætt á að banna sýningar á venjulegum klámmyndum. Búið er að gefa þannig fordæmi að erfitt verður að gera annað en heimila sýningar en vara við því að hugsanlega varði sýning kvikmyndarinnar við 210. gr. almennra hegningarlaga.
Dómstólar munu náttúrlega alltaf hafa lokaorðið um það hvað telst klám og hvað ekki. Klám er bannað með lögum hér á landi og frjálslyndir úrskurðir Kvikmyndaskoðunar breyta því ekki. Hins vegar hlýtur álit Kvikmyndaskoðunar að vega þungt í umræðunni almennt og við þróun réttarumhverfisins. Yfirgnæfandi líkur eru á því að dómstólar taki mið af úrskurðum Kvikmyndaskoðunar við mat á ágreiningsefnum á þessu sviði. Þar er til staðar sérfræðiþekking á sviði kvikmynda, félagsfræði og lögfræði. Kvikmyndaskoðun er einnig eini úrskurðaraðilinn um sýningu kvikmynda og úrskurðir hennar eru lokaúrskurðir á stjórnsýslustigi. Það mætti því segja að umræddur úrskurður Kvikmyndaskoðunar sé afgerandi skref í átt til meira frjálsræðis í þessum efnum.
Slík þróun í frjálsræðisátt hefur, fyrir löngu, átt sér stað í nágrannalöndum okkar eins og kemur fram í skýrslu dómsmálaráðherra um samanburð á lagaumhverfi á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi löggjöf og eftirlit með klámi, vændi o.fl sem Svala Ólafsdóttir, lögfræðingur, gerði og var lögð fram á nýafstöðnu þingi. Í Danmörku var bann við klámi afnumið með tvennum lögum árið 1967 og 1969. Tvenns konar rök komu fram í Danmörku fyrir því að afnema lagaákvæði er bönnuðu birtingu og dreifingu á klámfengnu efni. Í fyrsta lagi að ekki hefði verið hægt að sýna fram á skaðvænleg áhrif kláms á fólk og í öðru lagi að þeim sem telja klám hneykslanlegt væri í lófa lagið að forðast slíkt efni, sérstaklega þegar um er að ræða klámrit. Til viðbótar var þetta talið samræmast betur meginreglum um tjáningarfrelsi og rétt manna til aðgangs að því efni sem þeir kjósa. Í Svíþjóð er klám að mestu leyti löglegt. Í Finnlandi voru klámi settar skorður lengi vel en með lagabreytingum árið 1998 var klám að mestu leyti gert löglegt. Í finnsku greinargerðinni með breytingartillögunni frá 1998 kemur fram að rökin að baki ákvæðunum sem bönnuðu dreifingu kláms voru á sínum tíma þau ætluðu skaðlegu áhrif sem klám hefði á samfélagið. Áhrifin voru talin birtast í fjölgun kynferðisbrota og auknu kynferðislegu óeðli. Síðari tíma rannsóknir hafa aftur á móti ekki stutt þetta. Skorður við klámi nú á dögum byggjast á mismunandi uppeldislegum og menningarlegum sjónarmiðum .
Þess ber að geta að hjá flestum nágrönnum okkar hefur verið lagt bann við ofbeldisfullu og óeðlilegu klámi. Sem dæmi má nefna að í sænsku lögunum er að finna ákvæði sem leggur refsingu við því að dreifa eða hafa ásetning um að dreifa myndum sem sýna kynferðislegt ofbeldi eða kúgun gagnvart mönnum eða dýrum, svo framarlega sem verknaðurinn telst ekki forsvaranlegur miðað við aðstæður. Hið hrottafengna nauðgunaratriði í Baise-moi teldist trúlega kynferðislegt ofbeldi og óforsvaranlegt miðað við aðstæður og væri því ólöglegt á öðrum Norðurlöndum þar sem klám er þó löglegt. Það skýtur skökku við að íslenskt lagaumhverfi sé þannig að við bönnum klám en leyfum sýningar á ofbeldisfullu og óeðlilegu kynlífi í nafni listar. (Rétt er að geta þess að það liggur ekki fyrir hvort undantekningarheimildir séu í lögum nágrannalanda okkar vegna listar eða fræðslu sem hefðu heimilað sýningu atriðisins eins og hér á landi).
Íslensk lög um kvikmyndir eru gölluð. Klám er bannað en sé það dulbúið sem list þá er það leyfilegt. Jafnvel mjög hrottafengið og óeðlilegt klám virðist vera löglegt undir merkjum listarinnar. Kvikmyndaskoðun, sem sér um að fara yfir allar myndir, getur samþykkt sýningu kvikmyndar en kvikmyndahúsið getur samt sem áður átt von á því að fá opinbera ákæru vegna birtingar og dreifingar á klámi!
Títtnefndur úrskurður Kvikmyndaskoðunar sýndi að þetta réttarástand er mjög óeðlilegt. Úrskurðurinn var frjálslyndur og gaf vísbendingu um það hvernig réttast væri að leysa vandamálið. Það liggur beinast við að fara í sömu átt og nágrannaþjóðir okkar og auka frjálsræði í þessum efnum með svipuðum takmörkunum og eru á hinum Norðurlöndunum. Fullorðið fólk á að geta valið sjálf hvað það vill horfa á í kvikmyndahúsum og sjónvarpi. Ofangreindur dómur Hæstaréttar frá 1990 sýndi hversu kjánalegt það er að láta framkvæmdarvaldið og dómstóla meta jafn einstaklingsbundin og huglæg atriði eins og munin á milli erótíkur og kláms. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að af 16 atriðum í kvikmyndunum „Í nautsmerkinu“ og „Í tvíburamerkinu“ flokkuðust 14 undir klám. Þau tvö atriði sem Hæstiréttur taldi að væri erótísk list voru eingöngu atriði þar sem konur stunduðu kynlíf með öðrum konum. Þegar karlmenn voru komnir í spilið taldi Hæstiréttur að um klám væri að ræða! Væri ekki betra ef einstaklingar fengju að meta þetta sjálfir?
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020