Það verður sífellt auðveldara að komast heimshorna á milli og þeim mun ódýrara! Lágfargjaldaflugfélög hafa slegið í gegn um allan heim með hreint ótrúlegum tilboðum. Dæmi um magnað farmiðaverð er London-Brussel á 1.99 pund eða ca. 250 kr íslenskar. Maður kemst nú ekki til Selfoss fyrir þann pening.
Ódýrari flugfargjöld gera það að verkum að svo miklu fleiri fá tækifæri til að ferðast víða og á þetta sérstakleg við um eylandsbúa eins og okkur Íslendinga sem ekki eiga þess kost á að keyra til annarra landa. Flugið er okkar helsti kostur til að ferðast erlendis og er ótrúlegt að eitt flufélag hafi nánast ráðið markaðinum hérlendis í tugi ára.
Afkoma flugfélaga sem tekið hafa upp lágfargjaldaflug hefur verið mun betri en annarra og virðist svo komið að nánast öll flugfélög í heiminum séu farin að stíla upp á ódýrari flugfargjöld. Stefna fólks í ferðamálum er yfirleitt að fá ferðakostnað sem lægstan og leyfa sér þá á móti að eyða meiru í gistikostnað.
Lág fargjöld höfða til fólks á öllum aldri. Bókunarkerfi netvænna flugfélaga er yfirleitt mjög einfalt og þægilegt. Þú ferð inn á netsíðu flugfélags, gefur upp brottfarartíma, áfangastað, helstu persónuupplýsingar og kortanúmer, og þú ert kominn með flugmiða í hendurnar! Þetta tekur aðeins örfáar mínútur og þú getur bókað hvar og hvenær sem er.
Hverju er fórnað til þess að komast niður í þetta ótrúlega verð? Vissulega er sjarminn af fluginu að hverfa, þetta mikla ævintýri sem það var fyrir flesta að fara í flugvél, fá flugvélamat, teppi, kodda, heyrnartól, videomynd, spil o.fl. er ekki lengur til staðar. Þetta er orðið eins og rútuferðir, þú hoppar inn í vél, velur þér sjálfur sæti og gæðir þér á eigin nesti. Mögulegt er að kaupa varning á leiðinni, en starfsfólk um borð er annars ekkert að trufla þig og þú flýgur í friði alla leið.
Því hefur verið haldið á lofti dýrari flugfélögum til varnar að þægindi um borð skipti miklu máli. Vissulega eru þægindi á fyrsta farrými kærkomin á löngum og strembnum ferðalögum en í flugi sem aðeins tekur nokkrar klukkustundir get ég ekki séð að “þægindin” skipti svo gríðarlega miklu máli að ég sé tilbúin að borga nokkra tugi þúsunda fyrir.
Galli er á gjöf Njarðar og á það sérstaklega við bókun á flugmiðum. Á vissum tímum er ódýrara að bóka en á öðrum og má nefna sem dæmi að um daginn var ég að bóka flug á netinu. Þegar ég var búin að finna rétt flug, var sátt við verðið og ætlaði að ýta á “bóka” var tilboðið runnið út. Það var liðið rétt yfir miðnætti en verðskráin gilti einungis fram til 24:00 þennan tiltekinn dag svo ekki var hægt að fá tilboðið sem leit svo vel út rétt nokkrum mínútum áður. Þetta er einmitt lögmálið við netbókun, þú verður að grípa gæsina þegar hún gefst og það á réttum tíma.
Lágfargjaldaflugfélög eru kærkomin nýjung inn á íslenskan markað, bæði fyrir heimamenn og útlendinga. Þau eiga eflaust eftir að eiga drjúgan þátt í auknum ferðamannastraumi til landsins og stuðla að fjölbreyttari flugleiðum frá Íslandi.
Í dag er það ekki munaður að ferðast, það eru forréttindi.
- Óheimilt eftir kl. 22 - 16. ágúst 2004
- Hvar erum við stödd? - 20. júlí 2004
- Viltu pening? - 9. september 2003