Stefna Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar í vor var fremur neikvæð. Í flestum af stóru málunum barðist flokkurinn gegn breytingum. Það eina markverða sem flokkurinn barðist fyrir voru miklar skattalækkanir sem hefðu að stórum hluta gagnast þeim tekjuhæstu í samfélaginu. Það var hálf pínlegt að þótt flokkurinn hafi lofað að lækka skatta um helmingi meira en Samfylkingin þá komu tillögur hans samt sem áður verr út fyrir þá tekjulægstu.
Það er með ólíkindum að Samfylkingunni hafi ekki tekist að nýta sér það færi sem Sjálfstæðisfokkurinn gaf á sér í þessu máli í meira mæli en raun bar vitni. Sjálfstæðisflokkurinn barðist til dæmis fyrir algjöru afnámi eignarskatts, erfðafjárskatts og hátekjuskatts. Slíkar skattbreytingar gagnast að stærstum hluta þeim sem hafa hæstar tekjur og mestar eignir.
Hvernig gat Samfylkingin látið það hjá líða fyrir kosningar að koma fram með skynsamlegar gagntillögur? Mun skynsamlegri stefna hvað eignaskatta og erfðafjárskatta varðar væri að breyta þessum sköttum þannig að fyrstu 15-20 milljónirnar sem einstaklingur á væru skattfrjálsar en að eignaskattar og erfðafjárskattar legðust á eignir umfram þessa upphæð. Með því móti væri komist hjá því að venjulegt fólk sem einungis á skuldlausa íbúð lendi í því að borga umtalsverðar fjárhæðir í eignaskatta. En eignaskattar yrðu samt áfram innheimtir af þeim sem eiga fleiri hundruð milljónir.
Hvað hátekjuskattinn varðar væri skynsamlegt við núverandi aðstæður að stefna að því að hækka frítekjumarkið upp í 350-400 þúsund í stað þess stefna að því að fella skattinn niður með öllu. (Þar að auki væri skynsamlegt að þessum skatti væri gefið annað nafn, t.d. hærra skattþrep.)
Ef Samfylkingin hefði sett fram tillögur á þessum nótum er líklegt að hún hefði slegið spilin úr höndunum á Sjálfstæðisflokknum í skattamálum. Þá hefði ekki verið gott að segja á hvaða ráð Sjálfstæðisflokkurinn hefði brugðið. Hann er á móti ESB. Hann er á móti breytingum á fiskveiðikerfinu. Hann er á móti opnu bókhaldi stjórnmálaflokka. Hann hefði verið í þeirri stöðu að hafa fátt ferskt fram að færa.
Kannski hefði sú staða ýtt undir það að flokkurinn endurnýjaði afstöðu sína til ýmissa mála og fyndi sér ný baráttumál. Án þess hefði hann átt það á hættu að tapa forystuhlutverki sínu í íslenskum stjórnmálum.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009