Það voru miklir kærleikar með hinum geðþekku forsetum Rússlands og Kína, Vladimír Pútín og Jiang Zemin, er þeir hittust í Kreml á dögunum. Tilefni fundarins var að treysta vináttuböndin milli Kremlar og Peking og til að sýna heiminum fram á vinarþelið var undirritaður sérstakur „vináttu- og samstarfssamningur“ á mánudaginn. Megininntak samningsins er að leiðtogarnir koma sér saman um standa gegn Bandaríkjunum í alþjóðlegum málum, einkum vegna hinnar s.k. geimvarnaráætlunar Bandaríkjastjórnar. Þá lýsir Kreml yfir stuðningi við tilkall Pekingstjórnar til lýðræðisríkisins Tævan undan ströndum Kína og bæði ríkin fordæma hernaðaríhlutun NATO á Balkanskaga. New York Times hefur það eftir rússneskum stjórnmálaskýranda að í raun sé um að ræða „vináttusamning gegn Bandaríkjunum“.
En þótt á yfirborðinu virðist að um sé að ræða stragedískan hernaðarsamning, þá er raunveruleg undirrót samningsins efnahagsleg. Zemin mun hafa haft frumkvæði að fundinum og Rússar tóku honum opnum örmum. Rússneskt efnahagslíf er í rúst og síst af öllu vilja Rússar vera háðir Vesturlöndum í einu og öllu. Kínverskt samfélag færist nú hægt í átt til nútímavæðingar og nútíminn í Kína krefst nokkurs sem Rússar eiga nóg af; olíu.
Einar auðugust olíulindir jarðarinnar eru í Síberíu, steinsnar frá markaði sem telur 1,2 milljarða neytenda. Rússar flytja nú einungis 25.000 olíutunnur á dag til Kína en sérfræðingar Alþjóðaorkustofnunarinnar telja að orkuþörf Kínverja muni vaxa úr 4,4 milljónum tunna á dag í 11 milljónir tunna dag árið 2020. Stjórnendur rússnesku risaolíufyrirtækjanna, sem flest eru í eigu ríkisins, eru eðlilega áfjáðir í að komast inn á þennan markað. Áætlanir hafa verið gerðar um byggingu risaolíuleiðslu frá Kovykta í Síberíu til Kína og uppbyggingu olíu- og gassvæðisins í Kovykta. Kostnaður vegna þessa verkefnis er talinn geta numið allt að 1000 milljörðum íslenskra króna.
Vináttu- og samstarfssamningur leiðtoganna geðþekku, Pútíns og Zemins, gæti þannig orðið grundvöllur efnahagslegra framfara í báðum ríkjunum. Það mikilvægasta frá þeirra sjónarhóli er sú staðreynd, að bæði ríkin gætu með auknu samstarfi orðið mun óháðari viðskiptum og (í tilfelli Rússa) efnahagslegri aðstoð Vesturlanda. Hinn vestræni heimur getur auðvitað ekki annað en litið jákvæðum augum til þess, að efnahagsleg velsæld aukist í þessum ríkjum, því lýðræði býr við betri vaxtarskilyrði við slíkar aðstæður. Á hinn bóginn er það ljóst, að erfiðara verður að koma umbótum á með utanaðkomandi þrýstingi og fjármagnsflæði, eins og stefnan virðist hafa verið síðustu ár. Þannig munu Vesturlönd hafa mun minna „tak“ á málefnum þessara ríkja, ef af auknu samstarfi þeirra verður.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021