Nokkur umræða hefur vaknað um heilbrigðismál í Bandaríkjunum í kjölfar þess að forseti landsins, George Bush yngri, ákvað að skera upp herör gegn offitu og heilsuleysi. Sjálfur tók Bush þátt í miklu hlaupi um daginn og bar sig ágætlega þar sem hann skartaði þátttökunúmeri sínu framan á bolnum – en forsetinn var að sjálfsögðu númer eitt – svo enginn þyrfti að velkjast í vafa um hver væri aðalmaðurinn.
Í raun er þetta framtak hjá Bush býsna gott – og nokkuð skaðlaust skyldi maður ætla, a.m.k. miðað við margt annað sem forseti Bandaríkjanna getur tekið sér fyrir hendur. Heilsuátak forsetan ku vera stutt af mörgum af helstu skyndibitastöðum Bandaríkjanna, t.d. McDonald´s. Þetta kann að hljóma kynlegt í ljósi þess að maturinn á McDonald´s hefur hingað til hvorki talist sérstaklega kransæðavinsamlegur né holdafarsbætandi. Ástæða stuðnings skyndibitastaðanna ku m.a. vera sú að með framtaki sínu vilji þeir reyna að koma í veg fyrir að offitusjúklingar nái árangri í málarekstri sínum gegn McDonald´s og fleiri stöðum en nú um stundir eru fjölmörg mál fyrir dómstólum þar sem fólk gefur skyndibitakeðjum að sök að hafa valdið þeim offitu.
Þeir sem hafa komið í skyndibitastaði í Bandaríkjunum – eða bara til Bandaríkjanna almennt – hafa margir furðað sig á holdafari þjóðarinnar. Það þarf ekki að leita lengi til að koma auga á fjölda fólks sem er svo illa haldið af offitu að ef það væri á Íslandi þá yrði það sennilega landsfrægt fyrir holdafarið – og auðvitað er þetta mikið vandamál – en lögsóknarmanía Bandaríkjanna er e.t.v. ennþá stærra vandamál. Lögsóknarmanían er nefnilega birtingarmynd þess ábyrðgarflótta sem virðist stöðugt verða landlægari í vestrænu samfélagi. Í Bandaríkjunum láta menn sér detta í hug að kæra fyrir ótrúlegustu hluti.
Fjölskylda konu sem lést í bílslysi kærði bílaleiguna, sem átti bílinn sem konan var í þegar ölvaður ökumaður keyrði á bílinn. Írskur vinur konunnar var blindfullur undir stýri en konan sat í farþegasætinu. Stefnendur kærðu bílaleiguna þar sem þeir töldu að bílaleigan hefði ekki átt að leigja Íranum bílinn þar sem bílaleigan hefði mátt vita að það væri til siðs á Írlandi að drekka mikinn bjór á pöbbum.
Ungur maður kærði tattóveringarstofu fyrir stafsetningarvillu í húðflúrinu sínu. Maðurinn vildi láta tattúvera orðið “villain” (útlagi) á sig en í staðinn var orðið “villian” (sem þýðir ekki neitt) grafið í hann. Sjálfur hafði maðurinn samþykkt þessa stafsetningu á orðinu og tók ekki eftir mistökunum fyrr en mörgum árum seinna.
Maðurinn sem gekk á brennandi kolum, fjölskylda konunnar sem settist upp í bíl með ölvuðum ökumanni, og maðurinn sem stafsetti varanlegan stimpil á líkamann sinn vitlaust, telja öll að þau eigi rétt á einhvers konar skaðabótum fyrir þessar yfirsjónir. Og að sama skapi þá er stór hópur of feitra Bandaríkjamanna nú sannfærður um að það sé í raun McDonald´s að kenna að þeir hafi borðað svo mikið þar að þeir hafi komist í hold.
Það er grundvallarforsenda frelsis að fólk taki ábyrgð á gjörðum sínum. Framtak Bush forseta, að reyna að koma Bandaríkjamönnum til þess að hugsa betur um heilsu sína, er í því ekki svo vitlaust því með því er verið að hvetja fólk til þess að taka ábyrgð á sjálfu sér – en ríkisvaldið hefur því miður mikla tilhneigingu til þess að reyna að leysa vandamál fyrir fólk. Sá hugsunarháttur – að einhver annar eigi að leysa vandamálin – leiðir til ábyrðgarflótta – og grefur þar með undan frelsi einstaklingsins.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021