Hinn 31. júlí næstkomandi munu skattstjórar í öllum skattumdæmum landsins leggja fram skattskrár hvers einasta framteljanda, beinlínis í þeim tilgangi að samborgararnir geti skoðað þær og gert athugasemdir. Ekki er nóg með að ríkisvaldið leggi á herðar þegnum sínum þá skyldu að gjalda því stóran hluta af tekjum sínum, heldur ber skattþegni einnig skylda til að láta skattyfirvöldum (ókeypis) í té upplýsingar um tekjur sínar og eignir. Það er sagt nauðsynlegt svo hægt sé að leggja á viðkomandi viðeigandi gjöld og álögur. Þegar ríkisvaldið hefur þannig í krafti valdheimilda sinna heimt þessar upplýsingar af einstaklingnum, má hann enn eiga von á átroðningi réttinda sinna. Í stað þess að gæta þessara upplýsinga, eins og flestra annarra persónulegra upplýsinga sem ríkisvaldið hefur í vörslu sinni, eru þær lagðar fram til sýnis fyrir Pétur og Pál í tvær vikur.
Allt frá árinu 1937 hafa skattayfirvöld afhent fjölmiðlum upplýsingar um gjöld hæstu gjaldenda samkvæmt álagningu hvers árs. Fram til 1979 voru einungis lagðar fram skattskrár og ekki gerður munur í lögum á álagningarskrám og skattskrám. Árið 1982 var farið leggja álagningarskrár fram og styðst sú framlagning við ákvæði 98. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt. Með 8. gr. laga nr. 7/1984 var heimiluð opinber birting og útgáfa skattskráa. Í tengslum við þá lagabreytingu sagði í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar neðri deildar Alþingis, að ótvírætt sé að birting upplýsinga úr skattskrá og útgáfa hennar í heild sé til þess fallin að skapa bæði gjaldendum og skattyfirvöldum virkt aðhald og gegni slík birting að mörgu leyti sama tilgangi og framlagning skattskráa. Framlagning álagningar- og skattskráa er þannig hugsuð sem þáttur í virku skatteftirliti og ætlað að koma í veg fyrir undanskot frá skatti.
Gífurlegar umbætur hafa átt sér stað varðandi réttarstöðu einstaklinga síðastliðinn áratug. Aðskilnaðarlögin frá 1989, tölvulögin frá sama ári, réttarfarslögin frá 1991, stjórnsýslulögin frá 1993, upplýsingalögin frá 1996 og lög um persónuvernd og skráningu persónuupplýsinga frá því í fyrra hafa fært mjög margt til betri vegar og réttarstaða einstaklinga gagnvart ríkisvaldinu er ólíkt betri nú en áður. Þá hefur réttarþróunin einkennst af aukinni áherslu á vernd mannréttinda, þ.á m. lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu árið 1994 og endurbóta á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar 1995 og 1997.
Samhliða þessu hefur réttarvitund almennings breyst. Flestir gera sér betur grein fyrir réttindum sínum og þeim takmörkum sem ríkisvaldinu eru sett gagnvart þeim. Skemmst er að minnast mikillar umræðu vegna lagasetningar um miðlægan gagngrunn á heilbrigðissviði og flestir þátttakendur í þeirri umræðu voru á einu máli um mikilvægi þess að viðkvæmar persónuupplýsingar nytu verndar. Í því tilviki var um heilsufarsupplýsingar að ræða og lögin voru sögð í þágu vísinda og lækninga. Í þessu tilviki er um fjárhagsupplýsingar að ræða og tilgangur lagaákvæðisins er virkt skatteftirlit. Þær upplýsingar sem lagðar verða fram á skattstofum um land allt í næstu viku gefa í mörgum tilvikum glögga mynd af tekjum nafngreindra manna. Þessar upplýsingar er hægt að færa sér í nyt með margvíslegum hætti, þ.á m. í ágóðaskyni. Þar að auki grefur aðgangur almennings að þeim undan trúnaðarsambandi vegna frjálsra vinnusamninga. Á flestum vinnustöðum eru launakjör starfsfólks trúnaðarmál en með framlagningu álagningar- og skattskráa gerir ríkisvaldið þennan trúnað að engu.
Fjárhagsmálefni eru einkamál hvers og eins, og meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi. Gildar ástæður þurfa að liggja til grundvallar þeirri stefnu stjórnvalda að heimta þessar upplýsingar í krafti valdheimilda og leggja þær svo á glámbekk. Órökstuddar hugmyndir um virkt skatteftirlit með þessum hætti geta vart talist grundvöllur slíkrar valdbeitingar og átroðningi ríkisvaldsins á réttindum einstaklinga. Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er óheimilt að veita aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsupplýsingar einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Við setningu upplýsingalaganna var ákveðið að ákvæði annarra laga sem kvæðu um rýmri aðgang almennings að gögnum héldu gildi sínu, þ. á m. hið títtnefnda ákvæði 98. gr. laga nr. 75/1981.
Afar hæpið verður að teljast að umrædd lagagrein standist stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, þ.e. 71. gr. hennar um friðhelgi einkalífs, eins og hún verður skýrð með hliðsjón af 2. tl. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Telja má að framlagningu skránna sé ekki í samræmi við fyrirmæli síðarnefndu greinarinnar um meðalhóf. Með því afnema ákvæði 98. gr. félli framlagning álagningar- og skattskrá undir upplýsingalögin og þá kæmi til kasta 5. gr. þeirra. Telja verður sanngjarnt og eðlilegt að upplýsingar um tekjur og eignir manna fari leynt, en hafi einhver sérstakan áhuga á að sýna almenningi þessar upplýsingar, gæti hann hakað í viðeigandi reit á skattframtali sínu, í samræmi við 5. gr. upplýsingalaga.
Í ljósi þeirrar viðhorfsbreytingar og réttarþróunar sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, hlýtur löggjafinn að taka það alvarlega til athugunar að afnema ákvæði 98. gr. laga um tekju- og eignarskatt hið snarasta. Tilgangur ákvæðisins helgar ekki meðalið.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021