Sú var tíðin á fyrri hluta seinustu aldar að rætt var um að koma á þegnskylduvinnu á Íslandi. Til allrar hamingju varð ekkert úr þeim hugmyndum og í dag mundi engri alvöru stjórnmálahreyfingu detta í hug að hafa málið á stefnuskrá. En þó að hugmyndin sé sem betur fer gleymd og grafin þá færðu umræður þess tíma okkur Íslendingum einn gimstein sem án efa er einhver frægasti pólitíski kveðskapur Íslandssögunnar.
Ó, hve margur yrði sæll
og elska mundi landið heitt,
mætti hann vera í mánuð þræll
og moka skít fyrir ekki neitt.
Þessi glæsilega vísa eftir Pál J. Árdal hittir naglann á höfuðið. Að láta fólk nauðugt fórna tíma sínum í þágu ríkisins er síst til þess að efla þjóðrækni þess og trú á kerfinu. Það fer vel á því að rifja þetta upp nú þegar umræða um íslenskan her er háð af alvöru, jafnvel fullmikilli alvöru miðað við að 1. apríl 2003 er liðinn, og langt er í næsta.
Nýlega birtist hér á Deiglunni pistill um hugmyndir dómsmálaráðherra um íslenskt herlið. Skömmu síðar birti Deiglan athugasemd við pistilinn sem lesa má hér. Þó að svo virðist sem blaðamaður AP hafi notað gamla ræðu Björns Bjarnarsonar í frétt sinni, veit undirritaður þó ekki til þess að dómsmálaráðherra hafi skipt um skoðun síðan 1995. Það eina sem hefur breyst er að Björn er nú í mun betri aðstöðu til að framkvæma þessar hugmyndir. Það sem eitt sinn gátu talist saklausar vangaveltur menntamálaráðherra um málefni sem honum liggja á hjarta eru nú skoðanir ráðherra sem ábyrgur er fyrir öryggi borgaranna. Ef að þjálfa ætti upp 21-28 þúsund manna varalið, væri það ekki hægt nema með almennri herskyldu því aldrei fyndist slíkur fjöldi sjálfboðaliða meðal þjóðar sem lýsir yfir neyðarástandi þegar atvinnuleysi nær 4%.
Þau dæmi sem ég þekki frá öðrum löndum, eru skýr. Ungt fólk lítur ekki á herskyldu sem göfuga þjónustu við samfélagið. Það lítur á hana sem hálfvitaskap. Fólk með stúdentspróf er látið hlaupa um í 11 mánuði til að búa sig undir stríð sem, a.m.k. að þeirra mati, mun aldrei koma. Þegar sagt er á frá því að á Íslandi sé engin her og Bandaríkin sjá um varnir landsins finnur maður fyrir öfund fólks sem neyðist til að gera sér upp sjúkdóma eða vinna þegnskyldu á geðveikrahælum fjarri heimilum sínu til að sleppa við herinn. Ekkert bull um heiður eða sæmd.
Það ber að minnast á eitt í viðbót: Líklegast mundi herskylda stangast á við íslensku stjórnarskrána. Í það minnsta hafa nágrannaríki okkar (og raunar flest lönd í heimi) séð ástæðu til að setja ákvæði um skyldu til að gegna herþjónustu inn í sín grunnlög. Það er nefnilega ljóst að án slíks aukaákvæðis mundi herskylda brjóta í bága við heilmargt í mannréttikafla flestra stjórnarskráa, s.s. bann nauðungarvinnu og réttinn til að fylgja sinni sannfæringu. Nú er ekki auðvelt að breyta Stjórnarskránni svo að telja má víst að almennir borgarar geti sofið rólegir yfir hugmyndum sumra öfgafyllri hervæðingarsinna, nema auðvitað að túlkun þeirra á þeim réttindum sem stjórnarskráin veitir sé önnur en undirritaðs.
Oft er bent á þá staðreynd að Íslendingar séu rík þjóð og finnst sumum það skjóta skökku við að þeir geti ekki séð sjálfir um sínar varnir. Einhverjum finnst herleysið eflaust skemma fyrir draumnum um hið fullkomlega fullvalda Ísland, sem í hvívetna er engum háð nema sjálfu sér. En ríkidæmi Íslands væri best varið til að kaupa unga Íslendinga undan þeirri skyldu að vera þjálfaðir til morða á öðru fólki. Slíkt eru forréttindi sem standa ber vörð um.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021