Þrátt fyrir uppákomur í íslenskum fjármálaheimi undanfarin misseri má segja að markaðurinn sé smátt og smátt að taka á sig mynd þróaðs markaðar í stað lögmála frumskógarins. Þessu má þakka aðhaldi Fjármálaeftirlitsins, en einnig Kauphallarinar eins og dæmin sanna í nýlegu máli varðandi viðskipti með bréf í Skeljungi. Sumir hafa haft áhyggjur af fækkun félaga í Kauphöll Íslands en það má segja að hluti af þessum þroskaferli markaðarins sé grisjun fyrirtækja sem ekki eiga heima þar.
Fækkun skráðra félaga
Að undanförnu hefur afskráning félaga úr Kauphöll Íslands verið nokkuð áberandi og ber þá helst að nefna Baug og olíufélögin Ker og Olíuverslun Íslands. Skeljungur uppfyllir heldur ekki lengur skilyrðum til þess að vera skráð í Kauphöll. Kostum fjárfesta hefur því fækkað verulega og til að mynda er smásöluverslun að mestu horfin úr Kauphöllinni, en á móti má benda þeim fjárfestum, sem sækjast eftir slíkum bréfum, á það að tiltölulega ódýrt er að kaupa sambærileg bréf í öðrum löndum.
Þegar mest var voru 75 félög skráð í Kauphöllina, árin 1999 og 2000, en nú eru þau 52 sem er svipað og var 1997. Þessi þróun er þó ekkert einsdæmi á Íslandi þar sem skráðum félögum hefur víðast hvar verið að fækka, til að mynda í Danmörku en þar hefur þeim fækkað úr ríflega 250 árið 2000 í rétt tæplega 200 nú á miðju þessu ári. Þessi fækkun félaga þarf ekkert að vera óeðlileg þar sem mörg félög skráðu sig í uppsveiflunni 1999-2000, í þeim tilgangi að búa til gjaldmiðil í formi skráðra hlutabréfa ef vera skildi að vöxtur hlypi í það. Þessi skráning er nú í dag dragbítur á þessi sömu félög. Á móti má benda á það að Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, hefur upplýst að fyrirtækin Flaga hf. og Fasteignafélagið Stoðir hf. hafa ásamt fleirum stefnt að skráningu á markað á næstu misserum.
Í erindi sem Guðmundur Guðmundsson, þáverandi forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Búnaðarbankans og núverandi framkvæmdarstjóri upplýsingasviðs Landsbankans, flutti á hádegisverðarfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í nóvember sl. og greint er frá í Morgunblaðinu, kemur fram að erfitt sé að segja til um hver ákjósanlegur fjöldi skráðra fyrirtækja sé, en að nú séu virk viðskipti með um 10-15 fyrirtæki og að 20-25 hafi einhverja alvöru verðmyndun. Að mati Guðmundar þurfa félög fyrir utan þennan hóp að endurskoða skráningu sína í Kauphöllinni og telur hann það framtíðarverkefni hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum að fækka þeim.
Kostir og gallar skráningar
Helstu gallar þess að vera með félag skráð hjá kauphöll er kostnaður sem því fylgir og sú ríka upplýsingaskylda sem hvílir á félaginu. Íslenski markaðurinn er grunnur og því getur þessi upplýsingaskylda skekkt mjög samkeppnisstöðu fyrirtækja ef þeirra helstu samkeppnisaðilar eru ekki skráðir. Það sem helst vinnst með skráningu félags í kauphöll er annars vegar geta fyrirtækja til þess að fjármagna sig með hlutabréfaútboðum og hins vegar eykst seljanleiki bréfanna sem eykur verðmæti þeirra.
Í ritinu Þróun og horfur, sem gefið var út af greiningardeild Kaupþings-Búnaðarbanka nú í júlí, er fjallað um vaxandi afskráningu bréfa í Kauphöllinni. Þar kemur fram að seljanleiki bréfa verði sífellt lagskiptari sem veldur því að viðskipti með minni félög verði stopulli þannig að munur á kaup- og sölutilboðum eykst. Fram kemur að þessi þróun eigi sér jafnframt stað hjá grannþjóðum okkar, en þetta þýðir að með minnkandi seljanleika verði skráningar smærri félaga í kauphöll sífellt minna virði fyrir þau. Einnig er bent á það sem skýringu fyrir fjölda afskráninga að markaður með óskráð hlutabréf sé mjög líflegur og að bankar séu nú orðnir mun óhræddari við að taka þátt í þess háttar fjármögnun en áður.
Uppgangur á markaði
Það er ekki hægt að segja að íslenskur hlutabréfamarkaður sé í verulegum kröggum þrátt fyrir fækkun skráðra fyrirtækja. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hækkaði um 11% á fyrstu sex mánuðum þessa árs og er nú í rúmlega 1.500 stigum, en þess má geta að hún fór undir 1.000 stig í ágúst 2001. Spennandi verður að fylgjast með birtingu hálfsársuppgjörs fyrirtækja nú í næsta mánuði og hvaða áhrif það mun hafa á Úrvalsvísitöluna.
Þrjú fyrirtæki skera sig úr hvað hækkun varðar, Pharmaco, Bakkavör og Kaupþing-Búnaðarbanki, en öll eiga þau það sammerkt að vera í mikilli útrás. Styrking krónunar hefur aftur á mót leikið sjávarútveigsfyrirtæki grátt. Talsverð hækkun á Úrvalsvístölunni á fyrri hluta þessa árs virðist einnig vera tilkomin vegna kaupþrýstings sem skapaðist vegna yfirtöku á Baugi, Keri, Olís og Íslenskum aðalverktökum. Telur greiningardeild Kaupþings-Búnaðarbanka að um 18,6 milljarðar króna hafi losnað þegar minni hlutaeigendur voru keyptir út úr þessum fjórum fyrirtækjum og að stór hluti þessarar upphæðar hefi verið notaður til endurfjárfestingar á markaði.
Þær umbreytingar sem orðið hafa á Kauphöll Íslands eru með öllu eðlilegar og frekar til merkis um heilbrigðan og sveigjanlegan markað. Íslenski verðbréfamarkaðurinn er ekki nema rétt rúmlega áratuga gamall og eins og aðrir markaðir í sífelldri endurskoðun sem felur í sér breytilega samsetningu til þess að mæta fjölbreyttri eftirspurn.
- Millivegur - 23. apríl 2021
- Þak yfir höfuðið - 16. janúar 2021
- Góðærisvandamál? - 24. mars 2007