- Gerpla og Selfoss Íslandsmeistarar í hópfimleikum - 13. mars 2007
- Útlitið svart hjá West Ham - 3. mars 2007
- Fátt stöðvar Lakers - 15. nóvember 2003
Brátt fer boltinn að rúlla á Englandi en þá hýrnar jafnan yfir mörgum hér á landi. Deiglan hefur undanfarin ár fylgst nokkuð með gengi Íslendingaliðsins Stoke sem leikur í ensku 2. deildinni, enda leika með liðinu fjórir íslenskir leikmenn, knattspyrnustjórinn er Íslendingur og að baki félaginu standa íslenskir fjárfestar. Markmið f´járfestanna, og annarra sem að Stoke-dæminu koma, hefur frá upphafi verið að koma liðinu upp í 1. deild. Á fyrsta tímabilinu sem Íslendingar stjórnuðu félaginu komst það óvænt í úrslitakeppni 2. deildar og var óheppið að falla þar úr leik. Því voru miklar vonir bundnar við liðið í fyrravetur en því er skemmst frá að segja, að liðið stóð alls ekki undir þeim væntingum. Stoke komst þó í úrslitakeppnina, þar sem liðið mætti ofjörlum sínum í Walsall í undanúrslitum og féll úr leik.
Í kjölfarið gætti töluverðs titrings í herbúðum Stoke og um tíma veltu fjölmiðlar á Englandi því fyrir sér, hvort íslensku fjárfestarnir ætluðu hreinlega að pakka saman og fara heim. Til þess kom þó ekki og Íslendingarnir ákváðu að láta á það reyna a.m.k. eitt ár í viðbót hvort hægt yrði að koma liðinu upp um deild. Þegar og ef það tekst, er ljóst að fjárfesting Íslendinganna hefur skilað sér til baka. Greint hefur verið frá því í fréttum að tap fjárfestanna sé töluvert það sem af er og vissulega er ýmislegt til í því. Á móti því kemur þó, að flestir íslenskir fjárfestar hafa tapað töluverðum fjármunum í niðursveiflu síðustu misserin og að öllum líkindum hefur gengisþróunin verið fjárfestunum í Stoke fremur hagstæð en ekki.
Leikmannahópur Stoke kom í gær úr átta daga keppnisferð til Austurríkis og ef marka má fjölmiðla ytra var ferðin í alla staði vel heppnuð. Liðið þótti leik ágæta knattspyrnu og samkvæmt heimildum Deiglunnar er liðið miklu sterkara nú en á sama tíma í fyrra þegar það kom hingað til lands í ámóta æfingaferð. Fimm nýir leikmenn eru komnir til félagsins og 1-2 gætu gengið til liðs við það á næstu dögum. Þrír leikmenn hafa verið seldir frá Stoke og munar þar mest um Írann Graham Kavanagh, silfurrefinn á miðjunni, sem Stoke seldi til Cardiff fyrir slétta milljóna punda. Hagnaðurinn af þeirri sölu hefur staðið undir kaupunum á þeim mönnum sem Stoke hefur þegar keypt. Tveir leikmenn eru enn á sölulista hjá Stoke, Bjarni Guðjónsson og James O’Connor. Sá fyrrnefndi lék alla leikina með Stoke í nýafstaðinni æfingaferð og ef marka má enska fjölmiðla stóð hann sig vel. O’Connor, rauðhærði vinnuhesturinn, virðist hins vegar una hag sínum illa hjá Stoke og var hann skilinn eftir heima.
Á vefsíðunni Oatcake er fjallað hispurslaust um málefni Stoke City. Í nýlegri grein á Oatcake var fjallað um fyrstu æfingu liðsins að loknu sumarleyfi. Guðjón Þórðarson sætti talsverðri gagnrýni hjá stuðningsmönnum Stoke í fyrravetur fyrir uppstillingu liðsins og töldu ýmsir, þ.á m. aðstandendur Oatcake, að liðið ætti eingöngu að leika 4-4-2 en ekki 3-5-2 (eða 3-4-1-2) eins og Guðjón tefldi liðinu gjarnan fram. Útsendari Oatcake á þessari fyrstu æfingu var víst hæstánægður með það sem hann sá, því æfingin gekk að mestu út á að renna í gegnum 4-4-2 með fyrirgjöfum af vængjunum. Hvort um stefnubreytingu af hálfu knattspyrnustjórans er að ræða skal ósagt látið hér.
Flestir eru sammála um að keppni í ensku 2. deildinni verði mjög hörð í vetur og almennt eru menn sammála um fleiri lið munu berjast um toppsætin en áður. Stoke á því við ramman reip að draga og ómögulegt að spá fyrir um gengi liðsins. En undirbúningstímabilið lofar góðu og nái liðið að stilla saman strengi sína og leika af meiri stöðuleika en það gerði í fyrra, er aldrei að vita nema markmiðið náist næsta vor – í þriðju tilraun.