Fregnir herma að nú sé Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, um það bil að fara að reyna að koma sér fyrir á sjónarsviðinu á ný eftir að hafa legið í láginni frá því George W. Bush sór embættiseið þann 20. janúar sl. Vinir Clinton segja að forsetinn fyrrverandi hafi verið í hálfgerðu þunglyndi upp á síðkastið og vart er hægt að hneykslast yfir því, enda hefur líf hans tekist stórfenglegum stakkaskiptum á síðustu mánuðum og vafalaust hafa erfiðar og áleitnar spurningar sótt að hinum 54 ára atvinnulausa lögfræðingi frá Hope í Arkansas, sem nú hefur litla von til þess að bæta nokkru marktæku við lífssögu sína, enda erfitt að “toppa” það að vera valdamesti maður heims í átta ár.
Síðustu mánuðir hafa verið Clinton erfiðir því andstæðingar hans hafa ekkert dregið af sér í tilraunum sínum til þess að gera hann tortryggilegan í augum almennings og sverta mannorð hans, sem var nú ekki beinlínis eins og nýfallin mjöll fyrir. En þrátt fyrir umdeildar náðanir, meintar gripdeildir og fremur neikvæða spádóma um sess Clinton í sögunni þá getur hann þó glott við tönn því í skoðanakönnunum hefur komið í ljós að 48% bandarísku þjóðarinnar þætti betra að hafa Clinton sem forseta heldur en Bush, en aðeins 36% treysta Bush betur. Þetta segir sína sögu um þann ótrúlega hlýhug sem bandaríska þjóðin ber til hins mjög svo gallaða fyrrverandi forseta síns.
Skömmu eftir að hann lét af embætti forseta Bandaríkjanna hélt hann í fremur misheppnaða fyrirlestraferð um heiminn til þess að safna upp í skuldir sínar vegna vegna hinna ýmsu málaferla. Þegar honum hefur tekist að svamla upp úr skuldasúpunni ætlar hann hins vegar að fara að fjalla um pólitík á ný og hafa ráðgjafar hans lagt til að í stað þess að hann tjái sig út og suður um dægurmál líðandi stundar þá einbeiti hann sér að örfáum málefnum sem honum þykir mestu varða. Talið er að hann muni beita sér mjög fyrir áframhaldandi og aukinni alþjóðavæðingu, enda telur hann alþjóðavæðinguna forsendu efnahagslegra framfara í fátækustu löndum heims. Hann vill stuðla að því að ríkjum sem koma undan harðstjórn einræðisherra verði hjálpað í lýðræðisátt með námskeiðahaldi fyrir ríkisstarfsmenn þar sem eitt helsta vandamál slíkra ríkja er að embættismannakerfin halda áfram að vera gjörspillt löngu eftir að lýðræði er komið á í orði. Clinton hyggst einnig berjast fyrir sáttum á milli kynþátta í Bandaríkjunum og því að aukinn slagkraftur færist í baráttuna gegn alnæmi.
Hvað varðar persónulega hagi hans þá hefur hann mátt þola miklar fjarvistir frá ástkærri eiginkonu sinni upp á síðkastið þar sem hún er ákaflega upptekin við að skapa sér pólítískan frama í bandarísku Öldungadeildinni. Þau hjónin deila því ekki hjónasænginni nema nokkrar nætur í mánuði. Ef maður væri mjög kaldhæðinn þá gæti maður slysast til þess að álykta að þessi ráðahagur hentaði Bill ákaflega vel, enda hefur maðurinn sýnt fremur hóflega virðingu fyrir hjónabandsheitunum hingað til, en forsetinn fyrrverandi hefur séð ástæðu til þess að blása á slíkar vangaveltur og lýst því yfir að í fjarveru eiginkonunnar hafi hann leyft heimilishundinum Buddy að kúra við hlið sér á einmanalegum kvöldum. Akkúrat já, við trúum því auðvitað öll – er það ekki?
En þótt menn geti haft óbeit á skapgerð, persónulegu upplagi og pólitískum stefnumiðum Bill Clinton (sjálfur telst ég ekki í hópi aðdáenda hans) þá dylst engum, sem málin skoða af einhverri sanngirni, að þar fer maður sem getur ýmsu áorkað. Það er vonandi að andstæðingar hans sjái í gegnum hatursmóðuna og leyfi óumdeildum hæfileikum forsetans fyrrverandi að njóta sín í þeim góðu málum sem hann hefur ákveðið að berjast fyrir. Heimurinn hefur ekki efni á öðru.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021