Nú er nýlokið alþjóðlegum samningafundi um útfærslu Kyoto-bókunarinnar. Á fundinum virðist hafa náðst nokkuð mikill árangur varðandi útfærslu samningsins og voru allmörg erfið deiluefni leyst. Því virðist mun líklegra en áður að bindandi alþjóðasamningar um takmörkun á útblæstri gróðurhúslofttegunda verði að veruleika.
Það er raunar fagnaðarefni að þjóðir heims séu loksins farnar að leggja talsvert á sig til þess að ná samkomulagi um takmörkun útblásturs á gróðurhúsalofttegundum. Hins vegar er mjög miður að grunnhugsunin að baki samningnum sé algerlega óréttlát.
Samkvæmt samningnum eiga mengunarkvótar þjóða að miðast við mengunarsögu þeirra. Þannig eiga flest iðnríkin að draga úr mengun þannig að hún verði ákveðið hlutfall af mengun landsins árið 1990. Þetta er með ólíkinum óréttlátt. Með þessu er verið að umbuna þeim sem menguðu mest í gegnum tíðina með því að úthluta þeim mestum mengunarkvótum. Samningurinn gerði m.a. ráð fyrir að Bandaríkin fengi miklu meiri mengunarkvóta per íbúa (og einnig per dal af VLF) en flest önnur iðnríki þar sem Bandaríkjamenn hafa ekki staðið sig jafn vel í því að draga út mengun á undanförnum áratugum og önnur iðnríki. Bandaríkin hafa reyndar dregið sig út úr samningnum, en það sama gildir um aðrar þjóðir sem kæra sig kollótta um ástand umhverfisins.
Engar kvaðir eru settar á þróunarríkin um að draga úr mengun. Enda menga flest þeirra aðeins brot af því sem iðnríkin menga. En með samningnum er í rauninni verið að veita þróunarríkjunum sterkan hvata til þess að byggja upp mengunarsögu svo þau standi betur að vígi þegar að því kemur að takmörk verða sett á mengun þeirra.
Þar að auki dylst engum að iðnríkin munu gera kröfu um að þróunarríkin takmarki mengun sína löngu áður en þau síðarnefndu ná mengunarstigi þeirra fyrrnefndu. Í þessu felst mesta óréttlætið. Mengunarkvótar verða án vafa gríðarlega verðmætir í framtíðinni og með samningum eru iðnríkin að úthluta sjálfum sér bróðurpartinum af þessum kvótum. Það mætti halda að ríkisstjórnir iðnríkjanna teldu að þegnar þeirra eigi eitthvað meira tilkall til hreina loftsins hér á jörð en aðrir íbúar jarðarinnar.
Vitaskuld væri miklu réttlátar að miða mengunarkvóta hvers lands við fólksfjölda landsins. Þannig er réttur hvers jarðarbúa gert jafn hátt undir höfði. Ég skora á ríkisstjórn Íslands að falla frá núverandi afstöðu sinni í loftslagsmálum og styðja tillögur þróunarríkjanna um að mengunarkvótum verði úthlutað eftir fólksfjölda.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009