Óhætt er að segja að lokaskýrslu Samkeppnisstofnunnar um meint verðsamráð olíufélaganna sé beðið með mikilli eftirvæntingu en skýrslunnar er að vænta fyrir lok þessa árs. Séu þær fréttir réttar sem lekið hafa út undanfarna daga að þá má segja að um sé að ræða eitt allra grófasta brot og samráð sem samkeppnisfyrirtæki á Íslandi hafa staðið fyrir gegn neytendum.
Auk sífelldra verðhækkana á eldsneyti sem voru hreint ótrúlega samstilltar í tíma og fjárhæðum virðast forsvarsmenn olíufélaganna hafa ákveðið í sameiningu hvað hvert félag ætti að bjóða í ákveðnum útboðum. Ágóðanum var svo skipt bróðurlega á milli þeirra. Í Fréttablaðinu var m.a.s. birt mynd af töluvpósti milli forsvarsmanna tveggja olíufélaganna þar sem var fordæmd faxsending milli sömu aðila sem innihélt trúnaðarupplýsingar um meint samráð, en sendandi tölvupóstsins taldi það óþarfa áhættu að senda slíkar upplýsingar með faxi. Minnir þetta einna helst á mál grænmetisheildsalanna nýlega sem hittust reglulega í Öskjuhlíð og ákváðu útsöluverð á grænmeti og héldu svo fundargerðir um þessa verðsamráðsfundi.
Málið er grafalvarlegt og komi í ljós að þetta meinta samráð eigi við rök að styðjast er nauðsynlegt að einhver axli ábyrgð. En hver á að axla ábyrgð? Er nóg að sekta fyrirtækin, eins og í tilviki grænmetisheildsalanna, eða þurfa stjórnendur þeirra ekki líka að sæta refsingu? Það má ekki líðast að stjórnendur fyrirtækja komist upp með annan eins níð gagnvart neytendum enda um klárt brot á samkeppnislögum að ræða. Refsingin má þó ekki eingöngu ná til stjórnenda því þá er hætt við því að eigendur geti fundið blóraböggul sem situr uppi með allar skammirnar. Það þarf að sekta fyrirtækin sjálf. Einhver kann þó að spyrja sig að því hvort það sé sanngjarnt t.a.m. í ljósi þess að nýir eigendur eru komnir að félögunum – er rétt að þeir blæði fyrir syndir fyrirrennara sinna?
Það hlýtur að vera eðlilegt að fyrirtækin þurfi að greiða sekt til Samkeppnisstofnunnar þó svo að eignarhald hafi breyst mikið. Nýir eigendur, sem þó í tilviki olíufélaganna voru allir annað hvort stjórnendur eða stórir eigendur á þessu tímabili, gætu þá einfaldlega átt rétt á skaðabótum frá fyrrverandi eigendum í ljósi þess að þeim voru leyndar upplýsingar. Augljóslega getur slíkt þó ekki átt við minni hluthafa sem hafa enga málsvara í stjórn eða hafa ekki aðgang að þeim upplýsingum sem stærri hluthafarnir hafa. Þó mætti færa rök fyrir því að stjórn félagsins í umboði eigenda væri skaðabótaskyld gagnvart minni hluthöfum, a.m.k. ef fyrirtækin væru skráð í Kauphöllina enda ljóst að verðmæti félaganna myndi lækka töluvert m.a. vegna sektargreiðslna og skaðabótaskyldu gagnvart viðskiptavinum o.s.frv.
Þau fyrirtæki sem héldu útboð á þessu tímabili hljóta einnig að eiga rétt á skaðabótum frá olíufélögunum. Slíkar skaðabætur ættu að endurspegla núvirtan verðmun sem má ætla að eigi að vera til staðar undir eðlilegum kringumstæðum. Miðað við fjölda þeirra útboða sem nefnd hafa verið í fjölmiðlum má gera að því skóna að slíkar skaðabætur gætu numið a.m.k. nokkur hundruð milljónum króna.
Nú nýlega hafa öll olíufélögin skipt um eigendur eða a.m.k. mjög stórir eignarhlutar í þeim. Tvö þeirra, Olís og Ker hf., áður Olíufélagið hf. (Esso), hafa verið afskráð úr Kauphöllinni. Maður hlýtur að spyrja sig að því hvort þessi viðskipti hafi eitthvað með umrædda skýrslu samkeppnisstofnunnar að gera. Það er allavega auðveldara að “fela” ýmsa hluti í einkafyrirtæki en í fyrirtæki sem er skráð á markað og með yfirtöku félaganna er líka komið í veg fyrir hugsanlega skaðabótaskyldu stjórnar gagnvart minni hluthöfum. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvernig niðurstaða þessa máls verður. Vonandi munu þó Samkeppisstofnun og dómstólar taka hart á þessu máli reynist þessar fyrstu vísbendingar réttar.
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008