Það má eflaust rökræða það lengi hvort hestar eiga yfir höfuð erindi í íþróttaumfjöllun alvarlegra fjölmiðla. Margir eru þeirrar skoðunar að hestamennska snúist miklu fremur um félagsskap, söng og drykkju heldur en nokkurn tíman íþróttaiðkun. Reyndar er frægt viðtalið sem tekið var við liðsstjóra íslenska hestalandsliðsins eftir Heimsmeistaramótið 2001 þegar hann þakkaði góðan árangur því að liðsmenn drukku óvenju lítið á mótinu. Hvort þetta var ætlað sem brandari veit enginn.
Hestamennska er vissulega vinsælt tómstundagaman. Rúmlega 80.000 hross eru hér á landi og þau eru verðmæt útflutningsvara. Reyndar hafa margir efnast á því að svindla á opinberum gjöldum í tengslum við útflutning þeirra en það er önnur saga. Það má því vissulega færa rök fyrir því að sérstakur kynningarfulltrúi sé góð hugmynd. En að slíkt embætti sé stofnað af ríkisvaldinu hlýtur að vera með verri ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið í lengri tíma.
Þrír umboðsmenn eru starfandi á landinu, Umboðsmaður Alþingis, Umboðsmaður barna og nú Umboðsmaður íslenska hestsins sem hefur það hlutverk að auka orðspor hans á innlendum og erlendum vettvangi. Kjósendur hafa engan umboðsmann, hvað þá fatlaðir, sjúkir eða aldraðir. Það má því taka undir gagnrýni Guðrúnar Ögmundsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar þegar hún gagnrýndi forgangsröðun stjórnarinnar. Það er ekki ætlunin að mæla með því að hver einasti þrýstihópur fái sérstakan umboðsmann en vissulega ætti að forgangsraða fjármunum ríkisvaldsins á skynsamlegan hátt.
Á næstu þremur árum fara um 55 milljónir í verkefnið en um 45 milljónir koma úr sjóðum þriggja ráðuneyta, landbúnaðar-, samgöngu- og utanríkisráðuneytis. Markmiðið er að efla jákvæða ímynd hrossaræktar og hestamennsku með áherslu á hlutverk Íslands sem upprunalands íslenska hestsins og forystuhlutverk þess í kynbótum, ræktun og fagmennsku á sviði hestamennsku. Jafnframt á að auka sölu á hrossum og vörum og þjónustu sem þeim tengjast innan lands og utan og fræða nemendur í grunnskólum og framhaldsskólum um hestamennsku.
Allt er þetta gott og gilt en slíkt verkefni ætti að vera kostað af fyrirtækjum og hrossaræktendum sjálfum. Að lokum skal tekið fram að íþróttadeild Deiglunnar mun ekki leggja það í vana sinn að fjalla um hross eða önnur dýr. Hross eru góð til reiðar og til átu en falla ekki í flokk með hefðbundnum íþróttagreinum.
Að lokum má velta því fyrir sér hvort áhugamenn um íslenska glímu krefjast þess ekki bráðlega að stofnað sé sérstakt embætti fyrir þá. Einnig má hugsa sér Umboðsmann íslenska vatnsins, Umboðsmann íslenskrar fegurðar og Umboðsmann íslenskrar hreysti. Umboðsmaður Deiglunnar mun fara í málið strax eftir helgi.
- Gerpla og Selfoss Íslandsmeistarar í hópfimleikum - 13. mars 2007
- Útlitið svart hjá West Ham - 3. mars 2007
- Fátt stöðvar Lakers - 15. nóvember 2003